Um 85 manns sóttu stúdentaráðstefnu ESFL, European Students for Liberty, í Reykjavík laugardaginn 15. nóvember, þar af um 15 erlendir stúdentar. Fór ráðstefnan fram á Háskólatorgi í Háskóla Íslands. Lukas Schweiger, formaður framkvæmdastjórnar ESFL, sagði frá myndun ESFL og tilgangi. Frjálshyggjustúdentar styðjast við greiningu Friedrichs A. von Hayeks í ritgerð hans um menntamenn og sósíalisma, „The Intellectuals and Socialism,“ að hugmyndir ráði úrslitum að lokum, en þær komi fyrst frá frumlegum hugsuðum, þeim sé eftir það miðlað af menntamönnum, þær móti síðan almenningsálitið og skilorðsbindi loks stjórnmálamenn. Þess vegna sé aðalatriðið ekki að sannfæra einstaka stjórnmálamenn um hugmyndir, heldur að mynda öflugan hóp menntamanna, þótt hann kunni að vera fámennur, breyta þannig almenningsálitinu og auðvelda frjálslyndum stjórnmálamönnum leikinn, en torvelda að sama skapi stjórnlyndum stjórnmálamönnum að skerða frelsi.
Birgir Þór Runólfsson, hagfræðidósent í Háskóla Íslands, benti á, að hagfræðileg rök fyrir ríkinu væru, að það framleiddi samgæði, sem einstaklingar gætu ekki framleitt og verðlagt í frjálsum viðskiptum. Skýrustu dæmin um samgæði væru réttarvarsla og landvarnir. Á Íslandi hefði hins vegar staðið þjóðveldi í rösk þrjú hundruð ár, þar sem réttarvarsla hefði verið í höndum einstaklinga, eins og David Friedman hefði lýst í athyglisverðri ritgerð, en sjálfur skrifaði Birgir Þór síðan doktorsritgerð um stofnanir þjóðveldisins. Í þjóðveldinu hefðu ýmis mál verið leyst í samningum, til dæmis manngjöld, og þar hefði lítilmagninn haft ýmis úrræði til réttarvörslu, til dæmis fjölskyldubönd, framsal réttar og vernd goða. Menn hefðu valið um goðorð eins og þeir veldu nú á dögum um tryggingafélög.
Helgi Hrafn Gunnarsson, alþingismaður pírata, og stúdentaleiðtoginn Aleksandar Kokotovic frá Serbíu tóku þátt í pallborði um lögleiðingu fíkniefna. Helgi Hrafn rakti hin tvíþættu rök fyrir slíkri lögleiðingu. Í fyrsta lagi ættu menn sjálfa sig, og aðrir hefðu ekki leyfi til að banna þeim að gera það, sem þeir vildu, svo framarlega sem þeir sköðuðu aðra ekki með því. Í öðru lagi væru afleiðingarnar af því að banna ýmis fíkniefni áreiðanlega talsvert verri, hvernig sem á það væri litið, en afleiðingarnar af því að leyfa þau.
James W. Lark, prófessor í kerfisfræði í Virginíu-háskóla, sagði frá frjálshyggjuhreyfingunni í Bandaríkjunum. Sjálfur er hann einn af forystumönnum Frjálshyggjuflokksins bandaríska, Libertarian Party, en kvað marga frjálslynda menn styðja aðra flokka eða skipta sér ekki af stjórnmálum. Í eðli sínu væru frjálshyggjumenn tortryggnir á ríkisvald, hvort sem það væri í höndum meiri hluta til að kúga minni hluta eða minni hluta til að kúga meiri hluta. Þeir frjálshyggjumenn, sem ekki hefðu áhuga á stjórnmálaþátttöku, en vildu bæta mannlífið, ættu að gera það með því að auðgast, fullnægja þörfum almennings betur eða ódýrar en keppinautar þeirra. Þeir gætu þá líka lagt eitthvað af mörkum til hugmyndabaráttunnar, sem hinir fáu frjálslyndu menntamenn væru að heyja.
Hannes H. Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor í Háskóla Íslands, gagnrýndi kenningar franska hagfræðingsins Thomasar Pikettys. Sá væri nú orðinn spámaður vinstri manna í stað bandaríska heimspekingsins Johns Rawls, en sá munur á, að Rawls hefði haft áhyggjur af fátækt, sem vissulega væri böl, en Piketty af auðlegð, sem ætti að vera fagnaðarefni, nema hún væri illa fengin (til dæmis í skjóli ríkiseinokunar eða tollverndar). Þótt tölur Pikettys væru ekki hafnar yfir gagnrýni, væri sennilega rétt, að teygst hefði á tekjudreifingu síðustu áratugi á Vesturlöndum, tekjur hinna tekjuhæstu hækkað hraðar en tekjur hinna tekjulægstu. Það væri ekki síst af tveimur ástæðum, sem tengdust hnattvæðingunni: Hinir tekjulægstu sættu harðri samkeppni frá sambærilegu vinnuafli í Kína og Indlandi; og hinir tekjuhæstu hefðu nú aðgang að miklu stærri markaði en áður fyrir þjónustu sína, en hæfileikar þeirra væru oft þess eðlis, að erfitt væri eða ókleift að fjölfalda þá eða líkja eftir þeim. Svo væri til dæmis um frumkvöðla eins og Steve Jobs, fjárfesta eins og Warren Buffet, afburðastjórnendur eins og Jack Welch, kvikmyndastjörnur eins og Angeline Jolie, íþróttahetjur eins og Tiger Woods, fjölmiðlafólk eins og Oprah Winfrey og frægt fólk eins og David Beckham. Piketty ofmæti líka óhagganleika fjármagns og vanmæti kostinn á hagvexti. Sköpunarmáttur kapítalismans væri ótrúlegur, ef framkvæmdamenn og frumkvöðlar fengju að njóta sín.