Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, forstöðumaður rannsókna RNH, flytur fyrirlestur á vorráðstefnu Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands þriðjudaginn 21. apríl 2015 kl. 13–14.30 í Háskólatorgi, stofu HT-101. Nefnist hann: „Meðferð íslenskra eigna erlendis eftir bankahrun.“ Þar mun hann halda því fram, að norsk, finnsk, dönsk og bresk stjórnvöld beri ábyrgð á mjög miklu og ónauðsynlegu tapi íslensku bankanna í og eftir bankahrunið 2008. Norsk og finnsk yfirvöld synjuðu þegar í upphafi bankahrunsins um lausafjárfyrirgreiðslu til banka í eigu Íslendinga og neyddu hina íslensku eigendur til að selja þá innlendum kaupsýslumönnum á smánarverði. Svipað gerðist í raun í Danmörku tveimur árum síðar, þegar FIH banki átti í hlut, þótt þar nýttu kaupendur sér líka andvaraleysi Seðlabankans, sem átti veð í bankanum. Vegna handvammar hafi líklega tapast þar um 60 milljarðar króna.
Í október 2008 lokaði breska Verkamannaflokksstjórnin tveimur breskum bönkum í eigu Íslendinga, Heritable og KSF, á sama tíma og hún veitti öllum öðrum breskum bönkum stórkostlega og fordæmislausa lausafjárfyrirgreiðslu og tryggði þeim endurfjármögnun. Nú hafa þessir tveir bankar að mestu leyti verið gerðir upp, og í ljós hefur komið, að þeir voru síður en svo gjaldþrota. Hannes telur, að heildartapið í þessum dæmum í löndunum fjórum nemi um 270 milljörðum króna eða um £1,4 milljarði punda. Sumt eða jafnvel allt þetta fé hefði mátt nota til að lækka kostnað íslenskra skattgreiðenda af bankahruninu, enda hefði verið eðlilegt, að föllnu bankarnir hefðu borið þann kostnað. Fyrirlestur Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.