eftir Hannes H. Gissurarson
[Grein í Tímariti Máls og menningar 73 (3), 2012, 127–134.]
Í grein undir fyrirsögninni „Kolröng mynd“ í sumarhefti Tímarits Máls og menningar 2012 telur Árni Björnsson þjóðháttafræðingur sig finna tíu villur um sjálfan sig á þeim tólf blaðsíðum, þar sem hann sé nefndur í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998. Hið rétta er, að ekkert af þessu er efnislega villa, heldur eru þetta athugasemdir Árna við orðalag og frásögn, flestar hæpnar, sumar fráleitar.
Starfsmaður IUS
Fyrsta dæmið er af eftirfarandi orðum úr bókinni: „Íslenskir sósíalistar tóku fullan þátt í næstu heimsmótum æskunnar [eftir 1957], enda var einn þeirra, Árni Björnsson, starfsmaður Alþjóðasambands stúdenta, IUS, í Prag.“
Athugasemd Árna er: „Hið rétta er, að ég var fulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands hjá Alþjóðasambandi stúdenta í samræmi við hina takmörkuðu aðild (associate membership) SHÍ að sambandinu frá því í lok ágúst 1956 fram undir mitt ár 1957, þegar Stúdentaráð sagði sig formlega úr IUS. Á þeim tíma tók ég engan þátt í undirbúningi Íslendinga að heimsmótum æskunnar. Ég var samt nokkrum mánuðum lengur í Prag því ég hafði tekið að mér að ritstýra alþjóðlegri stúdentasöngbók og vildi ljúka því verkefni.“
Árni Björnsson var á launum hjá IUS í Prag, eins og hann staðfesti við mig í símtali 26. júní 2012. Auðvitað var hann þá starfsmaður IUS, eins og ég sagði. Viðtal var við Árna í Þjóðviljanum 4. janúar 1958 og hann þar kynntur til sögu sem fyrrverandi starfsmaður IUS! Hins vegar sagði ég ekki, að Árni hefði tekið þátt í undirbúningi Íslendinga undir heimsmót æskunnar, heldur, að íslenskir sósíalistar hefðu tekið fullan þátt í mótunum. Einn þeirra var raunar Árni Björnsson. Hann sótti meðal annars heimsmót æskunnar í Varsjá sumarið 1955, var þar kórstjóri íslensku gestanna samkvæmt Þjóðviljanum 19. mars 1955 og sagði frá förinni á samkomu 12. janúar 1956 samkvæmt Þjóðviljanum sama dag.
Árni Björnsson var formaður undirbúningsnefndar fyrir heimsmótið í Vín 1959, eins og hann rakti í heilsíðugreinum í Þjóðviljanum 19. og 20. febrúar 1959. Hann sótti meira að segja undirbúningsfund mótsins í Colombo á Ceylon (nú Sri Lanka) í desember 1958 og sagði frá þeirri för í Þjóðviljanum 3. og 7. apríl 1959. Einnig talaði hann um mótið á fundum í Reykjavík 13. maí og 9. júlí samkvæmt Þjóðviljanum þá daga. Árni var fararstjóri á mótið og sagði síðan frá því á fundi 14. ágúst, eins og Þjóðviljinn hermdi sama dag.
