Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, heldur erindið „Réð Kolkrabbi atvinnulífi á Íslandi fram undir lok 20. aldar? Og hvað tók þá við?“ á málstofu Viðskiptafræðideildar þriðjudaginn 5. nóvember 2013 á Háskólatorgi, stofu HT-101, kl. 12–13. Þar mun Hannes ræða þá kenningu, sem getur að líta í ýmsum ritum um Ísland síðustu árin, til dæmis í bókinni Meltdown Iceland eftir breska blaðamanninn Roger Boyes, og í ritgerðum, til dæmis eftir Robert Wade og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur í New Left Review, að íslenskt atvinnulíf hafi fram á tíunda áratug 20. aldar verið í höndum Kolkrabba eða fjölskyldnanna fjórtán, en síðan þriggja viðskiptasamstæðna.
Hannes Hólmsteinn mun lýsa uppruna og notkun hugtakanna „fjölskyldnanna fjórtán“ og „Kolkrabbans“ í umræðum á Íslandi, en bæði eru þau sótt til útlanda. Þá mun hann skoða, hvaða gögn séu til fyrir því, að hópar, sem afmarka mætti með þessum heitum, hefðu ráðið miklu eða jafnvel flestu í atvinnulífinu á einhverju tímaskeiði. Í því sambandi skoðar hann sérstaklega yfirlit yfir stærstu fyrirtæki á Íslandi síðustu áratugi 20. aldar, skiptingu hagkerfisins á milli einkageirans og opinbera geirans og eðli og umfang samvinnuhreyfingarinnar. Síðan mun Hannes í erindi sínu víkja að þeim þremur viðskiptasamstæðum, sem umsvifamestar urðu um og eftir aldamótin 2000, Baugsklíkunni, Exista-hópnum og Björgólfsfeðgum, en í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu var gagnrýnt, að stjórnvöld skyldu ekki flokka fyrirtæki innan sömu samstæðunnar sem tengd, svo að úr því hafi orðið sérstök kerfisáhætta. Erindi Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans”.