Ayn Rand er einn vinsælasti og áhrifamesti rithöfundur heims. Bækur hennar hafa selst í meira en 30 milljónum eintaka. Almenna bókafélagið hefur gefið út tvær kunnustu skáldsögur hennar, en nú er röðin komin að mannlegustu skáldsögu Ayns Rands, Kíru Argúnóvu (We the Living), sem birtist í íslenskri þýðingu föstudaginn 1. nóvember 2013, og bjó Frosti Logason útvarpsmaður hana til prentunar, en Ásgeir Jóhannesson, lögfræðingur og heimspekingur, skrifaði eftirmála um höfundinn og heimspeki hans. Söguþráðurinn er í stuttu máli: Kíra er sjálfstæð og hugrökk stúlka, sem leggur stund á verkfræði í Pétursborg skömmu eftir byltinguna 1917. Í skólanum kynnist hún Andrej, sanntrúuðum kommúnista og leyniþjónustumanni. Fyrir tilviljun hittir hún glæsimennið Leo, sem er atvinnulaus og vonsvikinn sonur aðmírals frá keisaratímanum, og takast með þeim ástir. Þeirra þriggja bíða söguleg örlög á umrótstímum, þar sem lífið sjálft er að veði.
Ayn Rand fæddist í Pétursborg í Rússlandi 2. febrúar 1905 og lauk prófum í sögu og heimspeki, en fluttist til Bandaríkjanna 1926 og gerðist handritahöfundur í Hollywood, og voru leikrit eftir hana einnig færð upp á Broadway. Hún giftist kvikmyndaleikaranum Frank O’Connor 1929, og voru þau barnlaus. Skáldsagan We the Living kom út eftir hana í Bandaríkjunum 1936, en var framhaldssaga í Morgunblaðinu 1949 undir nafninu Kíra Argúnova. Hún var kvikmynduð á ítölsku 1942. Skáldsagan The Fountainhead eða Uppsprettan kom út eftir Rand 1943, varð metsölubók og var kvikmynduð í Bandaríkjunum 1949. Skáldsagan Atlas Shrugged eða Undirstaðan kom út eftir Rand 1957 og varð einnig metsölubók. Leikritið Aðfaranótt sautjánda janúar eftir Rand var flutt í Ríkisútvarpinu 1966 og 1994. Rand bjó lengst í New York og lést þar 6. mars 1982.
Í tilefni útkomu Kíru Argúnovu heldur RNH í samstarfi við Almenna bókafélagið fund um heimspeki Ayns Rands föstudaginn 1. nóvember kl. 17.15 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, stofu N-131. Þar mun dr. Yaron Brook, forstöðumaður Ayn Rand-stofnunarinnar í Kaliforníu, flytja erindi um það, hvers vegna sjálfselska sé manninum eðlileg. Brook fæddist í Ísrael 1961, og voru foreldrar hans sósíalistar. En sextán ára las hann Undirstöðuna eftir Rand og snerist frá sósíalisma. Hann var í ísraelska hernum í þrjú ár og starfaði fyrir leyniþjónustu hersins. Hann lauk síðan MBA prófi frá Háskólanum í Texas í Austin og doktorsprófi í fjármálafræðum frá sama skóla. Hann hefur kennt fjármálafræði við bandaríska háskóla, rekur fjárfestingarfyrirtæki ásamt félögum sínum og hefur verið forstöðumaður Ayn Rand-stofnunarinnar frá 2000.
Fundurinn er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Einnig tekur SUS, Samband ungra sjálfstæðismanna, þátt í fundinum. Fyrir ræðu dr. Brooks verður sýnt stutt kynningarmyndband um hina ítölsku kvikmynd, sem gerð var upp úr skáldsögunni. Dr. Brook gaf nýlega út bókina The Free Market Revolution: How Ayn Rand’s Ideas Can End Big Government. Hann er tíður gestur í sjónvarpi. Hér talar hann um orsakir fjármálakreppunnar 2008: