Mont Pelerin Society var stofnað í apríl 1947, þegar ensk-austurríski hagfræðingurinn Friedrich August von Hayek bauð 36 öðrum frjálslyndum menntamönnum á fund á Mont Pelerin (Pílagrímsfjalli) í Sviss til þess að ræða ógnina, sem einstaklingsfrelsinu stafaði af auknum ríkisumsvifum. Á meðal fundarmanna voru Frank H. Knight, einn af áhrifamestu Chicago-hagfræðingunum, Ludwig von Mises, prófessor í New York og einna fremstur í flokki austurrísku hagfræðinganna svonefndu (sem þá bjuggu fæstir í Austurríki), ensk-austurríski heimspekingurinn Karl R. Popper, ítalski hagfræðingurinn Luigi Einaudi, forseti Ítalíu, þýski hagfræðingurinn Wilhelm Röpke, franski heimspekingurinn Bertrand de Jouvenel, franski hagfræðingurinn Jacques Rueff, einn aðalráðgjafi Charles de Gaulles, leiðtoga Frjálsra Frakka í stríðinu, annar franskur hagfræðingur, Maurice Allais, sem hlaut síðar Nóbelsverðlaun í hagfræði, og tveir bandarískir hagfræðingar, Milton Friedman og George J. Stigler, sem báðir hlutu síðar Nóbelsverðlaun í hagfræði.
Fundarmenn á Mont Pelerin ákváðu að stofna félag til að hittast annað hvort ár til skrafs og ráðagerða. Félag þeirra ætti hins vegar ekki að hafa neina yfirlýsta stefnu, tengjast öðrum samtökum eða beita sér í baráttu. Hayek var forseti félagsins til 1961, en á meðal þeirra, sem síðar hafa gegnt þeirri stöðu, eru Milton Friedman, George Stigler, James M. Buchanan, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, ítalski hagfræðiprófessorinn Antonio Martino, sem var um skeið utanríkisráðherra og síðar varnarmálaráðherra lands síns, og Gary Becker, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði. Tveir félagar að auki hafa hlotið Nóbelsverðlaun í hagfræði, Ronald Coase og Vernon Smith. Núverandi forseti félagsins er Allan Meltzer, prófessor í hagfræði í Carnegie Mellon-háskólanum í Bandaríkjunum og höfundur sögu bandaríska seðlabankans. Nokkrir kunnir stjórnmálamenn hafa verið félagar, þar á meðal Ludwig Erhard, kanslari Þýskalands, Mart Laar, forsætisráðherra Eistlands, og Vaclav Klaus, forseti Tékklands. R. Max Hartwell, sagnfræðiprófessor í Oxford, hefur skrifað sögu félagsins.
Mont Pelerin Society hélt svæðisþing á Íslandi í ágúst 2005, og sá Harold Demsetz, hagfræðiprófessor í Kaliforníuháskóla í Los Angeles (UCLA) ásamt öðrum um dagskrána, en þeir Hannes H. Gissurarson og Friðbjörn Orri Ketilsson skipulögðu ráðstefnuna. Var ráðstefnan helguð „Frelsi og eignarrétti á nýrri öld“. Íslenskir fyrirlesarar voru dr. Birgir Þór Runólfsson, dósent í hagfræði, Davíð Oddsson utanríkisráðherra, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, dr. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, dr. Ragnar Árnason prófessor og dr. Þráinn Eggertsson prófessor. Á meðal annarra fyrirlesara voru Mart Laar, Arnold Harberger, hagfræðiprófessor í Chicago-háskóla, og Vaclav Klaus. Rætt var á fundinum um eignarrétt á fiskistofnum, hvalastofnum, erfðavísum og útvarpsrásum og margt annað. Fundargestir fóru í tómstundum sínum í Bláa lónið og á Þingvöll.
Einn Íslendingur er félagi í MPS, Hannes H. Gissurarson, og sat hann í stjórn þess 1998–2004. Nokkrir aðrir Íslendingar hafa sótt fundi samtakanna, þar á meðal Birgir Ísl. Gunnarsson, þá seðlabankastjóri, Geir H. Haarde, þá fjármálaráðherra og síðar forsætisráðherra, Gunnlaugur Jónsson fjármálaráðgjafi og Hörður Sigurgestsson forstjóri.
Aðalfundur MPS 2012 var í Prag 2.–7. september, og sóttu fimm fulltrúar RNH hann, þau Hannes H. Gissurarson, Friðbjörn Orri Ketilsson, Þórunn Gunnlaugsdóttir, Ásgeir Jóhannesson, formaður Ayn Rand-félagsins á Íslandi, og Gísli Hauksson, formaður stjórnar RNH. Hannes H. Gissurarson sótti svæðisfund MPS á Galapágos-eyjum í júní 2013. Aðalfundur MPS 2014 var í Hong Kong 31. ágúst–5. september, og sóttu þrír fulltrúar RNH hann, þeir Hannes H. Gissurarson, Gísli Hauksson og Jónas Sigurgeirsson.
Þótt bandaríska stofnunin Liberty Fund sé ekki í neinum beinum tengslum við Mont Pelerin Society, deila forsvarsmenn beggja félaganna áhuga á frjálsri rannsókn og rökræðu. Stofnandi Liberty Fund, kaupsýslumaðurinn Pierre Goodrich, var hrifinn af Njáls sögu og einnig af verkum Snorra Sturlusonar. Hannes H. Gissurarson hefur skipulagt þrjár málstofur Liberty Fund á Íslandi, á Þingvöllum (þar sem rætt var um lög þjóðveldisins), í Reykholti (þar sem rætt var um verk Snorra Sturlusonar) og í Reykjavík.