Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, forstöðumaður rannsókna í RNH, sækir hina árlegu Lennart Meri-ráðstefnu í Tallinn í Eistlandi 24.–26. apríl 2015. Á meðal fyrirlesara á ráðstefnunni eru Toomas H. Ilves, forseti Eistlands, Radek Sikorski, fyrrverandi utanríkisráðherra Póllands og nú forseti pólska þingsins, Ana de Palacio, fyrrverandi utanríkisráðherra Spánar, Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, sænski rithöfundurinn Anders Aslund og margir ráðherrar frá Eystrasaltsríkjunum. Nokkrir fyrirlesaranna hafa komið til Íslands á vegum RNH eða skyldra samtaka, þar á meðal François Heisbourg og Andrei Ilarionov. Helsta umræðuefnið á ráðstefnunni er ástandið í grannríkjum Rússa, jafnt í Úkraínu og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Ráðstefnan er kennd við Lennart Meri, sem kom til Íslands 1991, þegar hann var utanríkisráðherra, og var forseti Eistlands 1992–2001. Að kvöldi föstudagsins 24. apríl situr Hannes kvöldverðarboð Ilves Eistlandsforseta ásamt nokkrum öðrum ráðstefnugestum.
Þriðjudaginn 28. apríl 2015 flytur Hannes fyrirlestur í Háskólanum í Tartu um „Áhrif Kremlverja á íslensku kommúnistahreyfinguna“ (The Soviet Influence on the Icelandic Communist Movement). Þar rekur Hannes sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar, allt frá því að Fredrik Ström lét íslenska kommúnista fá fyrsta Rússagullið vorið 1919. Komintern, Alþjóðasamband kommúnista í Moskvu, sendi fimm erindreka til Íslands til að leggja á ráðin um stofnun kommúnistaflokks, sem varð 1930, og rösklega tuttugu Íslendingar hlutu þjálfun í æfingabúðum Kominterns, þar á meðal leiðsögn í vopnaburði, skjalafölsun og dulmálssendingum, en líka í fræðum Marx og Engels. Ekki er vitað um nema eitt dæmi, þar sem Sósíalistaflokkurinn, sem tók 1938 við af kommúnistaflokknum, brá út af línunni frá Moskvu: Það var, að hann fordæmdi ekki kommúnistaflokka Júgóslavíu og Albaníu. Ein meginástæðan til þess, hversu öflugir kommúnistar voru í íslensku menningarlífi, var að sögn Hannesar, að þeir fengu rausnarlega styrki frá Moskvu. Sögu kommúnistahreyfingarinnar íslensku lauk ekki með gný, heldur snökti, þegar forystumenn Alþýðubandalagsins létu það verða sitt síðasta verk, áður en þeir lögðu flokkinn niður, að fara í boðsferð kúbverska kommúnistaflokksins haustið 1998.
Hannes víkur einnig að því, hvernig saga íslensku kommúnistahreyfingarinnar og Eystrasaltsþjóðanna skarast lítillega, til dæmis í fyrirlestraferð Libu Fridlands 1923, skrifum Teodoras Bieliackinas 1946, heimsókn dr. Augusts Reis 1957, þýðingu Davíðs Oddssonar á bókinni Eistlandi. Smáþjóð undir oki erlends valds og endurnýjaðri viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Eystrasaltslandanna 1991. Fyrirlestur Hannesar er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu fórnarlambanna“.
Miðvikudaginn 29. apríl flytur Hannes annan fyrirlestur svipaðs efnis í eistneska þinginu, sem einnig er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu fórnarlambanna“. Skipuleggur þingmaðurinn og sagnfræðingurinn dr. Mart Nutt þann fund. Hannes hittir í Tallinn ýmsa eistneska frammámenn að máli, þar á meðal Mart Laar, fyrrverandi forsætisráðherra Eistlands, sem hann hefur þekkt lengi. Fimmtudaginn 30. apríl flytur Hannes fyrirlestur í Viðskiptaháskóla Tallinn kl. 17–18.30 í í fundarsal 109, Lauteri 3. Hann ræðir þar kenningu franska hagfræðingsins Thomasar Pikettys um, að fjármagnið hljóti alltaf að vaxa hraðar en atvinnulífið í heild, svo að hinir ríku verði alltaf ríkari. Hannes leiðir rök að því, að Piketty ofmeti kerfisbundið tekjur hinna tekjuhæstu og vanmeti á saman hátt tekjur hinna tekjulægstu. Ýmsar mælingarskekkjur hafi villst inn í greiningu hans. Piketty geri sér ekki fulla grein fyrir eðli fjármagnsins, en auður sé fallvaltastur vina. Aðalatriðið sé að hafa tækifæri til að brjótast í bjargálnir, en það fáist með frelsinu. Piketty ætti að hafa meiri áhyggjur af öflugu ríkisvaldi en auðsöfnun. Ekkert sé heldur að athuga við ójafna tekjudreifingu, sé hún afleiðing af frjálsu vali einstaklinganna. Fyrirlestur Hannesar er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Að dvölinni í Eistlandi lokinni heldur Hannes til Finnlands vegna rannsókna sinna á erlendum áhrifaþáttum íslenska bankahrunsins.