Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti erindi um áhrif ráðstjórnarinnar í Moskvu á hreyfingu íslenskra kommúnista og sósíalista á málstofu í Háskólanum í Tartu í Eistlandi 28. apríl 2015. Stóð stjórnmálafræðideild skólans að málstofunni, og hitti Hannes deildarforsetann, prófessor Vello Pettai, að máli fyrir hana. Bað Pettai fyrir kveðjur til íslenskra vina sinna, en hann kom hingað á ráðstefnu 2011. Í erindi sínu rifjaði Hannes upp helstu þættina í sögu hinnar róttæku vinstrihreyfingar á Íslandi, undirbúninginn að stofnun kommúnistaflokks 1918–1930, starfsemi kommúnistaflokksins 1930–1938, en hann var deild í Komintern, Alþjóðasambandi kommúnista; klofning Alþýðuflokksins 1938, stofnun Sósíalistaflokksins og starfsemi 1938–1956 og klofning Alþýðuflokksins 1956, stofnun Alþýðubandalagsins og starfsemi, fyrst sem kosningabandalags 1956–1968 og síðan sem stjórnmálaflokks 1968–1998.
Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, „Evrópu fórnarlambanna,“ og benti Hannes þar á, að leiðir skildi upphaflega með kommúnistum og jafnaðarmönnum, af því að kommúnistar vildu ekki vinna eingöngu innan lýðræðisskipulagsins, heldur áskildu sér rétt til að beita ofbeldi, þegar þeir teldu þess þurfa með. Íslenski kommúnistaflokkurinn studdi ofbeldi í orði og beitti ofbeldi í verki, til dæmis í kjaradeilum á fjórða áratug. Síðar beittu sósíalistar ofbeldi í stjórnmálabaráttunni, til dæmis í umsátri um Sjálfstæðishúsið gamla við Austurvöll 1946 og í árásinni á Alþingishúsið 1949. Jafnframt vörðu kommúnistar og síðar sósíalistar ofbeldisríki kommúnista með ráðum og dáð. Þeir þáðu fjárhagsaðstoð frá þessum ríkjum og fóru jafnan eftir fyrirmælum þaðan, ef og þegar þau bárust. Tengsl íslenskra sósíalista og Kremlverja rofnuðu ekki fyrr en eftir innrás Rauða hersins í Tékkóslóvakíu 1968. Eftir það hélt Alþýðubandalagið þó tengslum við kommúnistaflokka Rúmeníu og Kúbu, og raunar var síðasta verk Alþýðubandalagsins að senda nefnd forystumanna í boðsferð til kúbverska kommúnistaflokksins haustið 1998.
Hannes rakti ágreining um eðli íslensku kommúnistahreyfingarinnar milli sín og sagnfræðinganna Þórs Whiteheads og Snorra G. Bergssonar annars vegar og ýmissa vinstri sinnaðra menntamanna, aðallega þó Jóns Ólafssonar, hins vegar. Til dæmis héldi Jón Ólafsson því fram, að hinir fjölmörgu íslensku kommúnistar, sem þjálfaðir voru í skólum Kominterns í Moskvu 1929–1938, hefðu ekki fengið tilsögn í vopnaburði, en það stangaðist á við allar heimildir um þessa skóla. Einnig fullyrti Jón, að Komintern hefði verið andvígt stofnun Sósíalistaflokksins vegna eins minnisblaðs, sem starfsmaður Kominterns hefði samið, en það væri ótrúlegt, enda hefði samband Sósíalistaflokksins og Kremlverja verið hið besta eftir það, auk þess sem ýmsir erlendir kommúnistaflokkar hefðu sent Sósíalistaflokknum heillaóskir við stofnunina 1938. Hannes kvaðst hafa lagt áherslu á það í bók sinni um íslensku kommúnistahreyfinguna, sem kom út 2011, að sýna fram á, að nægileg vitneskja hefði frá öndverðu verið til um kúgunina og eymdina í kommúnistaríkjunum. Morgunblaðið hefði til dæmis ekki þreyst á því áratugum saman að birta lýsingar fórnarlamba kommúnismans á ástandinu í þessum ríkjum, og hefði þar flest reynst satt og rétt, þótt íslenskir kommúnistar og sósíalistar hefðu sagt það „Moggalygi“.