Prófessor Hannes H. Gissurarson flutti 25. október 2013 erindi á málstofu um íslenska bankahrunið í Þjóðarspeglinum, þar sem kennarar á félagsvísindasviði Háskóla Íslands kynna rannsóknir sínar. Þar vísaði hann á bug þeim skýringum á bankahruninu, að regluverk á íslenskum fjármálamarkaði hefði verið losaralegra en annars staðar og að íslenskir bankamenn hefðu verið meiri glannar en gekk og gerðist. Hann benti á, að regluverk hefði verið hið sama hér og annars staðar í Evrópu og að íslenskir bankamenn hefðu framan af átt auðvelt með að útvega sér viðskiptavini, jafnt innstæðueigendur, lánveitendur og lánþega. Hitt væri annað mál, að íslenskir bankamenn hefðu notið góðs af því, að vegna skynsamlegrar hagstjórnar 1991–2004 hefði lánstraust Íslands verið mjög mikið erlendis. Tvenns konar kerfisáhætta hefði verið á íslenskum fjármálamarkaði, krosseignatengsl og hóflaus skuldasöfnun einnar viðskiptasamstæðu annars vegar — sem gerðu hefðu verið rækileg skil í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu — og munur á rekstrarsvæði og baktryggingarsvæði bankanna hins vegar.
Hannes sýndi línurit, sem hann gerði eftir tölum rannsóknarnefndar Alþingis, um skuldasöfnun þriggja helstu fyrirtækjahópanna fyrir bankahrun, og sást þar, að Baugssamstæðan var í sérflokki. Hannes benti þó á, að ákvarðanir bandarískra og breskra stjórnvalda réðu úrslitum um það, að allt bankakerfið íslenska hrundi í stað þess eins, að hér yrði kreppa við það, að lánsfjárbólan spryngi. Bandaríski seðlabankinn neitaði að gera gjaldeyrisskiptasamninga við íslenska seðlabankann, á sama tíma og hann gerði slíka samninga við aðra norræna seðlabanka og raunar alla seðlabanka þróaðra iðnríkja utan evrusvæðisins. Breska fjármálaeftirlitið lokaði íslensku bönkunum tveimur í Lundúnum, á sama tíma og kynnt var áætlun um að bjarga öllum öðrum bönkum í Bretlandi. Og breska fjármálaráðuneytið beitti hryðjuverkalögum á Landsbankann, sem hafði ómældar afleiðingar á alla starfsemi íslenskra fyrirtækja erlendis. Veðköll og skyndisölur ollu því líka, að ýmsar eignir íslenskra fyrirtækja seldust á miklu lægra verði en eðlilegt gat talist, jafnvel í kreppu. Nefndi Hannes dæmi frá Noregi um það. Þessir erlendu áhrifaþættir bankahrunsins væru enn ekki að fullu skýrðir. Erindi Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.