Húsfyllir var í Hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 20. nóvember 2015, þegar bandaríski fjárfestirinn Bill Browder sagði sögu sína á fundi RNH, Almenna bókafélagsins og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Hann er sonarsonur Earls Browders, formanns kommúnistaflokks Bandaríkjanna, og fjölskylda hans var utangarðsfólk, en vel menntað og átti vel til hnífs og skeiðar, þótt áhugalaust væri um fésýslu. Bill Browder ákvað í uppreisn gegn fjölskyldunni að nema fjármálafræði í Stanford-háskóla og gerast fjárfestir í Rússlandi eftir fall kommúnismans. Þar gekk honum mjög vel, og var vogunarsjóður hans, Hermitage Capital, um skeið mjög stór. Viðskipti voru þar sviptingasöm, og tapaði Browder einn daginn 900 milljónum dala, en honum tókst að rétta aftur úr kútnum. Varð Browder vitni að misjöfnu athæfi olígarkanna rússnesku og valdamanna í bandalagi við þá. Taldi hann Pútín í upphafi umbótamann. Þetta átti eftir að breytast. Pútín snerist gegn Browder, honum var neitað um landvistarleyfi í Rússlandi, og samstarfsmaður hans og vinur, lögfræðingurinn Sergej Magnítskíj, var fangelsaður, pyndaður og myrtur. Þetta hafði mikil áhrif á Browder, sem hét því að unna sér ekki hvíldar, fyrr en réttlætið næði fram að ganga.
Browder fékk eftir talsvert þóf Bandaríkjaþing til að samþykkja lög, sem meina banamönnum Magnítskíjs að koma til Bandaríkjanna eða eiga þar einhver viðskipti. Vinnur Browder að því að fá svipuð lög samþykkt annars staðar. Evrópuþingið hefur þegar ályktað tvisvar um Magnítskíj-málið, en framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þráast við að hrinda þeim ályktunum í framkvæmd og setja morðingja Magnítskíjs á bannlista. Browder hefur einnig komið fram í hinum kunna fréttaskýringarþætti Sextíu mínútum (60 minutes) og í ótal fréttaviðtölum og skýrt mál sitt í mörgum myndböndum á Youtube og í bókinni Eftirlýstur (Red Notice), sem Almenna bókafélagið gefur út nú í haust, en sú bók er að koma út á 22 tungumálum. Varar Browder við stjórn Pútíns, sem er að sögn hans grimm og gerspillt. Koma Browders til landsins vakti mikla athygli. Kastljós tók við hann viðtal, og einnig var rætt við hann í Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu.
Margir þeir, sem hlýddu á fyrirlestur Browders í Háskólanum, blogguðu um það. Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem stjórnaði fundinum, sagði: „Þetta er ótrúleg en sönn saga sem minnir á frásagnir fyrri tíma um stöðu einstaklingsins andspænis alræðisstjórn í Rússlandi. Stjórn sem fer sínu fram án minnsta tillits til mannréttinda. Stjórnarhættir Vladimírs Pútíns taka á sig æ ógeðfelldari mynd og vald sitt reisir hann í vaxandi mæli á því að skapa ótta á meðal rússnesks almennings sem talin er trú um að öryggi þjóðarinnar sé í hættu fái forsetinn ekki öllu sínu framgengt heima og erlendis.“
Ragnhildur Kolka bókmenntafræðingur skrifaði: „Ótrúleg saga manns sem tekst á við mafíuveldi Pútíns Rússlandsforseta. Hefði getað setið þarna í allan dag og hlustað á frásögn hans; hvernig hann varð ofurfjárfestir í Rússlandi eftir fall Sovétríkjanna, græddi milljarða og tapaði þeim í hendur mafíunnar oligarkanna. Saga þessa manns er í senn spennusaga, en líka átakanleg saga ungs manns sem tók þátt í þessari baráttu en varð fórnarlamb glæpsamlegrar ófyrirleitni Pútínveldisins.“ Þátttaka RNH í fundinum var liður í samstarfsverkefni við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.