Hannes: Fjölskyldan miðlar þekkingu milli kynslóða

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, talaði á ráðstefnu um fjölskylduna, sem ECR, European Conservatives and Reformists Party, flokkur evrópskra íhaldsmanna og umbótasinna, hélt í Dubrovnik í Króatíu 18. október 2024. Hann rifjaði upp, að Aristóteles hafði í Mælskulistinni gert greinarmun á viðhorfum æskumanna, sem einkenndust af vonum, og öldunga, sem einkenndust af minningum. Fyrri hópurinn fitjaði upp á nýjungum, reyndi að breyta draumum í veruleika, síðari hópur tryggði festu, samfellu og stöðugleika. Hannes benti á, að fleiri rosknir borgarar kysu hlutfallslega í kosningum en æskumenn, jafnframt því sem hlutfall þeirra af heildinni hefði vaxið vegna hækkandi meðalaldurs. Það væri hins vegar rangt að líta á þá sem byrði. Þeir hefðu margt fram að færa, jafnt sem framleiðendur og neytendur. Þeir gætu verið þátttakendur, ekki aðeins áhorfendur.

Mateusz Morawiecki talar.

Hannes ræddi líka um greiningu fræðimanna á fjölskyldunni. Hún væri hagkvæmari neyslueining en einstaklingurinn og vettvangur sjálfvalinnar verkaskiptingar milli kynjanna. Fjölskyldan bætti tímavíddinni við lífið á tvo vegu: tengingu til fortíðar með uppeldi barna og ögun við hefðbundin gildi (stundvísi, vinnusemi, hreinlæti og svo framvegis) og tengingu til framtíðar með umhyggju fyrir afkomendum og vilja til að búa í haginn fyrir þá. En umfram allt gæddi fjölskyldan þó lífið tilgangi og merkingu. Menn væru ekki aðeins einstaklingar án tengsla við aðra, heldur líka feður og synir, mæður og dætur. Það auðveldaði mönnum að sætta sig við lífið og leita jafnvel hamingjunnar, hefðu þeir bundist öðru fólki böndum innan einhvers hóps, og mikilvægasti slíki hópurinn væri fjölskyldan, en síðan væru einnig mikilvægir söfnuðir, einkaskólar, íþróttafélög, stjórnmálaflokkar, margvísleg áhugamannasamtök og samlög, þjóðin og arfleifð hennar og ótal aðrar sjálfsprottnar einingar milli einstaklingsins með réttinn til að velja og ríkisins með réttinn til valdbeitingar. Í því sambandi minnti Hannes á, að væntanleg væri eftir hann bók, þar sem hann lýsti kenningum danska skáldsins og kennimannsins Nikolajs Grundtvigs, sem hefði verið þjóðlegur frjálshyggjumaður.

Á meðal annarra ræðumanna á ráðstefnunni voru Mateusz Morawiecki, fyrrverandi forsætisráðherra Póllands, Eugenia Roccella, ráðherra fjölskyldu- og jafnréttismála á Ítalíu, Ante Šušnjar, efnahagsmálaráðherra Króatíu, og margir þingmenn á Evrópuþinginu og á þingum ýmissa Evrópulanda. Á dagskrá ráðstefnunnar voru líka tvær ferðir. Önnur var í vínhéraðið Konavle suður af Dubrovnik, þar sem ráðstefnugestir gæddu sér á vínum héraðsins. Hin var sigling um Adríahaf á seglskútu eins og þeim, sem smíðaðar voru í Dubrovnik, á meðan borgin var sjálfstætt lýðveldi frá 1358 til 1808, en myndin hér sýnir slíka skútu: 

Comments Off

Ísrael, Arabaríkin og Vesturveldin

Ely Lassman, ungur hagfræðingur frá Ísrael, sem býr á Bretlandi, stofnandi og formaður samtakanna Prometheus on Campus, var staddur hér á landi vegna ráðstefnu Students for Liberty 12. október. Hann var fenginn til að tala um Ísrael, Arabaríkin og Vesturveldin á fundi í Þjóðminjasafninu í hádeginu 14. október 2024, og varð fundurinn að vera lokaður vegna síendurtekinnar ágengni íslenskra stuðningsmanna hryðjuverkasamtakanna Hamas og Hesbollah opinberlega síðustu vikur og mánuði, en bæði samtökin hafa á stefnuskrá sinni að tortíma Ísraelsríki. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, stjórnaði fundinum. Lassman gegndi á sínum tíma herþjónustu í varnarliði Ísraels og sagði samkomunni frá reynslu sinni sem Ísraeli og hermaður. Hann rifjaði upp, að Sameinuðu þjóðirnar lögðu til árið 1947 að skipta umboðssvæði Breta, sem hafði áður náð til nokkurra umdæma í Tyrkjaveldi, í tvö ríki, fyrir gyðinga og araba. Gyðingar samþykktu tillöguna, en arabar höfnuðu henni og hófu stríð gegn gyðingum, og þegar Ísraelsríki var stofnað vorið 1948, réðust mörg Arabaríki samtímis á það. Ísraelsmenn hrundu árásinni, en Egyptar hernámu Gaza og Jórdanir vesturbakka Jórdan-ár (sem fornmenn kölluðu Urðarbrunn). Í sexdagastríðinu árið 1967 unnu Ísraelsmenn sigur og hernámu þessi tvö svæði.

Árið 2005 hvarf Ísraelsher þó á braut frá Gaza, og urðu þeir Ísraelsmenn, sem bjuggu á svæðinu, að skilja allar eigur sínar þar eftir. Hamas náði völdum á Gaza og lögðu í rúst öll þau mannvirki, sem Ísraelsmenn höfðu reist. Þar eð það var beinlínis á stefnuskrá Hamas að drepa alla gyðinga í Ísrael, þurfti hin villimannslega árás Hamas á landið 7. október 2023 ekki að koma á óvart, þótt alvarlegur misbrestur hefði greinilega orðið á öryggisgæslu Ísraels megin. Lassman lagði áherslu á, að vígamenn Hamas og Hesbollah væru hvorir tveggja knúðir áfram af hugmyndum, sem þeir sæktu í sína sérstöku túlkun á Íslam. Margvíslegt orðalag í Kóraninum væri mjög fjandsamlegt gyðingum, þótt það væri iðulega mildað í vestrænum þýðingum. Það, sem sameinaði hryðjuverkamenn Hamas og Hesbollah annars vegar og öfgavinstrimenn á Vesturlöndum hins vegar, væri hatrið á vestrænni menningu, á fjölbreytni, frelsi, vali, einstaklingseðli. Ísrael væri eina vestræna ríkið í Miðausturlöndum.

Húsfyllir var, og spurðu fundargestir margs. Lassman var meðal annars spurður, hvort ágreiningur væri í Ísrael um átökin. Hann svaraði því til, að allir Ísraelsmenn væru sammála um, að bregðast hefði þurft af festu við hinni villimannslegu árás á þjóðina, en áherslur væru ólíkar. Hægri menn vildu umfram allt ganga milli bols og höfuðs á Hamas og Hesbollah, en vinstri menn hugsuðu frekar um að endurheimta gíslana, sem teknir voru í árásinni 7. október 2023. Lassman var líka spurður, hvers vegna jafnvel tiltölulega hófsamir vinstri menn á Vesturlöndum og ekki aðeins öfgavinstrimenn hefðu gert málstað hryðjuverkasamtaka að sínum. Lassman svaraði því til, að vinstri menn hefðu nánast alltaf ósjálfrétt samúð með lítilmagnanum, þeim, sem ætti undir högg að sækja, hinum veikasta. Skipti þá litlu sem engu máli fyrir þá, hvort sá aðili hefði réttan málstað. Ísrael hefði verið veikt fyrstu áratugina og tvísýnt um tilvist þess. Þá hefðu vinstri menn iðulega haft með því samúð. En eftir að Ísrael náði fullum styrk og sigraði Arabaríkin í sexdagastríðinu 1967, hefðu vinstri menn snúist gegn því — ekki vegna þess að málstaður þess væri orðinn rangur, heldur vegna þess að nú var það talið sterki aðilinn og arabar á yfirráðasvæði þess hinn veiki.

Comments Off

Vel heppnuð stúdentaráðstefna

Samtök frjálshyggjustúdenta í Evrópu, Students for Liberty Europe, héldu ásamt ýmsum öðrum aðilum ráðstefnu 12. október 2024 í Háskólanum í Reykjavík kl. 14–18 um „Markaði og frumkvöðla“. Tókst hún hið besta. Anton Sveinn McKee, sem hefur fjórum sinnum keppt á Olympíuleikum fyrir Íslands hönd, en er nú formaður samtaka ungra miðflokksmanna, var ráðstefnustjóri. Hann kynnti fyrst Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins og ráðherra háskóla, nýsköpunar og iðnaðar, sem mælti nokkur orð í byrjun um nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í síbreytilegum heimi, þar sem mannleg þekking virtist tvöfaldast á hverjum degi.

Fyrsta málstofa ráðstefnunnar var um hættur, sem steðja að frelsinu, og stjórnaði henni Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Tahmineh Dehbozorgi flutti áhrifamikla ræðu um æsku sína og uppvöxt í Íran, uns hún fluttist sautján ára með fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna. Í Íran eru konur kúgaðar, en í Bandaríkjunum fá einstaklingarnir að njóta sín. Hún kvað frelsið geta glatast smám saman. Allt þyrfti að spyrja, þegar lagt væri til að skerða frelsið lítillega, hverjar afleiðingarnar yrðu til langs tíma. Dr. Kristian Nimietz, hagfræðingur hjá IEA, Institute of Economic Affairs, í Lundúnum, lagði fram gögn um það, að sennilega hefðu hvorki nýlendustefna evrópu stórveldanna né þrælahald borgað sig, þegar kostnaður og ávinningur væri metið saman, þótt vissulega hefðu einstaklingar úr valdastéttinni haft af þessu hag. Raunar hefði verslun með þræla aðeins verið brot af heildarverslun Vesturlanda á átjándu og nítjándu öld. Það væri því hæpið, sem forsvarsmenn afturköllunarfársins (cancel culture) og vælumenningarinnar (wokeism) fullyrtu, að velmegun Vesturlanda væri reist á arðráni og ánauð. Það væri umhugsunarefni, að ríkustu lönd Evrópu, Sviss, Noregur og Ísland, hefðu ekki verið nýlenduveldi.

Önnur málstofan var um fyrirheit frelsisins, og stjórnaði henni hinn vinsæli hlaðvarpsstjóri Frosti Logason. Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði í Háskóla Íslands, sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar sem sérfræðingur í auðlindahagfræði, lýsti nýjum skóla í hagfræði, Free Market Environmentalism, umhverfisvernd í krafti atvinnufrelsis, sem ætti upptök sín í bók með þessu nafni, sem þeir Donald Leal og Terry Anderson hefðu gefið út árið 1991. Frumforsenda þessa skóla væri, að mynda yrði einkaeignarrétt á knöppum gæðum til þess að tryggja skynsamlega nýtingu þeirra. Mengun stafaði til dæmis jafnan af því, að enginn ætti þau gæði, sem menguð væru, til dæmis vötn og ár. Ely Lassman, nýbrautskráður hagfræðingur frá Bristol-háskóla og stofnandi og formaður Prometheus on Campus, ræddi um ólíkar merkingar, sem stuðningsmenn og andstæðingar kapítalisma legðu í orðið. Í sínum huga væri það, sem oft væri kallað kapítalismi, frelsi manna til að velja í eigin lífi. Röksemdir fyrir því væru ekki sóttar í nytjastefnu, heldur réttindi sjálfráða og skynsamra einstaklinga. Málstaður frelsisins væri umfram allt siðferðilegur.

