Valdatíð Davíðs

Þrír framsögumenn verða á fundi Politica, félags stjórnmálafræðinema í Háskóla Íslands, fimmtudagskvöldið 12. nóvember 2015 kl. 19.30 í stofu 101 í Odda, félagsvísindahúsi Háskóla Íslands, um „Valdatíð Davíðs“, en Davíð Oddsson var borgarstjóri 1982–1991 og forsætisráðherra 1991–2004. Þeir eru Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, sem ritstýrði bókinni Davíð Oddsson í myndum og máli 2008 og sat í bankaráði Seðlabankans 2001–2009, Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, sem sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1991–2003, og Ögmundur Jónasson, sem hefur setið á þingi frá 1995 og var ráðherra Vinstri grænna 2009–2013. Hannes segir á bloggsíðu sinni á Pressunni: „Það er margt um valdatíð Davíðs að segja, þótt auðvitað komi hann ekki einn við sögu. En merkilegt er, að hann jók fylgi Sjálfstæðisflokkinn í þeim þrennum borgarstjórnarkosningum, 1982, 1986 og 1990, þegar hann var forystumaður hans í Reykjavíkurborg, óháð því, hvort Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn eða ekki. Og ekki er síður merkilegt, að hann hefur lengst allra Íslendinga verið forsætisráðherra samfleytt og samtals, frá vori 1991 til hausts 2004. Ég mun bregða ýmsum forvitnilegum tölum og myndum á skjá, þótt því miður sé mér skammtaður naumur tími, ekki nema 10 mínútur.“

Þátttaka Hannesar í fundinum er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Margrét Thatcher, forsætisráðherra Breta 1979–1990, sem Davíð Oddsson sést hér með 1991, var verndari AECR.

 

Comments are closed.