Aðildarsamtök Evrópuvettvangs minningar og samvisku, European Platform of European Memory and Conscience, ákváðu 30. apríl að veita í fyrsta skipti verðlaun Evrópuvettvangsins, og renna þau að þessu sinni til leiðtoga Krím-tatara, Mustafa Dzhemílev. Hann hlýtur verðlaunin fyrir hugrekki og óþreytandi baráttu fyrir almennum mannréttindum og hugsjónum frelsis og lýðræðis, jafnt á meðan alræðisstjórn var í Ráðstjórnarríkjunum og eftir að Úkraína varð sjálfstæð á ný. Evrópuvettvangurinn leggur sérstaka áherslu á og styður vörn Dzhemílevs fyrir réttindum tatara á Krímskaga, sem Rússneska ríkjasambandið lagði nýlega ólöglega undir sig, og vonar, að verðlaunin verði framlag til þeirrar baráttu.
Verðlaun Evrópuvettvangs minningar og samvisku verða afhent í fyrsta sinn á alþjóðlegri ráðstefnu um „Arfleifð alræðisstefnunnar á okkar dögum“, sem haldin verður í þinghöllinni í Prag í Tékkneska lýðveldinu 12.–13. júní 2014. „Ég er mjög ánægður með það, að aðildarsamtök okkar kusu fyrrverandi andófsmann gegn ráðstjórninni, sem nú hefur á loft merkið fyrir almennum mannrétindum, lýðræði og réttarríki gegn hinni ágengu landvinningastefnu Vladímírs Pútíns,“ segir forseti Evrópuvettvangsins, Göran Lindblad. Nýlega var einnig tilkynnt, að Dzhemílev hefði fengið pólsku Samstöðu-verðlaunin, og mun forseti Póllands afhenda honum þau í Varsjá 3. júní. RNH hefur átt aðild að Evrópuvettvangi minningar og samvisku frá 2013, og mun Hannes H. Gissurarson prófessor sækja ráðstefnuna í Prag fyrir hönd RNH. Þátttaka hans í ráðstefnunni er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna.“