Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flytur þrjá fyrirlestra í apríl og tekur þátt í tveimur öðrum fundum í apríl og maí 2015 í tengslum við tvö samstarfsverkefni RNH og AECR. Fyrsti fyrirlesturinn er fluttur á morgunfundi Ratio hugveitunnar í Stokkhólmi fimmtudaginn 9. apríl 2015 kl. 10 við Sveavägen 59, fjórðu hæð, um „Svíþjóð, Ísland og bankahrunið 2008“. Þar rifjar Hannes upp þrjár lítt kunnar staðreyndir um samband Svíþjóðar og Íslands. Árin 1355–1364 var Ísland í konungssambandi við Svíþjóð, en hvorki Noreg né Danmörku. Í friðarsamningnum í Kíl 1814, þegar Svíþjóð fékk Noreg í bætur fyrir Finnland, var þess ekki krafist, að hin fornu skattlönd Noregs í Norður-Atlantshafi, Ísland, Færeyjar og Grænland, fylgdu því, sennilega af stjórnmálaástæðum. Fyrsti leiðtogi Sjálfstæðisflokksins, Jón Þorláksson, verkfræðingur og forsætisráðherra, varð fyrir miklum áhrifum af sænska hagfræðingnum Gustav Cassel. Hannes mun leiða rök að því, að í bankahruninu hafi sænsk yfirvöld verið miklu samvinnuþýðari en yfirvöld í Noregi og Finnlandi (sem aðstoðað hafi innlenda kaupsýslumenn við að hirða eigur Íslendinga á smánarverði). Hins vegar hafi Svíþjóð því miður stutt Breta í Icesave-deilunni. Hannes mun halda því fram, að nú eigi Íslendingar að snúa aftur að Kílarfriðnum, þar sem Svíar hafi 1814 með réttu komist að þeirri niðurstöðu, að þeir ættu heima úti á Norður-Atlantshafinu — ásamt Stóra Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada að ógleymdum Noregi, Færeyjum og Grændlandi — frekar en með þjóðunum á meginlandinu. Þessi fyrirlestur er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.
Annar fyrirlesturinn er á ársfundi Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta (ESFL) í Kinosaal Humboldt-háskóla í Berlín föstudaginn 11. apríl 2015 kl. 10 undir heitinu „Þrír öndvegishugsuðir okkar daga: Hayek, Popper og Friedman. Kynni og minningar“. Þar rifjar prófessor Hannes H. Gissurarson upp kynni sín af þessum þremur merku fræðimönnum, en tvo þeirra þekkti hann vel, þá Friedrich von Hayek og Milton Friedman, en með Karli R. Popper dvaldist hann daglangt á heimili hans í Penn í Buckinghamshire og ræddi við hann um heimspekileg álitamál. Hannes mun skýra frá ýmsum orðum þeirra og ummælum, sem ekki hafa komið fram áður. Hann mun einnig bera þá saman: Hayek hafi verið djúpsæjastur hugsuður, Friedman mælskastur, um leið og hann var vandvirkur fræðimaður, og Popper raunsæjastur um, að verkefnið væri að útrýma því böli, sem allir væru sammála um, að væri böl, í stað þess að endurskipuleggja mannlífið í krafti umdeilanlegra hugmynda. Á meðal annarra ræðumanna á stúdentaráðstefnunni í Humboldt-háskóla verða breski evrópuþingmaðurinn og Íslandsvinurinn Daniel Hannan, höfundur hinnar nýju bókar Inventing Freedom, franski hagfræðiprófessorinn Pierre Garello, Íslandsvinurinn dr. Tom G. Palmer frá Cato-stofnuninni í Washington-borg og danski ritstjórinn Flemming Rose frá Jyllandsposten, en hann nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir baráttu sína í þágu málfrelsis. Fyrirlestur Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.
Þriðji fyrirlesturinn verður á vorráðstefnu Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands þriðjudaginn 21. apríl 2015 kl. 13–14.30 í Háskólatorgi, stofu HT-101. Nefnist hann: „Meðferð íslenskra eigna erlendis eftir bankahrun.“ Þar mun prófessor Hannes H. Gissurarson halda því fram, að norsk, finnsk, dönsk og bresk stjórnvöld beri ábyrgð á mjög miklu og ónauðsynlegu tapi íslensku bankanna í og eftir bankahrunið 2008. Norsk og finnsk yfirvöld synjuðu þegar í upphafi bankahrunsins um lausafjárfyrirgreiðslu til banka í eigu Íslendinga og neyddu hina íslensku eigendur til að selja þá innlendum kaupsýslumönnum á smánarverði. Svipað gerðist í raun í Danmörku tveimur árum síðar, þegar FIH banki átti í hlut, þótt þar nýttu kaupendur sér líka andvaraleysi Seðlabankans, sem átti veð í bankanum. Í október 2008 lokaði breska Verkamannaflokksstjórnin tveimur breskum bönkum í eigu Íslendinga, Heritable og KSF, á sama tíma og hún veitti öllum öðrum breskum bönkum stórkostlega og fordæmislausa lausafjárfyrirgreiðslu og tryggði þeim endurfjármögnun. Nú hafa þessir tveir bankar að mestu leyti verið gerðir upp, og í ljós hefur komið, að þeir voru síður en svo gjaldþrota. Hannes telur, að heildartapið í þessum dæmum í löndunum fjórum nemi um 270 milljörðum króna eða um £1,4 milljarði punda. Sumt eða jafnvel allt þetta fé hefði mátt nota til að lækka kostnað íslenskra skattgreiðenda af bankahruninu, enda hefði verið eðlilegt, að föllnu bankarnir hefðu borið þann kostnað. Fyrirlestur Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.
Dagana 24.–25. apríl 2015 er prófessor Hannesi H. Gissurarsyni boðið að taka þátt í hinni árlegu Lennart Meri-ráðstefnu um alþjóðamál í Tallinn í Eistlandi. Hannes sat sögulegan kvöldverð með Meri og öðrum utanríkisráðherra Eystrasaltsríkjanna, sem Davíð Oddsson forsætisráðherra bauð til 26. ágúst 1991, eftir að Ísland hafði endurnýjað viðurkenningu sína á sjálfstæði þessara ríkja. Meri var forseti Eistlands 1992–2001. Hannes hefur einnig talað og skrifað fjölmargt um samband Íslands og Eystrasaltsríkjanna. Dagana 4.–6. maí 2015 sækir Hannes síðan ráðstefnu um minningar, sögu og samvisku í Tallinn. Þátttaka hans í ráðstefnunum tveimur í Tallinn er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu fórnarlambanna: Minningar um kommúnismann“. Hannes þýddi og ritstýrði 2009 Svartbók kommúnismans á íslensku og gaf út sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar 2011. Í maí 2015 mun Hannes einnig flytja fyrirlestra á ýmsum ráðstefnum í Brasilíu, sem Brasilíusamtök frjálslyndra stúdenta halda, Estudantes pela liberdade. Á meðal umræðuefna hans þar verða nýlegar kröfur franska hagfræðingsins Thomasar Pikettys um stórfellda valdboðna tekjujöfnun um heim allan.