Þriðja málstofan var um frumkvöðla, og stjórnaði henni Haukur Ingi S. Jónsson, sem stundar nám á öðru ári í fjármálaverkfræði í Háskólanum í Reykjavík og er formaður Sprota, nýsköpunarnefndar nemenda. Sænskur frumkvöðull, Ida Johansson, sem er aðeins 23 ára, lýsti því, hvernig hún stofnaði átján ára fyrirtækið Hyred, sem leiðir saman starfsfólk og fyrirtæki. Bandaríska viðskiptatímaritið Forbes valdi hana árið 2022 sem einn af átta efnilegum frumkvöðlum, en nýlega seldi hún fyrirtæki sitt og helgar sig ráðgjöf og fjárfestingum. Lovro og Marin Lesic, tvítugir tvíburar frá Króatíu, sögðu frá ýmsum verkefnum, sem þeir hafa sinnt og hafa sum hlotið verðlaun, en þeir stunda nám í fjármálafræði í Viðskiptaháskólanum í Zagreb. Þeir sögðust hafa lært þrennt: 1) Það er aldrei of seint að byrja. 2) Velgengni krefst sífelldrar þekkingaröflunar. 3) Mistök í byrjun knýja áfram velgengni síðar meir.

Dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, mælti nokkur lokaorð, en síðan bauð Anton Sveinn McKee ráðstefnustjóri gestum til móttöku og kvöldverðar í Ceres í Bragganum í Nauthólsvík, nálægt Háskólanum í Reykjavík, en þaðan er gott útsýni yfir Reykjavík og Kópavog. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, bað gesti að skála fyrir þeim tveimur aðilum, sem styrktu kvöldverðinn, Prometheus Foundation og Hvali hf., en veitingahúsið Þrír frakkar hafði útbúið ljúffenga rétti úr hvalkjöti í kvöldverðinn. Hannes gat þess í skálaræðu sinni, að þær tvær hvalategundir, sem Íslendingar veiddu, hrefna og langreyður, væru síður en svo í útrýmingarhættu.

Fyrir ráðstefnuna, 11. október, hafði Hannes birt grein í Morgunblaðinu um fyrirlesarana og boðskap þeirra:

Morgunblaðið birti 12. október viðtal við einn fyrirlesarann, Tahmineh Dehbozorgi, um íranska andófsmenn og lífið í Bandaríkjunum:

Þeir Breki Atlason, fulltrúi Students for Liberty Europe á Íslandi, og Haukur Ingi S. Jónsson skipulögðu ráðstefnuna með aðstoð þriggja gamalreyndra liðsmanna Students for Liberty Europe, þeirra Höllu Margrétar Hilmarsdóttur, Lukasar Schweigers og Magnúsar Arnar Gunnarssonar, og þeirra Viktors Leví Andrasonar, Gunnars Snæs Mogensens og fleiri. Föstudagskvöldið 11. október bauð Hannes H. Gissurarson ræðumönnum og skipuleggjendum í grillveislu heim til sín.

Ræðumenn og skipuleggjendur frá v.: Haukur Ingi S. Jonsson, Ely Lassman, Marin Lesic, Ida Johansson, Kristian Niemietz, Tahmineh Dehbozorgi, Lovro Lesic, Ragnar Árnason, Breki Atlason og Sveinn Anton McKee. Ljósm.: Viktor L. Andrason.

Comments Off

Birgir Þór félagi í Mont Pelerin samtökunum

Dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, var kjörinn félagi í Mont Pelerin samtökunum á aðalfundi þeirra, sem haldinn er annað hvort ár og var að þessu sinni háður í Nýju Delhí á Indlandi 21.–26. september 2024. Auk hans sóttu Ragnar Árnason, prófessor emeritus í fiskihagfræði í Háskóla Íslands, og Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, fundinn. Mont Pelerin samtökin eru alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna, sem Friedrich A. von Hayek stofnaði í Sviss í Apríl 1947, en á meðal stofnfélaga voru hagfræðingarnir Maurice Allais, Milton Friedman og George J. Stigler, sem allir áttu auk Hayeks eftir að hljóta Nóbelsverðlaun í hagfræði, hinir kunnu hagfræðingar Frank H. Knight, faðir Chicago-skólans í hagfræði, Ludwig von Mises, einn af feðrum Austurríska skólans í hagfræði, og Luigi Einaudi, forseti Ítalíu 1948–1955, dr. Trygve Hoff, ritstjóri verslunartímaritsins Farmand í Noregi, Eli F. Heckscher, hagfræðiprófessor í Svíþjóð, og Herbert Tingsten, stjórnmálafræðiprófessor í Svíþjóð og síðar ritstjóri stórblaðsins Dagens Nyheter. Hannes sótti sinn fyrsta fund í Stanford haustið 1980, varð félagi haustið 1984, sat í stjórn samtakanna 1998–2004 og skipulagði ásamt prófessor Harold Demsetz fund samtakanna í Reykjavík í ágúst 2005.

