Oksanen talar á ráðstefnu um alræðisstefnu

Oksanen

Evrópuvettvangur minningar og samvisku, Platform of European memory and conscience, heldur 12.–13. júní ráðstefnu um „Arfleifð alræðisstefnunnar“ í Prag í Tékklandi. Aðalræðumaður verður eistnesk-finnska skáldkonan Sofi Oksanen, sem tvær bækur hafa komið út eftir á íslensku, Hreinsun og Kýr Stalíns. Oksanen hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2010. Einnig verða leiðtoga Krím-tatara, Mustafa Dzhemílev, veitt verðlaun Evrópuvettvangsins fyrir þrotlausa baráttu hans fyrir réttindum þjóðar sinnar (sem Stalín herleiddi til Úsbekístan 1944) og almennum mannréttindum í Ráðstjórnarríkjunum, áður en þau hrundu 1991. Ráðstefnan verður haldin undir vernd Miluše Horská, varaforseta öldungadeildar tékkneska þingsins, og í húsakynnum öldungadeildarinnar. Á meðal fyrirlesara verða Daniel Herman, menningarmálaráðherra Tékklands, Monica Macovei, fyrrverandi dómsmálaráðherra Rúmeníu, Stéphane Courtois, ritstjóri Svartbókar kommúnismans, sem komið hefur út á íslensku, og Vytautas Landsbergis, fyrrverandi forseti Litháens, sem Íslendingum er að góðu kunnur. Dr. Hannes H. Gissurarson prófessor sækir ráðstefnuna fyrir hönd RNH, sem er aðili að Evrópuvettvangnum, og stjórnar hann málstofu með Landsbergis og fleirum um hlutverk Evrópusambandsins í að sætta austur- og vesturhluta Evrópu.

Tvær kvikmyndir verða sýndar í tengslum við ráðstefnuna, Katyn, sem Andrzej Wajda gerði í Póllandi 2009 um fjöldamorð að undirlagi Stalíns á pólskum hermönnum í pólska skóginum Katyn, og Ráðstjórnarsagan (The Soviet Story), sem Edvīns Šnore gerði í Lettlandi 2008 um samstarf Stalíns og Hitlers 1939–1941, þegar þeir skiptu á milli sín Mið- og Austur-Evrópu. Þátttaka Hannesar  í ráðstefnunni er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Comments are closed.