Háskólaútgáfan hefur gefið út ritið The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable eftir prófessor Hannes H. Gissurarson. Það hefur að geyma fjórar ritgerðir, sem Hannes hefur birt á alþjóðavettvangi um skynsamlegustu nýtingu náttúruauðlinda. Í formála rifjar höfundur upp, að hlegið hafi verið að sér, þegar hann hafi lagt það til á ráðstefnu um framtíðina á Þingvöllum haustið 1980 að úthluta einstaklingsbundnum og framseljanlegum veiðiréttindum til útgerðarmanna í því skyni að stöðva ofveiði á Íslandsmiðum. Hann hafi síðan, á meðan hann var enn í háskóla, birt ritgerð í Journal of Economic Affairs 1983, þar sem hann hafi fært frekari rök fyrir þessari hugmynd. Íslenska kvótakerfið í sjávarútvegi hafi hins vegar ekki myndast í kollinum á neinum fræðimanni, hvorki sínum né annarra, heldur orðið til við aðferð happa og glappa. Hagsmunaaðilar hafi þreifað sig áfram í átt að skynsamlegum lausnum og tekist það bærilega.
Hannes segir í formálanum, að sér sé nú ljósara en áður þrennt, sem máli skipti í umræðum um hagfellda nýtingu fiskistofna. Í fyrsta lagi sé ofveiði ríkisbrestur (government failure), ekki markaðsbrestur (market failure): Hún stafi af því, að ríkið hafi ekki sinnt því eðlilega hlutverki sínu að setja einstaklingunum leikreglur í því skyni að afstýra árekstrum á milli þeirra, koma í veg fyrir, að þeir valdi hver öðrum tjóni. Í öðru lagi verði róttæk breyting á skipan mála í einhverri atvinnugrein, til dæmis lokun fiskimiða fyrir öðrum en handhöfum sérstakra leyfa, helst að vera Pareto-hagkvæm: Allir eða að minnsta kosti einhverjir þurfi að græða á breytingunni, en enginn að tapa á henni. Upphafleg úthlutun aflaheimilda samkvæmt aflareynslu fullnægi þessu skilyrði, en ekki úthlutun þeirra á opinberu uppboði. Í þriðja lagi megi sýna fram á það með greiningu fiskihagfræðinga (eins og Jens Warmings og H. S. Gordons), að ekki hafi annar réttur verið tekinn af öðrum en viðtakendum aflaheimilda en rétturinn til að gera út án nokkurs arðs. Sá réttur sé samkvæmt skilgreiningu einskis virði.
Greinarnar í bókinni bera heitin Sammæli um reglur (Agreeing on the Rules), Samnýtanlegar auðlindir og rétturinn til einkanýtingar (Non-Exclusive Resources and the Rights of Exclusion), Andmæli við einstaklingsbundnum og framseljanlegum aflaheimildum (Objections to Individual Transferable Quotas) og Stjórnmálahlið einkanýtingarréttinda (The Politics of Property Rights). Hannes tengir deilurnar á Íslandi um fyrirkomulag fiskveiða við hinn gamalkunna ágreining milli Lockes og Marx (og ef til vil Henrys Georges) um réttmæti einkaeignarréttar og einnig við ágreininginn milli Coases og Pigous um viðbrögð við sóun vegna samnýtingar. Útgáfa bókarinnar er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Hún er einnig einn af ávöxtum samstarfs RNH við IDDE, Stofnun um beint lýðræði í Evrópu. Bókin er aðgengileg ókeypis á Netinu, en einnig til á pappír.