Á fundinum tók Hannes tvisvar til máls. Á málstofu um hagstjórn á Indlandi var því lýst, hvernig menntamenn úr valdastéttinni tóku við völdum úr höndum Breta árið 1947 og komu á þunglamalegu kerfi skrifræðis og áætlunarbúskapar, þótt þeir varðveittu öll ytri merki lýðræðis. Hannes spurði, hvort ekki hefði verið heppilega að færa völdin til sjálfstjórnarsvæða, jafnt svæða undir beinni stjórn Breta, sem hefðu orðið lýðveldi, og furstadæma eins og Hyderabad og Mysore, en valdastéttin lagði þau undir sig með hervaldi skömmu eftir stofnun Indlands. Þá hefði ef til vill sprottið upp samkeppni um stjórnarhætti í stað þess, að allir væru neyddir undir sama kerfi, sem smíðað var af vinstri sinnuðum kennurum indversku valdastéttarinnar í Lundúnum, Oxford og Cambridge. Á málstofu um Nóbelsverðlaunin til Hayeks árið 1974, fyrir fimmtíu árum, sagði Hannes frá heimsókn Hayeks til Oxford vorið 1983, þar sem Hannes og félagar hans báðu um leyfi til að stofna Hayek Society til skrafs og ráðagerða. „Já, ef þið lofið mér að verða ekki hayekistar,“ svaraði Hayek. „Ég hef tekið eftir, að marxistarnir eru miklu verri en Marx og keynesverjarnir miklu verri en Keynes.“

Á fundinum fóru norrænu þátttakendurnir í kvöldverð á veitingastað eitt kvöldið og tóku með sér þýskan hagfræðing, Kristian Niemietz, sem átti skömmu seinna að tala á Íslandi. Frá v. David Andersson, Svíþjóð og Taívan, dr. Kristian Niemietz, dr. Lars Peder Nordbakken, Noregi, dr. Nils Karlson, Svíþjóð, próf. Ragnar Árnason, próf. Anna Agnarsdóttir (eiginkona Ragnars), Susanne Enger (eiginkona Karlsons), Svíþjóð, próf. Hannes H. Gissurarson og Håkan Gergils, Svíþjóð.

Comments Off

Hannes: Kjósendur gegn valdastéttinni

Í upptökuherbergi Frosta er mynd af gömlum vini Hannesar, Davíð Oddssyni.

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var í hlaðvarpi Frosta Logasonar 19. september 2024. Hann kvað kosningar í mörgum Evrópuríkjum sýna fernt: 1) Kjósendur sætta sig ekki við óheftan innflutning fólks frá múslimaríkjum, ef og þegar það neitar að laga sig að aðstæðum í gistilandinu. 2) Þeir sætta sig ekki við aukna miðstýringu og færslu valds frá þjóðríkjum til skriffinnskubáknsins í Brüssel. 3) Þeir sætta sig ekki við, að menntamennirnir, sem hafa lagt undir sig skóla og fjölmiðla, berjist gegn vestrænum gildum og fyrir afturköllunarfári (cancel culture) og vælugangi (wokeism). 4) Þeir sætta sig ekki við, að Kínaveldi hafi ótakmarkaðan aðgang að vestrænum neytendum, en brjóti um leið leikreglur hins frjálsa markaðar. Í Evrópu væru venjulegir kjósendur að rísa upp gegn hrokafullri valdastétt. Hannes kvað lausnina á stríðinu í Úkraínu vera vopnahlé, en eftir það gætu íbúar umdeildra svæða kosið, hvort þeir vildu frekar vera í Úkraínu eða Rússlandi, eins og íbúar Slésvíkur kusu um það árið 1920, hvort þeir vildu vera í Danmörku eða Þýskalandi. Hann kvað lausnina á átökum Ísraelsmanna og Palestínu-Araba ekki vera tvö ríki, heldur eitt ríki, Ísrael, sem veitti hins vegar svæðum Palestínu-Araba víðtæka sjálfstjórn, svipað og Finnland veitir íbúum Álandseyja. Í innflytjendamálum taldi Hannes, að gera yrði greinarmun á ríkisborgurum annars vegar og öðrum innflytjendum og hælisleitendum hins vegar. Í réttarríki mætti ekki mismuna ríkisborgurum, en ríki hefðu ekki sömu skyldur við aðra innflytjendur og hælisleitendur. Til greina gæti komið að greiða ríkisborgurum, sem ekki gætu lagað sig að vestrænum gildum, fyrir að dvelja í upprunalöndum sínum.