Næsta dæmi Árna er um svofelld orð í bók minni: „Eftir að Kress fékk fjárveitingu 1961 til að ráða Íslending til kennslu, bað hann Einar Olgeirsson að benda sér á mann. Einar talaði við Árna Björnsson, sem nýlokið hafði prófi í íslenskum fræðum í Háskóla Íslands.“ Athugasemd Árna er: „Rétt tímaröð er að ég lauk prófi í lok janúar 1961. Alexander Jóhannesson fv. háskólarektor og Björn Sigfússon háskólabókavörður sneru sér báðir til mín á útmánuðum og sögðu prófessor Bruno Kress vera að leita að íslenskum sendikennara. Þar sem ekki var stjórnmálasamband við Austur-Þýskaland, hafði Bruno tekið það ráð að skrifa gömlum kennara sínum og skólabróður. Það var ekki fyrr en seinna um vorið sem Einar Olgeirsson talaði við mig um sama efni, en þá hafði Bruno líka skrifað honum. Í millitíðinni hafði ég sótt um sendikennarastöðu í Björgvin í Noregi. Eftir að annar maður, Magnús Stefánsson, varð fyrir valinu, ákvað ég að þiggja stöðuna í Greifswald og starfaði þar þrjú misseri frá október 1961 til ársloka 1962.“
Ég bið lesandann að lesa vandlega orð mín og frásögn Árna og svara spurningunni: Hvar er villan? Árni leiðréttir hér ekki neitt, heldur bætir við viðbótarupplýsingum um sjálfan sig. En bók mín var ekki um ævi hans, heldur um íslenska kommúnista og tengsl þeirra við hina alþjóðlegu kommúnistahreyfingu.
„Stasi-ævintýri“ Árna
Þriðja dæmi Árna eru þessi orð mín: „Tók Árni samstarfi við Stasi líklega í fyrstu að sögn Guðmundar [Ágústssonar], en hafnaði boðinu, eftir að ljóstrað var snemma árs 1963 upp um tilraunir starfsmanna sendiráðs Ráðstjórnarríkjanna í Reykjavík til að fá íslenska sósíalista til njósna.“
Við þetta gerir Árni þessa athugasemd: „Ég hef margsinnis greint frá „Stasi-ævintýri“ mínu, fyrst í morgunútvarpi hjá Páli Heiðari Jónssyni veturinn 1980–81 og seinast í tímaritinu Þjóðmálum, 4. hefti 2006, s. 28–32. Þar má glöggt sjá að ekki er heil brú í atburðalýsingu Hannesar.“
Stasi-menn skrifuðu skýrslur um samtöl sín við Árna Björnsson, og og hefur efni úr þeim birst opinberlega. Samkvæmt skýrslu frá 6. maí 1963 hafði Árni „lýst sig í grundvallaratriðum reiðubúinn að miðla upplýsingum“ til Stasi um Freie Universität, þar sem hann kenndi, og um starfsemi sína að öðru leyti. Í því samtali sagði Árni Stasi-mönnum, að Vestur-Þjóðverjar hefðu varað sig við njósnaumleitunum. Samkvæmt skýrslu frá 20. desember 1963 endurtók Árni, að hann hefði verið varaður við. Hann sagði, að njósnir fyrir Stasi gætu spillt fyrir sér og flokki sínum. Nýlegar tilraunir starfsmanna sendiráðs Ráðstjórnarríkjanna í Reykjavík til að fá íslenska sósíalista til njósna hefðu „skaðað álit Ráðstjórnarríkjanna og komið félögum Sósíalistaflokksins gjörsamlega í opna skjöldu“. Samkvæmt skýrslu frá 20. nóvember 1964 hafði Árni lofað Stasi-mönnum að velta því fyrir sér, hvort hann gæti gerst uppljóstrari fyrir þá, en ekkert orðið úr því.
Árni Björnsson hefur hvergi vísað þessum atriðum efnislega á bug, þótt hann hafi við ýmis tækifæri prjónað við þau skýringar um eigið hugarvíl. Vandséð er og, hvers vegna Stasi-menn hefðu átt að skálda eitthvað upp um samtöl sín við Árna, því að þá hefðu þeir sett sjálfa sig í hættu gagnvart yfirmönnum sínum. Orð mín standa óhögguð: Árni tók samstarfi við Stasi líklega í fyrstu, en ein ástæðan til þess, að hann treysti sér ekki til að gerast uppljóstrari, var væntanlega sú, sem hann sagði sjálfur Stasi-mönnum, að komist hafði snemma árs 1963 upp um tilraunir ráðstjórnarmanna til njósna í Reykjavík. Einmitt þess vegna höfðu viðvaranir Vestur-Þjóðverja áhrif á hann, eins og Stasi-menn töldu bersýnilega samkvæmt skjölum sínum.
Hvers vegna sneri Stasi sér til Árna Björnssonar í upphafi og reyndi síðan að gera hann að uppljóstrara? Var það ekki vegna þess, að hann hafði látið líklega um það við Guðmund Ágústsson, sem síðar varð raunar áhrifamaður í Alþýðubandalaginu og formaður flokksfélagsins í Reykjavík? Vekja verður athygli á því, að Árni þagði áratugum saman um hvort tveggja, að Guðmundur hefði verið flugumaður Stasi og að reynt hefði verið að fá hann sjálfan til njósna fyrir erlent ríki. Minntist hann ekki á hið síðara opinberlega fyrr en í útvarpsþætti árið 1980. En Árni þagði ekki aðeins, heldur varði jafnvel Berlínarmúrinn á fundum, eins og ég vík að síðar.
Fjórða dæmið eru eftirfarandi orð, sem Árni hefur eftir mér: „Miðstjórn austur-þýska flokksins veitti aftur íslenskum námsmönnum fjárstyrk og fararleyfi til Hamborgar fyrir bæjar- og sveitarstjórnarkosningar 1962. Þá voru […] þau Árni Björnsson og Vilborg Harðardóttir í Greifswald.“ Síðan segir Árni: „Við Vilborg fórum til Kaupmannahafnar að kjósa og greiddum ferðina sjálf, enda vorum við ekki námsmenn.“
Á þetta að vera leiðrétting? Hér breytir Árni merkingu með því að fella út texta. Í heild sinni hljóðar þessi texti svo: „Þá voru íslenskir kjósendur í Austur-Þýskalandi taldir nítján, flestir í Leipzig, þar á meðal Franz Adolf Gíslason, Ingimar Jónsson og Hjörleifur Guttormsson. Guðmundur Ágústsson var þá í Berlín og þau Árni Björnsson og Vilborg Harðardóttir í Greifswald.“
Ég fullyrti ekkert um, að þau Árni og Vilborg hefðu þegið styrk af austur-þýsku stjórninni til að fara að kjósa í Hamborg, heldur taldi ég upp þá íslensku kjósendur í Austur-Þýskalandi, sem Sósíalistaflokkurinn vissi um. En vissulega er það saga til næsta bæjar, að nokkrir íslenskir stúdentar hafi tekið við fjárstyrk frá erlendu einræðisríki til að kjósa í kosningum á Íslandi.
„Góðar“ greinar um Berlínarmúrinn
Fimmta „villan“ eru þessi orð mín um SÍA, Sósíalistafélag Íslendinga austantjalds: „Framhaldsstofnfundur var haldinn í Reykjavík 2.–3. ágúst 1958. Á meðal þeirra, sem störfuðu eitthvað í SÍA næstu ár voru […] Árni Björnsson, Vilborg Harðardóttir, Ólafur Hannibalsson og Þorgeir Þorgeirsson í Tékkóslóvakíu.“ Þetta „leiðréttir“ Árni svo: „Við Vilborg fluttumst heim frá Tékkóslóvakíu haustið 1957.“
Þau Árni og Vilborg störfuðu líklega ekki í SÍA, á meðan þau dvöldust í Tékkóslóvakíu 1956–1957, þótt samtökin væru þá að myndast í Austur-Þýskalandi. Hér er hins vegar aðalatriðið, að þau höfðu verið í Tékkóslóvakíu. Samkvæmt reglum SÍA gátu menn orðið félagar, hefðu þeir stundað nám í einhverju austantjaldslandanna. Þau hjónin störfuðu bæði í SÍA. Þau eru til dæmis bæði skráð í Íslandsdeild SÍA í skýrslu um 18. þing Æskulýðsfylkingarinnar 1959.
Árni Björnsson sótti einnig aðalfund SÍA í Austur-Þýskalandi 28. desember 1961. Kommúnistastjórnin þar hafði skömmu áður reist Berlínarmúrinn og Guðmundur Ágústsson skrifað í Þjóðviljann greinar því til stuðnings. Árni sagði samkvæmt fundargerð (sem er eitt af SÍA-skjölunum), að greinar Guðmundar hefðu um sumt verið barnalegar, til dæmis það, að vöruframboð hefði aukist í Austur-Þýskalandi, eftir að múrinn reis, en greinarnar hefðu engu að síður verið „góðar og heppilegar“.
Fróðlegt er einnig í þessu viðfangi að lesa það, sem þáverandi kona Árna, Vilborg Harðardóttir, sagði miklu síðar, í viðtali við Þjóðviljann 25. október 1983: „[V]ið SÍA-fólkið, sem verið höfðum lengri eða skemmri tíma í Austur-Evrópu og höfðum orðið fyrir miklum vonbrigðum með það, sem þar vildi heita sósíalismi, vorum óskaplega spennt fyrir því, sem var að gerast í Tékkóslóvakíu 1968.“
Sjötta „villa“ mín er að sögn Árna, að ég taldi hann upp á undan dr. Ingimar Jónssyni, þegar þeir tveir voru framsögumenn á fundi, en hefði átt að hafa röðina öfuga, því að Ingimar var fyrri framsögumaður! Ekki þarf að svara þeirri hótfyndni.
„Lygi“ um Afganistan
Sjöunda dæmið er um Afganistan. Ég hafði í bók minni rifjað upp orð Árna Björnssonar frá 1973 um það, að Kremlverjar hefðu hvergi látið illum látum nema í Austur-Evrópu: „En hvers vegna hafa þeir haldið sig á þessu tiltölulega litla svæði, ef þeir eru svo útþenslusamir, en ekki ólmast inn í þau mörgu hernaðarlegu veiku lönd, sem liggja umhverfis hin víðlendu Sovétríki og hafa þó ekki verið í neinu hernaðarbandalagi við Bandaríkin? Sem dæmi skulu nefnd Indland, Afganistan, Írak, Júgóslavía og Austurríki.“ Árni svaraði sjálfum sér: „Ástæðan er ofureinföld. Það hefur alltaf verið lygi, að árás frá Sovétríkjunum væri yfirvofandi.“ Eins og ég benti á, réðust Kremlverjar inn í Afganistan 1979.
Athugasemd Árna er: „Á s. 487 er reynt að nota innrásina í Afganistan 1979 til að snúa út úr þeirri staðhæfingu minni að Sovétríkin hefðu aldrei ráðist yfir þau mörk sem samið var um í stríðslok 1945. Um Afganistan var ekkert samið 1945, enda var landið utan allra stríðsátaka 1939–1945.“ Mér er ekki ljóst, á hverju þetta er „leiðrétting“. Ábending mín var einföld: Árni hafði 1973 vísað því á bug sem „lygi“, að Kremlverjar myndu ráðast inn í Afganistan, en þeir gerðu það 1979 og höfðu raunar hlutast mjög til um innanríkismál þar áður, eins og segir frá í Svartbók kommúnismans.
Áttunda dæmi Árna er svofelld orð mín: „Til dæmis sögðu þeir Árni Björnsson, Hjalti Kristgeirsson og Loftur Guttormsson sig úr ritnefnd Réttar í ársbyrjun 1982 til að mótmæla minningargrein Einars Olgeirssonar þar um Míkhaíl Súslov.“ Árni segir, að Svava Jakobsdóttir hafi þá líka sagt sig úr ritnefndinni. En þetta er ekki villa. Til þess að rit verði ekki of staglkennd, verður höfundur að velja og hafna, sérstaklega í upptalningum.
Níunda og tíunda atriðið eru bæði um það, að ég hefði átt að taka fram, eftir að Vilborg Harðardóttir og sonur þeirra Árna Björnssonar, Mörður, tóku að láta að sér kveða í Alþýðubandalaginu, hvenær Vilborg var þáverandi og hvenær fyrrverandi eiginkona Árna. En þetta er ekki heldur villa, heldur fróðleiksmoli, sem Árni telur skipta máli, en ég ekki, í þessu samhengi.
Þau tíu atriði, sem Árni telur upp í grein sinni, snúast ekki um neinar villur mínar, heldur um sitt hvað, sem Árni vildi, að ég segði um sig og samtíðarmenn sína. Árni ætlaði að beita einfaldri brellu: Samherjar hans ættu eftir snöggan lestur greinar hans að geta endurtekið sigri hrósandi hver eftir öðrum, að á tólf blaðsíðum bókar minnar hefði hann fundið tíu villur um sjálfan sig. Hér vanmetur Árni lesendur Tímarits Máls og menningar. Þeir eru prýðilega læsir, syngja hver með sínu nefi og þurfa ekki á neinum kórstjóra að halda, jafnvel ekki frá Varsjá.
Hverju held ég fram?
Raunar viðurkennir Árni Björnsson, að allt það, sem hann nefnir, séu smámunir, sem raski ekki heildarmyndinni í bók minni. Hann telur þessa mynd hins vegar kolranga. „Það eru nefnilega engir smámunir þegar hundruð og þúsundir af hrekklausu alþýðufólki, mannvinum og þjóðhollum mönnum eru kynnt til sögunnar sem annaðhvort fantar eða fífl.“
Ég held engu slíku fram í bók minni. Hitt segi ég þar og stend við:
- Kommúnistaflokkurinn íslenski 1930–1938 var stofnaður samkvæmt fyrirmælum frá Moskvu, þáði þaðan fjárstyrki og fylgdi fast línunni úr Kreml. Hann vildi beita og beitti ofbeldi í baráttu sinni, eins og kveðið var á um í starfsreglum Kominterns, Alþjóðasambands kommúnista, sem hann átti aðild að.
- Forystusveit Sósíalistaflokksins 1938–1968 var skipuð kommúnistum, sem alla tíð voru hollir valdhöfum í Ráðstjórnarríkjunum og þáðu þaðan ríflega fjárstyrki, þótt eflaust hafi margir kjósendur flokksins ekki talið sig vera að kjósa kommúnistaflokk. Afstaða flokksins til ofbeldis var „díalektísk“ eða tvíræð, eins og Brynjólfur Bjarnason orðaði það.
- Alþýðubandalagið 1968–1998 var ekki kommúnistaflokkur, en þar voru samt áhrifamenn, sem vildu ekki rjúfa tengsl við kommúnistaflokka einræðisríkja, til dæmis Rúmeníu og Kúbu. Síðasta verk forystusveitar Alþýðubandalagsins var að fara í boðsferð til kúbverska kommúnistaflokksins.
Árni Björnsson fullyrðir, að ég skilgreini ekki nægilega vel kommúnisma, „sem í grunninn er öðru fremur réttlætiskennd, samvinna og samúð“. En slík upptalning er á markmiðum, ekki leiðum. Við erum öll hlynnt réttlæti, samvinnu og samúð, þótt mörg okkar telji, að fara eigi aðrar leiðir en kommúnistar vildu. Um þetta var einmitt ágreiningur kommúnista og jafnaðarmanna, eins og ótal dæmi eru rakin um í bók minni. Þar er komin skilgreiningin: Kommúnistar vildu ekki einskorða sig við lýðræði til að ná sömu markmiðum og jafnaðarmenn, heldur beita ofbeldi, þyrfti þess með að þeirra dómi. Ein helsta niðurstaðan í bók minni er, að íslenskir kommúnistar hafi ekki verið frábrugðnir kommúnistum annars staðar um þetta, og ætti hún ekki að koma á óvart.
