Á málstofu í Viðskiptadeild Háskóla Íslands 5. nóvember 2013 gagnrýndi Hannes H. Gissurarson prófessor söguskýringar þeirra Rogers Boyes, Roberts Wades, Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur og fleiri um íslenskt hagkerfi á 20. öld. Þessir höfundar héldu því fram, að hagkerfið hefði lotið fjórtán fjölskyldum eða Kolkrabba. Hannes rakti, hvernig „fjölskyldurnar fjórtán“ hefðu orðið til í blaðamannamáli til að lýsa ástandinu í El Salvador, sem skiptist í fjórtán umdæmi eða héruð. Ólíku væri hins vegar saman að jafna, El Salvador og Íslandi. Hér væri tekjudreifing til dæmis miklu jafnari en þar. Auðvitað hefðu ýmsar fjölskyldur verið áhrifamiklar á Íslandi á 20. öld, til dæmis Thorsarar, Engeyjarættin og ýmsar heildsalafjölskyldur. En slíkar fjölskyldur hefðu ekki aðeins verið til á hægra væng stjórnmálanna. Feðgarnir Hermann Jónasson og Steingrímur Hermannsson hefðu verið forsætisráðherrar í samtals 17 ár á öldinni. Jóhanna Sigurðardóttir væri dóttir þingmanns Alþýðuflokksins og sonardóttir kunns verkalýðsleiðtoga. Hannes benti á, að orsakasambandið gæti verið öfugt við það, sem margir héldu: Ættir yrðu nafnkunnar, af því að menn úr þeim næðu frama, en þeir næðu ekki frama, af því að þeir væru af nafnkunnum ættum. Kolkrabbahugtakið væri líka útlent. Það hefði verið notað í upphafi 20. aldar um einokunarsamtök, en hér á Íslandi hefði eflaust haft áhrif, að Sjónvarpið sýndi 1986–1987 myndaflokk um ítölsku mafíuna undir heitinu „Kolkrabba“. Blaðamenn hefðu síðan tekið orðið upp og notað um laustengdar hóp kaupsýslumanna undir forystu Halldórs H. Jónssonar húsameistara. Sá hópur hefði þó ekki ráðið nema fáum af stærstu fyrirtækjum landsins og þá aðeins um nokkurt skeið: Mörg hefðu verið samvinnufyrirtæki, til dæmis SÍS, KEA og Olíufélagið, önnur ríkisfyrirtæki, svo sem Landsbankinn og ÁTVR, og sum sölusamtök fyrir sjávarútveg, SH og SÍF.
Hannes vék einnig að þeirri skoðun, að Kolkrabbinn hefði þokað fyrir Eimreiðarhópnum undir lok 20. aldar. Því færi fjarri. Eimreiðarhópurinn hefði myndast utan um þá hugsjón að halda úti menningartímariti, en eftir að það hætti útkomu, hefði ritnefndin haldið áfram að hittast í hádeginu aðra hvora viku. Hópurinn hefði verið sundurleitur um margt, og hefði Davíð Oddsson til dæmis fellt Þorstein Pálsson í formannskjöri í Sjálfstæðisflokknum 1991, en báðir hefðu þeir verið í hópnum. Eimreiðarhópurinn hefði verið hádegisverðarhópur, en ekki valdaklíka. Hannes vísaði líka á bug ýmsum söguskýringum Roberts Wades og Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur um aðdraganda bankahrunsins. Bankahrunið hefði ekki orðið vegna losaralegs regluverks, því að hér hefði verið nákvæmlega sama regluverk og í öðrum aðildarríkjum EES. Hins vegar hefði vel heppnuð hagstjórn áranna 1991–2004 leitt til þess, að Ísland hefði notið mikils lánstrausts erlendis. Þetta lánstraust hefði auðklíka undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi notfært sér. Þegar skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið væri skoðuð, sæist, að þessi klíka hefði verið í sérflokki um skuldasöfnun. Aðrar viðskiptasamstæður, svo sem Exista-hópurinn og Björgólfsfeðgar, fóru mun gætilegar. Hannes nefndi aðra ástæðu til þess, að klíka Jóns Ásgeirs hefði verið í sérflokki: Hún hefði keypt upp fjölmiðla og sigað þeim óspart á þá, sem hún taldi andstæðinga sína. Hannes lauk máli sínu með því að benda á, að fámennið væri í senn styrkleiki Íslendinga og veikleiki.
Málstofan var vel sótt, þótt Hannes kvæðist sakna þess, að enginn þeirra, sem hann gagnrýndi, skyldi mæta á hana, þótt þeim hefði sérstaklega verið boðið. Einn fundargesta, Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, bloggaði um málstofuna. Einnig tók netsjónvarp Morgunblaðsins viðtal við Hannes um efni erindis hans.