Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, heldur fyrirlestur um skýringar á íslenska bankahruninu 2008 á árlegri ráðstefnu bandarísku samtakanna APEE, Association of Private Enterprise Education, í Las Vegas í Nevada mánudaginn 14. apríl 2014. Erindi hans er kl. 2.55–4.10 síðdegis á málstofu, sem Anna Sachko Gandolfi stjórnar. Aðrir fyrirlesarar á málstofunni eru James Lee Caton, Jr. frá George Mason-háskóla í Virginíu og þeir Atin Basuchoudhary, Samuel Allen og Troy Siemers frá Herháskólanum í Virginíu, Virginia Military Institute. Hannes vísar þar á bug tveimur algengum skýringum á falli bankanna. Önnur er, að það hafi orðið vegna nýfrjálshyggjutilraunar Davíðs Oddssonar. Tvær staðreyndir nægja til að hnekkja þeirri skýringu að sögn Hannesar. Útrás bankanna erlendis hófst af alvöru 2004, sama ár og Davíð lét af starfi forsætisráðherra. Hin staðreyndin og sýnu mikilvægari er, að á Íslandi giltu sömu reglur um fjármálamarkaði og í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, þar á meðal öllum ríkjum Evrópusambandsins.
Hin skýringin, sem Hannes hafnar, er, að íslenskir bankamenn hafi verið miklu óreyndari og fífldjarfari en starfsbræður þeirra og -systur erlendis. Hannes færir tvær röksemdir gegn þessari skýringu. Íslenskir bankamenn hafi fengið lán frá erlendum bankamönnum, og þá þurfi að skýra, hvers vegna þessir erlendu bankamenn voru svo fífldjarfir og óreyndir að gera það. Í öðru lagi hafi komið í ljós, að margir erlendir bankar hafi riðað til falls í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu, til dæmis UBS í Sviss, RBS í Bretlandi og Danske Bank í Danmörku, en þeim hafi verið bjargað, meðal annars vegna þess að seðlabankar hafi margir getað gert gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska seðlabankann.
Að dómi Hannesar liggja rætur bankahrunsins frekar í ákvörðunum erlendis. Bandaríski seðlabankinn hafi neitað að gera gjaldeyrisskiptasamning við íslenska seðlabankann, og ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins hafi ekki aðeins neitað að aðstoða banka í eigu Íslendinga, á sama tíma og hún aðstoðaði alla aðra banka í Bretlandi, heldur hafi hún sett hryðjuverkalög á Landsbankann, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og með því gert að engu allar vonir um að bjarga einhverjum íslenskum bönkum úr rústunum. Hannes hefur áður flutt erindi á ársfundum samtakanna APEE og birt ritgerðir í tímariti þeirra, Journal of Private Enterprise. Fyrirlestur hans í Las Vegas er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.