Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna í RNH, hélt erindi um „Áskorun Pikettys“ á málstofu í Setri frjálsrar hagfræðihugsunar í Viðskiptaháskólanum í Tallinn í Eistlandi 30. apríl. Bók Thomasar Pikettys, Fjármagn á 21. öld, hefur vakið mikla athygli, en þar krefst hann hnattrænnar endurdreifingar tekna, þar eð tekjudreifingin sé orðin ójöfn. Hannes kvað mikinn mun á nálgun Pikettys og bandaríska heimspekingins Johns Rawls: Það héldi vöku fyrir Piketty, að sumir væru ríkir, en Rawls hefði haft áhyggjur af því, þegar margir væru fátækir. Vissulega væri kapítalisminn fær um að skapa mikla auðlegð. Við hann hefðu íbúar margra landa brotist úr fátækt til bjargálna, eins og dæmin sönnuðu. Væri fróðlegt að bera saman Ástralíu og Argentínu, Singapúr og Jamaíku, Vestur- og Austur-Þýskaland, Suður- og Norður-Kóreu. Jafnvel mætti bera saman norðlæg fylki Kanada og ríki Bandaríkjanna annars vegar og Norðurlönd hins vegar. Niðurstaðan væri: atvinnufrelsi skapar auðlegð. Það væri rétt, að tekjudreifingin mældist sums staðar ójöfn, en í Bandaríkjunum væri það ekki síst vegna þess, að til landsins streyma sífellt innflytjendur, sem eru fyrst fátækir, en brjótast síðan í bjargálnir. Mælingar á tekjudreifingu með Gini-stuðlum (og líka samanburði á tekjum hinna 1% tekjuhæstu og annarra) væru líka þeim annmörkum háðar, að hún mældist ójafnari, ef fjölgaði hlutfallslega í hópum námsmanna og lífeyrisþegar, til dæmis við lengri skólagöngu og meiri lífslíkur, en hvort tveggja þetta væri auðvitað eftirsóknarvert.
Hannes kvað aðalatriðið, að tekjudreifingin í heiminum sem heild hefði orðið jafnari hin síðari ár, vegna þess að hundruð milljóna Indverja og Kínverja hefðu tekið upp kapítalisma. Hún hefði hins vegar hugsanlega orðið ójafnari á Vesturlöndum vegna þess tvenns, að samkeppni frá Kína og Indlandi hefði haldið niðri launum verkafólks og að menn með einstæða hæfileika, sem ekki væri hægt að fjöldaframleiða, til dæmis kvikmyndastjörnur, skemmtikraftar og frumkvöðlar, gætu nú starfað á heimsmarkaði, en ekki aðeins á staðbundnum markaði. Þegar rætt væri um kjör verkafólks á Vesturlöndum, yrði síðan að taka tillit til þess, að gæði og úrval vöru hefði snarbatnað. Það þyrfti miklu skemmri tíma til að vinna fyrir gæðum en áður. Hannes varpaði síðan fram þeirri spurningu, hvort eitthvað væri athugavert við ójafna tekjudreifingu, væri hún afleiðing af frjálsu vali einstaklinganna. Hann tók einfalt dæmi. Milton Friedman kemur og heldur fyrirlestur og setur upp 10 þús. kr. aðgangseyri á mann. Fyrirlesturinn sækja 500 manns. Friedman fer 5 millj. kr. ríkari, en áheyrendur hans verða hver 10 þús. kr. fátækari. En allir eru ánægðir. Hver er vandinn? Hannes sagði, að menn yrðu að geta sofið, þótt öðrum gengi vel.
Málstofan í Viðskiptaháskólanum var vel sótt, og var bandaríski hagfræðingurinn dr. Richard Rahn andmælandi. Meelis Kitsing, forstöðumaður seturs um frjálsar hagfræðirannsóknir, var fundarstjóri. Eftir fyrirlesturinn og andmæli voru umræður. Ein spurningin var, hvort athafnamenn þyrftu eins geipilegar upphæðir í tekjur fyrir framlag sitt og raun bæri vitni. Myndu þeir ekki skapa jafnmikið, þótt tekjurnar væru lægri? Hannes svaraði, að ekki ætti aðallega að líta á tekjur manna sem hvatningu, heldur sem upplýsingar. Tekjudreifing á frjálsum markaði veitti ómissandi upplýsingar um, hvar kraftar manna væru best nýttir til að fullnægja eigin þörfum og annarra. Þegar þessari dreifingu væri raskað með opinberum aðgerðum, þar á meðal endurdreifingu tekna, væri slíkum upplýsingum kastað á glæ. Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.