Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti fyrirlestur í Landssambandi perúskra útvegsmanna í Lima 22. janúar 2016 um helstu sjónarmið, þegar kvótum í sjávarútvegi væri úthlutað upphaflega. Hann hefur nýlega gefið út bók hjá Háskólaútgáfunni um það efni, The Icelandic Fisheries: Sustainable and profitable. Hannes hélt því fram, að úthluta ætti kvótunum eftir aflareynslu, en ríkið ekki að bjóða þá upp. Við úthlutun samkvæmt aflareynslu yrði enginn verr settur, því að menn héldu í fyrstu áfram að veiða sama afla og þeir hefðu þegar veitt, en keyptu síðan eða seldu kvóta. Eini rétturinn, sem tekinn væri af fólki utan greinarinnar, sem ekki hefði stundað veiðar og fengi því ekki kvóta, væri rétturinn til að veiða án nokkurs hagnaðar, en það er vegna þess, að fiskihagfræðin leiðir út, að við ótakmarkaðan aðgang að fiskistofnum fer hagnaðurinn af veiðunum niður í ekkert fyrir nýja veiðimenn, rentan af auðlindinni eyðist öll upp í kostnað (of mikla sókn).
Hannes kvað úthlutun samkvæmt aflareynslu því standast fyrirvara Lockes fyrir eignamyndun úr náttúrunni eða afgirðingu lmenninga (enclosures): Enginn væri verr settur eftir hana. Hún stæðist líka reglu Paretos um kerfisbreytingar, væri Pareto-hagkvæm, ólík úthlutun á opinberu uppboði, þar sem sumir yrðu verr settir, af því að þeir hefðu ekki fjárhagslegt bolmagn til kvótakaupa og öll þeirra fjárfesting í skipum, veiðarfærum og kunnáttu yrði því í einu vetfangi verðlaus.
Fjölmenni var á fyrirlestri Hannesar, en lögfræðingurinn Enrico Ghersi kynnti fyrirlesarann, og eftir fyrirlesturinn mæltu Elena Contreras, formaður Landssambands perúskra útvegsmanna, og hagfræðingur sambandsins nokkur orð. Mikill áhugi er á aflakvótum í Perú. Á meðal fundarmanna var Rafael Rey, en þegar hann var atvinnumálaráðherra, tóku Perúmenn upp kvótakerfi í mikilvægustu fiskistofnum sínum. Hannes lét þá skoðun í ljós, að gera þyrfti aflakvótana skiptanlegri, framseljanlegri og varanlegri til þess, að kerfið yrði eins hagkvæmt og skilvirkt og hið íslenska. Íslenska kvótakerfið væri gott dæmi um, að vernda mætti auðlindir með því að finna þeim verndara. Fyrirlesturinn var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Fyrirlesturinn var tekinn upp og er á Youtube með spænsku tali: