Michael Arbuckle hefur rösklega tuttugu ára reynslu að baki sem forstöðumaður fiskveiðistjórnunar í sjávarútvegsráðuneyti Nýja Sjálands og sem forstjóri stórs útgerðarfyrirtækis. Hann er nú sérfræðingur Alþjóðabankans í Washington-borg í Bandaríkjunum í fiskveiðum.
Árni M. Mathiesen fæddist 1958. Hann lauk prófi í dýralækningum frá Edinborgarháskóla og fisksjúkdómafræði frá Stirling-háskóla, báðum í Skotlandi. Hann starfaði sem dýralæknir á Íslandi og einnig að fiskeldi, uns hann var kjörinn á þing 1991. Hann var sjávarútvegsráðherra 1999–2005 og fjármálaráðherra 2005–2009. Sem sjávarútvegsráðherra beitti hann sér fyrir að ákveða leyfilegan hámarksafla í einstökum fiskistofnum varlega og sem fjármálaráðherra lækkaði hann skatta á einstaklinga og fyrirtæki verulega, og jukust samt skatttekjur ríkisins af þessum skattstofnum. Hann hefur verið forstöðumaður fiskveiði- og fiskeldisdeildar FAO í Róm frá 2010. Hann birti bók 2010 (sem Þórhallur Jósepsson færði í letur) um síðustu ár sín í fjármálaráðuneytinu og fall bankanna, Árni Matt: Frá bankahruni til byltingar.
Ásgeir Jónsson fæddist 1970. Hann lauk hagfræðiprófi frá Háskóla Íslands og meistaraprófi og doktorsprófi í hagfræði frá Indiana-háskóla. Hann var starfsmaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands 2000–2004 og Kaupþings 2004–2011, jafnframt því sem hann kenndi í Háskóla Íslands, en hann er nú hagfræðilektor í fullu starfi í Háskóla Íslands og vinnur einnig að ráðgjöf hjá verðbréfa- og eignastýringarfyrirtækinu Gamma. Hann var ritstjóri Vísbendingar 1995–1996 og er nú ritstjóri Tímarits um viðskipti og efnahagsmál. Hann hefur skrifað fjölda greina, ekki aðeins um hagfræði, heldur líka hagsögu, í Tímarit Máls og menningar, Fjármálatíðindi, Hagmál, Viðskiptablaðið og Morgunblaðið. Hann gaf út bókina Why Iceland? How One of the World’s Smallest Countries Became the Meltdown’s Biggest Casualty 2009.
Ásta Möller fæddist 1957. Hún lauk B. Sc. prófi í almennri hjúkrunarfræði og MPA-prófi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Hún var aðjúnkt í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands, fræðslustjóri á Borgarspítalanum og framkvæmdastjóri Liðsinnis, áður en hún var ráðin framkvæmdastjóri Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands. Hún var alþingismaður Sjálfstæðisflokksins 1999–2009. Hún hefur skrifað fjölmargar greinar í blöð og tímarit um hjúkrun, atvinnurekstur og stjórnmál.
Birgir Þór Runólfsson fæddist 1962. Hann lauk hagfræðiprófum frá Lewis & Clark College og George Mason-háskóla og doktorsprófi í hagfræði frá George Mason-háskóla. Hann er dósent í hagfræði í Háskóla Íslands og hefur birt fjölda ritgerða um fiskveiðistjórnun og almannaval. Hann birti meðal annars ritgerðina „Fencing the Oceans: A Rights-Based Approach to Privatising Fisheries“ í Policy 1998, skrifaði skýrslu til sjávarútvegsráðuneytisins 1998, „Sjávarútvegur Íslendinga, þróun, staða og horfur,“ greinina „Eignarréttur er undirstaða hagkvæmni í fiskveiðum“ í Hagmál 2000 og var (ásamt Ragnari Árnasyni) ritstjóri greinasafnsins Advances in Rights Based Fishing: Extending the Role of Property in Fisheries Management, 2008.
Brian Carney lauk heimspekiprófum frá Yale-háskóla og Boston-háskóla, starfaði sem háseti á humarbáti frá Maine-ríki einn vetur og einnig við „Innovations in American Government“-áætlunina í Harvard, áður en hann gerðist blaðamaður á Wall Street Journal árið 2000, þar sem hann er nú einn af ritstjórunum. Hann hlaut Frederic Bastiat-verðlaunin fyrir blaðamennsku 2003 og Gerald Loeb-verðlaunin fyrir viðskiptatengda blaðamennsku 2009.
Michael De Alessi lauk B.A. prófi í hagfræði og M.Sc. prófi í stjórnun og verkfræði frá Stanford-háskóla, M.A. prófi í sjávarútvegsfræði frá Miami-háskóla og Ph.D. prófi í umhverfisfræðum frá Háskólanum í Kaliforníu í Berkeley. Var doktorsritgerð hans um fiskveiðistjórnun á Nýja Sjálandi. Hann stundar nú framhaldsrannsóknir í Bill Lane Center í Berkeley, en var áður rannsóknarfélagi í Reason Foundation í Los Angeles. Hann hefur samið fjölda ritgerða í tímarit, en einnig bókina Fishing for Solutions, sem IEA í Lundúnum gaf út 2003, um tæknilegar hliðar fiskveiðistjórnunar.
Guðrún Lárusdóttir fæddist 1933. Hún rekur ásamt eiginmanni sínum útgerðarfyrirtækið Stálskip í Hafnarfirði, sem stofnað var 1970. Þau hjón voru „Menn ársins í viðskiptalífinu“ árið 1993. Guðrún hlaut viðurkenningu íslensku sjávarútvegssýningarinnar 2011 fyrir framúrskarandi framlag til íslensks sjávarútvegs.
Gunnar Ól. Haraldsson fæddist 1968. Hann lauk prófum í hagfræði og fiskihagfræði frá Háskóla Íslands og í hagfræði og hagmælingum frá Háskólanum í Toulouse og doktorsprófi frá sama háskóla. Hann starfaði í Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Þjóðhagsstofnun og forsætisráðuneytinu og var forstöðumaður Hagfræðistofnunar frá 2006 til 2010, en þá var hann ráðinn sérfræðingur OECD í París um fiskveiðar. Hann var stjórnarformaður fjármálaeftirlitsins 2009–2010. Meðal greina, sem hann hefur skrifað, má nefna „Eru Íslendingar rík þjóð?“ 2007.
Hannes H. Gissurarson fæddist 1953 og lauk prófum í heimspeki og sagnfræði frá Háskóla Íslands, en doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla. Hann er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og sat í bankaráði Seðlabanka Íslands 2001–2009 og stjórn Mont Pelerin Society 1998–2004. Hann er forstöðumaður rannsókna í RNH. Hann birti fyrstu grein sína um stjórn fiskveiða í Economic Affairs í apríl 1983, á meðan hann stundaði nám í Oxford, þar lagði hann til, að tekið yrði upp kerfi varanlegra, framseljanlegra aflaheimilda á Íslandsmiðum til að stöðva ofnýtingu auðlindarinnar. Hann var (ásamt Ragnari Árnasyni) ritstjóri bókarinnar Individual Transferable Quotas in Theory and Practice 1999, skrifaði bókina Overfishing: Lessons from Iceland 2000 (sem hlaða má niður héðan), birti ritgerðina „The Politics of Enclosures with Special Reference to the Icelandic ITQ System“ í Use of Property Rights in Fisheries 2000, „Iceland’s ITQ System and the Problem of Political Acceptability“ í bókinni Evolving Property Rights in Marine Fisheries 2005 og „The Politics of Property Rights“ í Advances in Rights Based Fishing 2008. Hann skrifaði einnig talsvert um réttlætissjónarmið í úthlutun aflahlutdeildar í bókinni Fiskum undir steini. Sex ritgerðum í stjórnmálaheimspeki 2001.
Helgi Áss Grétarsson fæddist 1968. Hann lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands og kennir þar auðlindarétt. Hann var heimsmeistari unglinga í skák 1994 og hefur síðan verið stórmeistari í skák. Hann hefur birt fjölda ritgerða um lagalegar hliðar fiskveiðistjórnunar og auðlindanýtingar, þar á meðal „Allocation of Fishing Harvest Rights in Iceland and Norway: The Development Since 1990“ í Stjórnmál og stjórnsýslu 2011, Þjóðin og kvótin. Um íslenska fiskveiðistjórnkerfið 1991–2010 og stjórnskipuleg álitaefni 2011, „Allocation of Demersal Harvest Rights in Iceland“ í Arctic Review on Law and Politics 2010 og „Um stjórn veiða á kolmunna og makríl: Hver er réttarstaða Íslands í makríldeilunni“ í Rannsóknum í félagsvísindum 2010.
Ragnar Árnason fæddist 1949 og lauk prófum í hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og í hagfræði og hagmælingum frá Hagfræðiskólanum í Lundúnum (LSE), en doktorsprófi í fiskihagfræði frá Háskólanum í Bresku Kólumbíu. Hann er prófessor í fiskihagfræði í Háskóla Íslands og hefur birt nokkrar bækur og fræðilegra ritgerða, aðallega í ritrýndum tímaritum á ensku, meðal annars í European Journal of Operational Research, Natural Resource Modeling og Marine Resource Economics. Hann ritstýrði (ásamt Hannesi H. Gissurarsyni) greinasafninu Individual Transferable Quotas in Theory and Practice 1999 og (ásamt Birgi Þór Runólfssyni) greinasafninu Advances in Rights Based Fishing. The Role of Property in Fisheries Management 2008. Umsögn hans vorið 2012 um frumvarp til laga um veiðigjöld er hér. Hann hefur setið í bankaráði Seðlabanka Íslands frá 2009.
Rakel Olsen fæddist 1942. Hún rekur útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Sigurð Ágústsson í Stykkishólmi, en fyrirtækið starfar einnig í Danmörku undir nafninu Agustson.
Rögnvaldur Hannesson fæddist 1943. Hann lauk hagfræðiprófi og síðan doktorsprófi í hagfræði frá Háskólanum í Lundi og kenndi síðan þar og í háskólunum í Tromsø og Björgvin. Hann er prófessor í fiskihagfræði í Norska hagfræði- og viðskiptaskólanum í Björgvin og höfundur fjölda bóka og ritgerða um fiskihagfræði. Hann var (ásamt Ragnari Árnasyni o. fl.) ritstjóri bókarinnar The Cost of Fisheries Management 2003, skrifaði „Aquaculture and Fisheries“ í Marine Policy 2003, „The Icelandic Fisheries and the Future of the Icelandic Economy“ í bókina Competitiveness within the Global Fisheries 2003, „The Privatization of the Oceans“ í bókina Evolving Property Rights in Marine Fisheries 2005, var höfundur og einn af ritstjórum bókarinnar Climate Change and the Economics of the World’s Fisheries: Examples of Small Pelagic Stocks 2006 og birti bókina Privatization of the Oceans 2010.
Stefanía Óskarsdóttir fæddist 1962. Hún lauk MA-prófi og doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Purdue-háskóla í Indiana í Bandaríkjunum. Hún var stundakennari og sérfræðingur við Purdue-háskóla 1987–1992, stundakennari við Háskóla Íslands 1996–2002, verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu og sérfræðingur hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, en var ráðin lektor í stjórnmálafræði 2011. Hún hefur birt ýmsar ritgerðir í innlendum og erlendum tímaritum um fræðigrein sína.
Þráinn Eggertsson fæddist 1942 og lauk hagfræðiprófi frá Manchester-háskóla og doktorsprófi í hagfræði frá Ohio State University. Hann er prófessor í hagfræði í Háskóla Íslands og hefur birt fjölmargar bækur og ritgerðir, einkum á sviði stofnanahagfræði. Hann hefur einnig verið prófessor í New York-háskóla og gistifræðimaður við aðra skóla og vísindastofnanir. Á íslensku kom 2007 út eftir hann bókin Háskaleg hagkerfi: Tækifæri og takmarkanir umbóta, sem er þýðing bókarinnar Imperfect Institutions: Possibilities and Limits of Reform frá 2004. Kunnasta bók Þráins er þó Economic Behavior and Institutions frá 1990. Hann birti m. a. „The Subtle Art of Major Institutional Reform: Introduction of Property Rights in the Icelandic Fisheries“ í Role of Institutions in Rural Policies and Agricultural Markets 2004.