Dr. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, kynnti bók sína, Conservative Liberalism, North and South: Grundtvig, Einaudi and their Relevance Today, á fjölmennum hádegisverðarfundi SES, Samtaka eldri sjálfstæðismanna í Reykjavík 26. mars 2025. Fundarstjóri var Bessí Jóhannsdóttir, formaður SES. Hannes kvaðst hafa orðið var við mikinn áhuga frjálslyndra íhaldsmanna í Evrópu á hinni fornu norrænu frjálshyggjuarfleifð, og hefðu samtök evrópskra íhaldsflokka beðið sig að gera þann samanburð á norrænni og suðrænni frjálshyggju, sem bókin geymdi. Þrír helstu hugsuðir norrænnar frjálshyggju væru íslenski sagnritarinn Snorri Sturluson, finnsk-sænski presturinn og þingmaðurinn Anders Chydenius og danska skáldið og presturinn Nikolai F. S. Grundtvig. Í bókinni hefði hann einbeitt sér að Grundtvig, sem hefði sérstöðu meðal frjálshyggjuhugsuða, því að hann hefði verið þjóðernissinni ekki síður en frjálshyggjumaður, eindreginn stuðningsmaður þess að Danir og aðrar norrænar þjóðir ræktuðu menningararf sinn. En þjóðernisstefna Grundtvigs hefði verið friðsöm, ekki áreitin. Hann hefði til dæmis ekki viljað, að Danmörk legði alla Slésvík undir sig, heldur aðeins þann hluta héraðsins, sem væri dönskumælandi og vildi vera í Danmörku. Danmörk háði tvö stríð við þýsku ríkin um Slésvík og beið ósigur í hinu síðara, 1864, en árið 1920 varð hugmynd Grundtvigs að veruleika, þegar íbúar í Norður-Slésvík (eða Suður-Jótlandi) greiddu atkvæði með því að sameinast Danmörku, en íbúar í Suður-Slésvík með því að sameinast Þýskalandi.
Hannes sagði, að greina mætti norræna leið, leið Grundtvigs, í alþjóðastjórnmálum: 1) Réttur þjóða til sjálfsákvörðunar, þar á meðal til að segja sig úr lögum við aðra þjóðir, eins og Norðmenn gerðu 1905, Finnar 1917 og Íslendingar 1918. 2) Landamærabreytingar við atkvæðagreiðslur, eins og í Slésvík 1920, þegar norðurhlutinn vildi tilheyra Danmörku og suðurhlutinn Þýskalandi. 3) Sjálfstjórn þjóðabrota, eins og Álandseyinga, Færeyinga, Grænlendinga og Sami-þjóðflokkanna. 4) Lausn ágreiningsmála fyrir dómstólum, til dæmis Svía og Finna um Álandseyjar 1921 og Dana og Norðmanna um Austur-Grænland 1933. 5) Ríkjasamstarf með lágmarksafsali fullveldis, í Norðurlandaráði og margvíslegu öðrum samstarfi.
Hannes vék að ýmsum ágreiningsmálum í alþjóðamálum. Í Úkraínu hefði myndast svipað þrátefli og í fyrri heimsstyrjöld, og frekari blóðsúthellingar væru því fánýtar. Semja yrði vopnahlé sem fyrst, en láta mætti liggja milli hluta, hvernig framtíðarskipan mála yrði. Úkraínumenn ættu hins vegar sama sjálfsákvörðunarrétt og aðrar þjóðir. Hannes kvaðst vera lítt hrifinn af stjórnarfari í Rússlandi, en utanríkisstefna Íslendinga ætti aðallega að vera að selja fisk, en ekki að frelsa heiminn, enda væri það ekki á færi smáþjóðar. Íslendingar hefðu ekki tekið þátt í viðskiptabanni á Ítalíu 1936, enda hefði þar verið góður markaður fyrir íslenskan saltfisk, og þeir hefðu 1953 snúið sér til Ráðstjórnarríkjanna, eftir að breskir útgerðarmenn settu á þá löndunarbann vegna útfærslu landhelginnar.
Í Ísrael hefði herinn sýnt mikil tilþrif og nánast lagt að velli Hamas og Hesbollah og auðmýkt klerkastjórnina í Íran. Hugmynd Trumps um að veita íbúum á Gaza skjól annars staðar ætti sér margar sögulegar hliðstæður: Ein milljón Grikkja hefði flúið frá Tyrklandi 1922; 400 þúsund Finnar hefðu flúið frá Karelíu 1940; 10–12 milljónir þýskumælandi manna hefðu verið reknar út úr Austur-Evrópu 1945; 700 þúsund Arabar hefðu flúið frá Ísrael og 800 þúsund gyðingar frá Arabaríkjunum við stofnun Ísraelsríkis 1948; hátt í milljón frönskumælandi manna hefði flúið frá Alsír 1962. Jafnfáránlegt væri að krefjast vopnahlés í stríði Ísraelshers við Hamas-hryðjuverkasamtökin og verið hefði að krefjast vopnahlés í Þýskalandi vorið 1945. Ráða yrði niðurlögum Hamas eins og nasistanna forðum. Nú væri hins vegar aðalatriðið að koma í veg fyrir, að klerkastjórnin í Íran smíðaði kjarnorkuvopn.
Hannes vék einnig að íslenskum stjórnmálum. Hann sagði kosningarnar í nóvemberlok 2024 hafa verið sögulegar, því að þær hefði markað endalok fjórflokkakerfisins, sem staðið hefði frá 1930, þegar kommúnistaflokkurinn var stofnaður, en hann breyttist síðar í Sósíalistaflokkinn, þá í Alþýðubandalagið og loks í Vinstri græna. Nú væri þetta fjórða afl, sem hefði um langt skeið verið stærra en Alþýðuflokkurinn, horfið. Fróðlegt yrði að sjá, hvernig vinstri jaðarinn myndi bregðast við, en ef hann gengi fram í þremur eða fjórum flokkum, fengi hann engin þingsæti og atkvæði greidd honum féllu niður dauð. Í rauninni hefði orðið sveifla til hægri í kosningunum, þótt Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki notið þess sérstaklega. Hann kvað upphlaupið í kringum afsögn barnamálaráðherra hafa snúist um aukaatriði og einkamál. Eina atriðið, sem máli skipti, væri, ef það var mat barnamálaráðherra, að hún hefði fyrir mörgum áratugum gerst sek um athæfi, sem ekki væri sæmandi barnamálaráðherra, hvers vegna hún tók þá þetta embætti að sér. Sagði hún þá aðeins af sér, vegna þess að upp komst um athæfið?
Margar spurningar voru bornar fram að lokinni framsöguræðu Hannesar, meðal annars um landsdómsmálið, Arabaríkin og málfrelsi í háskólum. Hannes kvað furðulegt, hvers vegna þeir Geir H. Haarde, Árni M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson og Jónas R. Jónsson hefðu sætt ásökunum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, en ekki þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jón Sigurðsson. Raunar væri óeðlilegt að tala um sök í þessu sambandi. Þetta hefði verið „svartur svanur“, óvænt áfall að utan. Eina alvarlega brotið á réttum stjórnsýsluvenjum hefði verið, að bankamálaráðherrann hefði ekki komið að þeirri ákvörðun ríkisins að kaupa banka í septemberlok 2008, en það hefði verið ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar. Hannes kvað Abrahamssáttmálann milli Ísraels og nokkurra Arabaríkja vonandi varða veginn til frekara samstarfs. Miklir möguleikar væru í samstarfi Ísraels með alla sína þekkingu og Arabaríkjanna með allt sitt fjármagn. Hannes kvað aðaláhyggjuefnið ekki vera beina ritskoðun, heldur óbeina og ósýnilega. Í háskólum kæmust menn ekki áfram, fengju ekki stöður, styrki til rannsókna og birtingar í tímaritum, hefðu þeir ekki viðteknar skoðanir, til dæmis um sambúð kynjanna eða hlýnun jarðar. Sagði hann nokkrar sögur af vist sinni í félagsvísindadeild, og hlógu fundarmenn dátt undir þeim.
Hannes lauk máli sínu á því að segja, að í alþjóðamálum ættu Íslendingar að fylgja ráðum Einars Þveræings og vera vinir allra, en þegnar einskis.