RNH fékk árið 2014 frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar, sem stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna veitir árlega einum einstaklingi og einum samtökum. Í rökstuðningi SUS er rætt um hið öfluga starf, sem rannsóknarsetrið hafi unnið í þágu frelsisins undanfarin ár. Þar segir, að tilgangur RNH sé að rannsaka, hvað örvi og hindri nýsköpun og hagvöxt. Í rannsóknum stofnunarinnar sé sérstaklega beint sjónum að því, hvernig menn geti með sjálfsprottinni samvinnu, viðskiptum í stað valdboðs, fullnægt þörfum sínum og bætt kjörin.
„RNH hefur staðið fyrir fjölmörgum ráðstefnum og erindum, og fengið til landsins marga erlenda fræðimenn og áhugamenn um frelsi til þess að flytja erindi fyrir Íslendinga um gildi frelsisins. Þá sinnir RNH einnig rannsóknastarfi á sviðum, sem tengjast sköttum og tekjudreifingu, auðlindanýtingu og umhverfisvernd og nýsköpun og framkvæmdamenn. Auk þess hefur RNH fjallað á öflugan hátt um minningu fórnarlambanna, þeirra sem létust vegna alræðisstefna 20. aldar,“ segir í rökstuðningnum.
Auk RNH hlaut stærðfræðingurinn og pistlahöfundurinn Pawel Bartoszek verðlaun fyrir ýmis skrif sín til varnar frelsinu. Á meðal fyrri handhafa einstaklingsverðlaunanna eru tveir rannsóknarráðsmenn RNH, prófessorarnir Ragnar Árnason og Hannes H. Gissurarson. Gísli Hauksson, formaður stjórnar RNH, tók við verðlaununum til RNH úr hendi Magnúsar Júlíussonar, formanns SUS, á samkomu í Valhöll föstudaginn 23. maí 2014. Verðlaunin eru skírð í höfuðið á Kjartani Gunnarssyni, fjárfesti og fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, en hann hefur verið og er ötull baráttumaður fyrir frelsi.