Mustafa Dzhemílev, leiðtogi Krím-Tatara, hlaut verðlaun Evrópuvettvangs minningar og samvisku á ráðstefnu í Prag 12. júní 2014. Göran Lindblad, fyrrverandi Evrópuþingmaður frá Svíþjóð og formaður vettvangsins, afhenti honum verðlaunin við hátíðlega athöfn í Kampa-listasafninu. Við þetta tækifæri lýsti Dzhemílev í örfáum orðum misjöfnu hlutskipti þjóðar sinnar, sem sætti ofsóknum fyrstu áratugi kommúnistastjórnarinnar rússnesku, var síðan herleidd að skipun Stalíns 1944 frá heimkynnum sínum á Krímskaga til Síberíu og Úsbekístans og fékk ekki að snúa aftur heim fyrr en upp úr 1967. Dzhemílev var andófsmaður í Ráðstjórnarríkjunum fyrrverandi og oft fangelsaður. Hann hefur verið útlagi, frá því að Rússar hernámu Krímskaga vorið 2014. Dzhemílev sagði í ræðu sinni, að kommúnismi væri alræðisstefna ekki síður en þjóðernisjafnaðarstefnan eða nasisminn. Hann kvað stuðning lýðræðisríkja Evrópu ómetanlegan kúguðum þjóðum í austri. Hann hét því að halda áfram baráttunni fyrir málstað Krím-Tatara, en án þess að beita ofbeldi.
Ráðstefnan, sem var um arfleifð alræðisstefnunnar á okkar dögum, fór fram 12.–13. júní í húsakynnum tékknesku öldungadeildarinnar, Waldstein-höllinni, í boði Miluše Horská, varaforseta deildarinnar, og Daniels Hermans, menningarmálaráðherra Tékklands. Neela Winkelmann, framkvæmdastjóri Evrópuvettvangsins, sá um að skipuleggja ráðstefnuna, en á meðal samstarfsaðila vettvangsins voru Konrad Adenauer Stiftung í Þýskalandi og Visegrad-sjóðurinn, sem ríkisstjórnir Póllands, Tékklands, Slóvakíu og Ungverjalands stofnuðu. Hinn eistnesk-finnski verðlaunarithöfundur Sofi Oskanen hélt aðalræðuna, og var hún um minningar hinna ógæfusömu þegna alræðisstjórna í Evrópu. Heimildamyndin Ráðstjórnarsagan (The Soviet Story) eftir lettneska sagnfræðinginn og kvikmyndagerðarmanninn Edvīns Šnore var sýnd í tengslum við ráðstefnuna, og sat Šnore síðan fyrir svörum. Á meðal ræðumanna á ráðstefnunni voru Vytautas Landsbergis, fyrrv. forseti Litháens, Tunne Kelam, sem situr á Evrópuþinginu fyrir Eistland, og prófessor Stéphane Courtois, ritstjóri Svartbókar kommúnismans. Fulltrúi RNH var prófessor Hannes H. Gissurarson, sem stjórnaði pallborðsumræðum um Evrópusambandið og sátt þjóðanna í vestur- og austurhluta Evrópu. Þátttaka hans í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Ráðstefnan samþykkti ályktun um þróunina í Austur-Evrópu, sérstaklega hernám Krímskaga.