Fjárstyrkir og vopnaburður
Árni Björnsson segir aðeins eitt ótvírætt dæmi til um styrk að austan til fyrirtækja tengdra Sósíalistaflokknum. Það sé, þegar Kristni E. Andréssyni tókst „með herkjum að kría út styrki frá Rússum til að ljúka við hús Máls og menningar“. En vitað er um fjölmarga styrki til Sósíalistaflokksins eða fyrirtækja tengdra honum. Ef Árni vill ekki taka mark á mér, þá ætti hann að trúa Kjartani Ólafssyni. Í Morgunblaðinu 3. nóvember 2006 taldi Kjartan upp eftirfarandi styrki (í Bandaríkjadölum) frá Kremlverjum til íslenskra sósíalista:
- 1955 15.000
- 1956 20.000
- 1959 30.000
- 1961 30.000
- 1963 25.000
- 1965 25.000
- 1966 25.000
Svo er að sjá af heimildum, að mestallt hafi þetta fé runnið til Máls og menningar (nema ef til vill síðustu greiðslurnar). Að auki er vitað um lífeyrisgreiðslur til Kristins E. Andréssonar, framkvæmdastjóra Máls og menningar, 1968 og 1970, og nam hvor um sig 20.000 dölum. Kjartan nefnir hins vegar ekki styrki til Kristins E. Andréssonar á stríðsárunum, sem einnig eru til heimildir um.
Í bók minni benti ég á fleiri styrki, sérstaklega fyrr á tíð. Ég minnti enn fremur á, að bókfærðir fjárstyrkir voru aðeins hluti þeirrar fjárhagsaðstoðar, sem íslenskir sósíalistar nutu að austan. Sumt hefur verið strangleynilegt, til dæmis þegar leyniþjónusta Kremlverja átti í hlut. Einnig fengu sósíalistar stundum prentuð rit, pappír eða prentvélar fyrir lítið fé eða ekkert frá kommúnistaflokkum erlendis. Kremlverjar kostuðu rekstur Menningartengsla Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, þar sem einn eða tveir menn voru í fullu starfi, og hefur það eflaust nýst Sósíalistaflokknum. Margir íslenskir sósíalistar stunduðu nám í kommúnistaríkjunum, sem þeir greiddu ekki sjálfir fyrir, heldur almenningur þeirra landa. Enn fremur þáði fjöldi manns boðsferðir til kommúnistaríkjanna, sem þóttu á þeim árum veruleg fríðindi. Allt veitti þetta forystusveit Sósíalistaflokksins drjúgt úthlutunarvald í fátæku landi.
Árni Björnsson lætur eins og lýsingar dr. Þórs Whiteheads prófessors um byltingarþjálfun íslenskra kommúnista í rússneskum leyniskólum hafi verið hraktar. Því fer fjarri. Þrír Moskvufaranna sögðust beinlínis hafa fengið tilsögn í vopnaburði, Benjamín Eiríksson, Helgi Guðlaugsson og Andrés Straumland, en systir hins fjórða, Þórodds Guðmundssonar, hafði hið sama eftir honum. Að sögn Helga Guðlaugssonar hlaut Hallgrímur Hallgrímsson einnig hernaðarþjálfun, og gerðist hann sjálfboðaliði í spænska borgarastríðinu. Í nýrri bók danska fræðimannsins Niels Eriks Rosenfeldts, Verdensrevolutionens generalstab. Komintern og det hemmelige apparat (Herráð heimsbyltingarinnar. Alþjóðasamband kommúnista og launráð þess), er staðfest, að vopnaburður var kenndur í leyniskólunum í Moskvu. Hið sama kemur fram í öðrum helstu fræðiritum um starfsemi Kominterns og skólahald þess.
Hverjir voru úthrópaðir?
Árni Björnsson kvartar undan því, að forystumenn kommúnistaflokksins og Sósíalistaflokksins séu nú „úthrópaðir sem glæpamenn af ótíndum strákum fyrir það eitt að álpast til að trúa ísmeygilegum áróðri. Sérstaklega þar sem sú trúgirni gerði engum illt nema þeim sjálfum.“ Í bók minni sýni ég hins vegar fram á, að nægar heimildir voru Íslendingum aðgengilegar um kúgunina og eymdina í kommúnistaríkjunum, allt frá því að Liba Fridland flutti hér fyrirlestra 1923 um ástandið í Rússlandi og til innrásarinnar í Tékkóslóvakíu 1968, en þá segir Árni, að vonir flestra íslenskra sósíalista hafi brostið. Ég lýsi því, hvernig íslenskir kommúnistar og sósíalistar reyndu ýmist að kæfa slíkar raddir eða hrópa niður, til dæmis bók Aatamis Kuorttis 1938 um vinnubúðir Stalíns og greinar Arthurs Koestlers 1946 um lífið undir ráðstjórn.
Hverjir voru úthrópaðir? Þeir, sem sögðu sannleikann um Ráðstjórnarríkin og fylgiríki þeirra eftir að hafa verið þar, til dæmis Benjamín Eiríksson og Arnór Hannibalsson. „Skrifaðu! Við lesum það ekki,“ hvæsti Jón Rafnsson að Benjamín á götu í árslok 1939. Gert var lítið úr þeim, sem leyfðu sér að gagnrýna Ráðstjórnarríkin, til dæmis Steini Steinarr 1956 (sem Magnús Kjartansson hæddist að í leiðara Þjóðviljans) og Jóni Óskari 1964 (sem Þorsteinn frá Hamri orti um gamankvæði í Þjóðviljann). „Því voruð þið að kjafta frá?“ spurði Jón Múli Árnason Stein Steinarr og Agnar Þórðarson eftir fræga Bjarmalandsför þeirra. Rek ég mörg fleiri dæmi í bókinni.
Óttinn við útskúfun hafði sín áhrif. Sverrir Kristjánsson trúði Ævari Kvaran og Baldvini Tryggvasyni fyrir því, að hann hefði misst trúna á Ráðstjórnarríkin, en vildi ekki segja frá því opinberlega til að styggja ekki vini sína. Á efri árum sagði Jóhannes úr Kötlum Jóni Óskari og Baldvini Tryggvasyni, að hann efaðist nú um ýmislegt í framkvæmd kommúnismans, en væri orðinn of gamall til að missa vini sína. Þess vegna þegði hann.
Saga fórnarlambanna
Árni Björnsson spyr, hvað fyrir mér hafi vakað með því að skrifa bók um íslenska kommúnista 1918–1998. Ég ætlaði satt að segja ekki að semja þetta rit, heldur gera stutt ágrip af sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar sem viðauka við Svartbók kommúnismans, sem ég gaf út 2009. En verkið óx í höndum mér og varð að heilli bók. Í henni vildi ég ekki síst minnast fórnarlambanna, sem Árni nefnir hvergi í grein sinni. Hann segir, að trúgirni íslenskra sósíalista hafi engum gert illt nema þeim sjálfum. Í þessu stutta svari get ég ekki rætt það mikla mál, hvort hreyfing íslenskra sósíalista hafi almennt gert þjóðinni meira illt en gott, eins og leiða má þó sterk rök að. En hér hef ég getið sumra þeirra Íslendinga, sem kommúnistar úthrópuðu eða útskúfuðu, þótt þá brysti afl og vonandi vilja til að senda þá í þrælakistur eins og tíðkast á Kúbu. Ekki má heldur gleyma öllum þeim íslensku lögregluþjónum, sem fengu varanleg örkuml eftir átökin við kommúnista og lesa má um í hæstaréttardómum (og bókum okkar Þórs Whiteheads).
Það, sem gerðist á Íslandi, var auðvitað hjóm eitt í samanburði við ósköpin erlendis. Talið er, að hátt í hundrað milljón manns hafi týnt lífi af völdum kommúnismans, og mörg hundruð milljónir manna í viðbót urðu að þola margvíslegar hremmingar hans vegna, sáu vonir bresta og leiðir lokast. Íslenskir sósíalistar tóku ekki beinan þátt í þessum voðaverkum, en þeir klöppuðu fyrir mönnunum, sem frömdu þau. Saga kommúnismans er ekki aðeins saga rússnesku böðlanna og klappliðs þeirra á Íslandi og annars staðar, heldur líka saga fórnarlambanna, Veru Hertzsch og Teodoras Bieliackanas, dr. Rudolfs Margolius og dr. Augusts Rei og margra annarra, sem tengdust Íslandi og ég segi frá í bókinni. Ég skrifaði þessa bók þeirra vegna.