Comments Off

Tupy: Því fleira fólk, því betra

Sumarið 2022 kom út bókin Superabundance; the Story of Population Growth, Innovation, and Human Flourishing on an Infinitely Bountiful Planet, sem þýða mætti sem Ofurallsnægtir: Sagan um fólksfjölgun, nýsköpun og mannlegan þroska á sígjöfulli reikistjörnu. Er hún eftir þá dr. Marian Tupy, sérfræðing í Cato-stofnuninni í Washington-borg og hagfræðiprófessorinn Gale Pooley. Þar setja þeir fram tvær meginkenningar: 1) Fólksfjölgun þarf ekki að vera áhyggjuefni, því að við frjálst atvinnulíf skapar hver nýr einstaklingur meiri verðmæti en hann neytir. Auðlindir eru síður en svo að ganga til þurrðar. 2) Framfarir hafa orðið miklu meiri og örari en kemur fram í venjulegum mælingum á hagvexti. Miða á við tímaverð gæða, ekki peningaverð þeirra, en með tímaverði eiga höfundar við þann tíma, sem það tekur að vinna fyrir gæðunum.

Fyrri kenninguna staðfestir reynslan. Hrakspár í Endimörkum vaxtarins (The Limits to Growth) og Heimi á helvegi (A Blueprint for Survival), sem báðar komu út á Íslandi árið 1973, hafa ekki ræst. Framleiðsla matvæla hefur vaxið hraðar en fólki hefur fjölgað. Auðlindir hafa ekki heldur gengið til þurrðar, því að hvort tveggja er, að nýjar auðlindir hafa fundist og að hinar gömlu eru nýttar miklu betur en áður. Ef til dæmis er smíðuð ný vél, sem eyðir helmingi minna eldsneyti en hin gamla, sem notuð var í sama tilgangi, þá jafngildir það því, að eldsneytisbirgðir í þessar þarfir hafa tvöfaldast. Seinni kenninguna er auðvelt að skilja. Ef brauðhleifur kostar 200 krónur, en neytandi hans fær 2.000 krónur á tímann, þá er tímaverð hans sex mínútur. En ef hleifurinn hækkar í 220 krónur og tímakaup neytandans í 2.400 krónur, þá hefur tímaverð hans lækkað í fimm mínútur og 24 sekúndur. Eitt besta dæmið um feikilegar framfarir, sem komast ekki alltaf til skila í venjulegum hagmælingum, er verðið á ljósi. Árið 1800 kostaði 5,37 vinnustundir venjulegs verkamanns að kaupa sér ljós í einn klukkutíma. Nú kostar það innan við 0,18 sekúndur.

Marian Tupy kom til Íslands í júlí 2024 og talaði á fjölsóttum fundi í Háskóla Íslands 24. júlí. Að ræðu hans lokinni stjórnaði Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, umræðum, sem voru hinar fjörugustu. Meðal annars var Tupy spurður, hvort orðið hefðu framfarir í siðferðilegum efnum, eins og þeir Pooley héldu fram í bók sinni, þegar höfð væri í huga hin hræðilega saga tuttugustu aldar, útrýmingarbúðar nasista í Auschwitz og þrælkunarbúðir kommúnista í Karaganda. Tupy svaraði því til, að líklega hefði mannsskepnan lítt skánað, en þó yrði að meta illvirki hlutfallslega, taka tillit til fólksfjölgunar. Miklu minna væri um grimmd hlutfallslega en á fyrri öldum.

Daginn fyrir fundinn birti Hannes grein í Morgunblaðinu um boðskap þeirra Tupys og Pooleys:

Comments Off