Prófessor Hannes H. Gissurarson hélt fyrirlestur um bankahrunið og kapítalismann á fjölmennum morgunverðarfundi hugveitunnar Timbro í Stokkhólmi þriðjudaginn 29. október 2013. Ásamt honum talaði þar Urban Bäckström, fyrrverandi seðlabankastjóri Svíþjóðar og nú framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í Svíþjóð. Hannes kvað orsakir fjármálakreppunar aðallega þrjár: 1) sú óskráða leikregla, að bankamenn geti velt tapi yfir á skattgreiðendur, en stungið gróða í eigin vasa; 2) misráðin ríkisafskipti, til dæmis undirmálslán á bandarískum húsnæðismarkaði og lágvaxtastefna bandaríska seðlabankans; 3) röng eða ónákvæm verðlagning áhættu, sem ný fjármálatækni hefði ekki bætt úr. Í ljós hefði komið, að kapítalisminn væri ekki eins stöðugur og áður hafði verið haldið.
Hannes Hólmsteinn sagði, að bankahrunið íslenska hefði ekki orðið vegna regluverksins, sem hefði verið hið sama og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu, eða vegna fífldjarfra bankamanna, því að bankamenn erlendis hefðu reynst engu betri, eða vegna þess að bankarnir hefðu verið of stórir, því að Sviss, sem hefði haft hlutfallslega jafnstórt bankakerfi, hefði í kreppunni fengið stórkostlega aðstoð bandaríska seðlabankans með gjaldeyrisskiptasamningum, sem jafngiltu í raun leyfi handa svissneska bankanum að prenta dali. Án þessarar aðstoðar hefði svissneska bankakerfið hugsanlega fallið. Íslendingar fengu þessa aðstoð hins vegar ekki, og það réð úrslitum. Íslendingar voru skildir eftir úti í kuldanum.
Urban Bäckström kvað kapítalismann ekki hafa fallið með íslenska bankakerfinu. Svíar hefðu lent í bankakreppu snemma á tíunda áratug 20. aldar, þegar eignabóla hefði sprungið og gengi sænsku krónunnar hríðfallið. Þeir hefðu leyst vandann með því að þjóðnýta þá banka, sem þurftu á mikilli aðstoð að halda, en hinir hefðu haldið áfram rekstri óbreyttir. Síðan hefðu bankar í eigu ríkisins aftur smám saman verið seldir. Innstæðueigendur og lánardrottnar bankanna hefðu fengið sitt, en eigendur hlutafjár í þeim bönkum, sem illa hefðu verið staddir, hefðu misst sitt. Hannes Hólmsteinn kvað þetta skynsamlega leið út úr bankakreppu. Íslendingar hefðu hins vegar ekki getað farið hana, því að þeir hefðu misst stjórn á atburðarásinni, þegar ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins lokaði íslenskum bönkum í Bretlandi sama dag og hún bjargaði öllum öðrum bönkum í landinu og bætti gráu ofan á svart með því að setja hryðjuverkalög á einn af íslensku bönkunum með mjög sterkum hliðarverkunum fyrir starfsemi allra annarra íslenskra fyrirtækja og stofnana. Fundurinn með þeim Hannesi og Bäckström var fjölsóttur, og var skrifuð vinsamleg grein um boðskap Hannesar í virtasta og vinsælasta blað Svíþjóðar, Dagens Nyheter. Fundurinn var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.
Einnig er upptaka af fundinum öllum með erindum og umræðum aðgengileg á Youtube: