Kúbverski rithöfundurinn Orlando Luis Pardo Lazo flytur erindi á fundi rithöfundafélagsins Pen Club á Íslandi laugardaginn 10. október kl. 14 í Borgarbókasafninu í Grófinni í Reykjavík. Fundurinn er haldinn í samstarfi við Borgarbókasafnið. Þar mun Pardo segja frá mannréttindabrotum á Kúbu og ástæðunum til þess, að hann kaus að fara úr landi. Pardo Lazo fæddist í Havana 1971 og lauk háskólaprófi í lífefnafræði. Hann gerðist ljósmyndari og rithöfundur um og eftir 2000 og hóf útgáfu nettímaritsins Voces árið 2010, en það var fyrsta tímarit sinnar tegundar á Kúbu. Aðgangur að Netinu er ekki óhindraður á Kúbu, og efninu var meðal annars miðlað á geisladiskum og ljósritum. Kúbverska öryggislögreglan sat fyrir Pardo og félaga hans 2009 og barði þá tvo sundur og saman. Hann var handtekinn 1. september 2012, en þegar handtaka hans spurðist, safnaðist mikill mannfjöldi saman fyrir utan fangelsið, þar sem hann var geymdur, og var hann skömmu síðar látinn laus. Hann fluttist til Bandaríkjanna, og þar hefur hann meðal annars ritstýrt smásagnasafninu Brot af Kúbu (Cuba in Splinters).
Kommúnistar tóku völd á Kúbu í ársbyrjun 1959 og hafa stjórnað þar síðan harðri hendi, lengst af undir forystu Fidels Castros. Einræðisstjórn þeirra er lýst í kafla í Svartbók kommúnismans, sem kom út á íslensku 2009. Hátt í 30 þúsund manns eru talin hafa týnt lífi af völdum kommúnistastjórnarinnar á Kúbu, en til samanburðar má nefna, að um 3 þúsund manns eru talin hafa fallið af völdum Pinochet-stjórnarinnar í Síle. Meira en 100 þúsund manns hafa gist vinnubúðir og fangelsi kommúnista á Kúbu. Auk fjölmennrar leyniþjónustu voru stofnaðar sérstakar grenndarnefndir, ein í hverju hverfi, til að hafa gætur á fólki og koma í veg fyrir andóf. Allt framtak einstaklinganna var lamað. Um tvær milljónir Kúbverja hafa flúið eyna, hátt í 20% íbúanna. Er sagt, að þeir hafi greitt „atkvæði með árunum“. Íslenskir sósíalistar hafa á hinn bóginn stutt einræðisstjórnina á Kúbu með ráðum og dáð. Magnús Kjartansson, ritstjóri málgagns Alþýðubandalagsins, Þjóðviljans, fór í boði einræðisstjórnarinnar þangað suður 1962, sat að skrafi við Che Guevara fram á nótt og hlustaði á tvær langar Fidels Castros, en lofsöng stjórnarfarið síðan í bókinni Byltinguna á Kúbu. Einnig störfuðu margir sósíalistar sem sjálfboðaliðar við að skera upp sykur fyrir Castro, þar á meðal Silja Aðalsteinsdóttir, sem var líka um skeið ritstjóri Þjóðviljans, og verkalýðsleiðtoginn Páll Halldórsson. Síðasta verk Alþýðubandalagsins, áður en það var lagt niður haustið 1998, var að senda nefnd til Kúbu í boði kúbverska kommúnistaflokksins undir forystu tveggja fyrrverandi formanna flokksins, Margrétar Frímannsdóttur og Svavars Gestssonar. Óskaði nefndin eftir að hitta Fidel Castro, en hann sinnti því ekki.