Þau gögn, sem útvega má með víðtækum mælingum á atvinnufrelsi í 150 löndum og sambandi atvinnufrelsis við lífskjör og farsæld fólks í þessum löndum, styðja afdráttarlaust kenningu Adams Smiths: Auðlegð þjóðanna skapast við verkaskiptingu og frjáls viðskipti. Þegar menn keppa að eigin hag, vinna þeir um leið að almannahag, hvort sem þeir ætla sér það eða ekki. Þessu hélt bandaríski hagfræðiprófessorinn Robert Lawson, einn af höfundum árlegrar mælingar á atvinnufrelsi, index of economic freedom, fram í fyrirlestri á fjölmennum fundi RNH og Samtaka skattgreiðenda mánudaginn 28. júlí 2014. Tilefni fundarins var, að hundrað ár eru liðin, frá því að heimsstyrjöldin fyrri skall á 28. júlí 1914, en þá riðaði til falls það skipulag, sem Adam Smith hafði mælt fyrir og skilgreint, heimskapítalisminn, kerfi verkaskiptingar og frjálsra viðskipta. En þrátt fyrir að heimskapítalisminn veiktist verulega í heimsstyrjöldunum tveimur og í heimskreppunni, stóð hann þessi áföll af sér og styrktist verulega síðustu áratugi 20. aldar.
Lawson skýrði, hvernig vísitala atvinnufrelsis væri sett saman, og brá upp nokkrum línuritum úr nýjustu mælingu atvinnufrelsis, sem gerð verður opinber haustið 2014. Þar er hagkerfum heims árið 2011 skipt í fjóra hluta eftir því, hversu víðtækt atvinnufrelsi er þar. Lífskjör — eins og þau mælast í vergri landsframleiðslu á mann — eru að meðaltali langbest í frjálsasta hlutanum og langlökust í ófrjálsasta hlutanum. Hið sama er að segja um lífskjör fátækustu eða tekjulægstu 10%: Þau eru þrátt fyrir allt langskást í frjálsasta hlutanum. Lífslíkur eru líka lengstar í frjálsasta hlutanum og hagvöxtur örastur. Sagan jafnt og reynslan sýndu, að hér væri ekki aðeins um að ræða fylgni, heldur líka orsakasamband: Þegar þjóðir verða frjálsar, komast þær í álnir og geta fyrir vikið útrýmt margvíslegu böli, sem stafar af skorti lífsgæðanna. Lawson kvað áhyggjuefni, að atvinnufrelsi á Íslandi hefði minnkað verulega. Árið 2004 var íslenska hagkerfið hið frjálsasta á Norðurlöndum, en árið 2011 mældist það hið ófrjálsasta. Lawson benti á, að öll gögn um mælingu ársins 2013 á atvinnufrelsi árið 2010 væru aðgengileg á heimasíðu verkefnisins og að öll gögn um mælingu ársins 2014 á atvinnufrelsi árið 2011 yrðu sett þangað í haust. Fyrirlestur Lawsons var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.