Mánudagurinn 28. júlí 2014 verða hundrað ár frá því, að fyrri heimsstyrjöldin (sem þá var kallaður Norðurálfuófriðurinn mikli) skall á, 28. júlí 1914, þegar hin frjálslynda siðmenning Vesturlanda riðaði til falls, en eftir það gátu alræðissinnar, nasistar og kommúnistar, skipt á milli sín Mið- og Austur-Evrópu. Öldin á undan hafði verið tímabil friðar, atvinnufrelsis, takmarkaðs ríkisvalds, örra framfara, traustra peninga og vonar í brjósti hundruð milljóna jarðarbúa um betri tíð. Prófessor Robert Lawson, sem kennir hagfræði í Southern Methodist-háskólanum í Dallas í Texas, er einn af höfundum víðkunnrar rannsóknar á atvinnufrelsi, Economic Freedom of the World, sem kemur út árlega uppfærð með gögnum um atvinnulíf og frelsi í meira en 140 löndum. Mánudaginn 28. júlí ræðir hann, hvernig mæla á atvinnufrelsi og hvað má læra af þeirri mælingu, á fundi RNH og Samtaka skattgreiðenda, sem haldinn verður á jarðhæð á Garðastræti 37 (í fundarsal Gamma). Hann fer ekki síst og jafnvel aðallega orðum um hina mannlegu vídd atvinnufrelsisins, svo sem bætta heilsu, aukið læsi og fjölgun tækifæra.
Ísland var árin 1991–2004 eitt af þeim löndum, þar sem atvinnufrelsi hafði aukist mest í heiminum. Hagkerfið var 2004 frjálsast Norðurlanda. Landið var síðan 2009–2013 eitt af þeim löndum, þar sem atvinnufrelsi hafði minnkað mest í heiminum. Hagkerfið var 2013 ófrjálsast Norðurlanda. Fyrirlesturinn hefst kl. 16.30, en síðan verða umræður og á eftir því móttaka á staðnum. Þeir, sem vilja sækja málstofuna, eru vinsamlegast beðnir að láta af því vita í síðasta lagi á sunnudagskvöld í netfangið rnh@rnh.is eða með því að skrá sig á Facebook-síðu viðburðarins. Fyrirlesturinn er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.