Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði í Háskóla Íslandi, gagnrýndi harðlega kröfuna um sérstakt veiðigjald eða auðlindaskatt í sjávarútvegi á alþjóðlegri ráðstefnu um kvótakerfi og veiðigjald, sem haldin var í hátíðasal Háskóla Íslands mánudaginn 14. október 2013. Hann kvað veiðigjaldskröfuna hvíla á tveimur ranghugmyndum um fiskveiðar. Önnur væri, að arðurinn af auðlindinni stafaði af auðlindinni einni. En væri svo, hvers vegna bar auðlindin þá ekki neinn arð á árum áður? Sannleikurinn væri sá, að auðlindin bæri ekki arð nema við réttar reglur. Hin ranghugmyndin væri sú, að veiðigjald eða auðlindaskattur truflaði ekki verðmætasköpun. En það hefði margvíslegar truflanir í för með sér, þegar handhafar kvóta hegðuðu sér sem leiguliðar frekar en eigendur. Fjárfestingar yrðu minni og menn tregari til að taka hæfilega áhættu. Ragnar benti á, að keppinautar Íslendinga erlendis legðu ekki á nein veiðigjöld, heldur veittu sjávarútvegi landa sinna miklu frekar ríflega styrki. Veiðigjald kynni til skamms tíma að auka skatttekjur, en til langs tíma myndi þau minnka það, þar sem hagvöxtur yrði þess vegna hægari en ella.
Ralph Townsend, prófessor í fiskihagfræði í Maine-háskóla og fyrrverandi formaður fiskihagfræðingasamtaka Norður-Ameríku, kvað sjávarútveg skila mestum arði í þjóðarbúið, þegar kvótar væru í eigu handhafa þeirra. Hann rifjaði upp, þegar hann var aðalhagfræðingur sjávarútvegsráðuneytis Nýja-Sjálands, sem kom ásamt Íslandi fyrst upp kvótakerfi. Árangurinn varð hinn sami í báðum löndum: Fiskveiðar urðu arðbærar, og umgengnin við auðlindina batnaði. Townsend kvað hins vegar nokkuð skorta upp á fyllstu hagkvæmni, því að enn væri leyfilegur hámarksafli ákveðinn af stjórnvöldum, en heppilegra væri, að útgerðarmenn sjálfir settu hann, enda ættu þeir mest í húfi, að auðlindin bæri sem mestan arð til langs tíma. Hagfræðingar hefðu vanrækt að fylgja hugmyndinni um kvótakerfi eftir og leggja á ráðin um, hvernig því mætti breyta í kerfi eignarréttar. Hugsanlega mætti stofna hlutafélag um hverja tegund fiskveiða.
Dr. Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, lýsti hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópusambandsins,, CFP, Common Fisheries Policy. Kvað hann menn samdóma um, að hún hefði ekki náð settum markmiðum um hagkvæmni og sjálfbærni. Til dæmis væru 95% af fiskistofnum í Miðjarðarhafi og 47% í Atlantshafi veidd umfram það, sem líffræðingar teldu óhætt. Niðurgreiðslur og styrkir til fiskveiða næmu um 3,3 milljörðum evra, sem væri um 50% af aflaverðmæti evrópskra skipa. Ráðamönnum Evrópusambandsins væri fullkunnugt um, að CFP hefði ekki borið árangur, og leituðu þeir nú nýrra leiða til að bæta fyrirkomulag fiskveiða. Þar væri vænlegast að dreifa ákvörðunarvaldinu til einstakra svæða og samtaka og mynda einhvers konar einstaklingsbundin nýtingarréttindi eða eignarréttindi, hvort sem þau yrðu kölluð kvótar eða eitthvað annað.
Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, kvaðst hafa mestan áhuga á stjórnmálalegum og siðferðilegum sjónarmiðum um nýtingu takmarkaðra auðlinda. Til þess að frelsi eins manns til að nýta auðlind skaðaði ekki sama frelsi annarra til þess, þyrfti að takmarka aðgang að auðlindinni. Dæmi um þetta á Íslandi að fornu væru ítala, þegar hver bóndi í dalnum mátti aðeins reka tiltekinn fjölda sauða á fjall, og stangir í laxveiðiám, þegar hver bóndi við ána mátti aðeins setja tiltekinn fjölda fiskistanga í ána á dag í veiðitímabilinu. Kvótakerfið í sjávarútvegi væri þriðja dæmið. Úthluta hefði þurft kvótum í upphafi eftir aflareynslu, því að með því var högum þeirra, sem þegar stunduðu úthafsveiðar, ekki raskað umfram nauðsyn. Eini rétturinn, sem tekinn hefði verið af öðrum landsmönnum, hefði verið rétturinn til að reka útgerð án nokkurs gróða, og sá réttur hefði samkvæmt skilgreiningu verið einskis virði. Hannes vék síðan að hvalveiðum. Spurði hann, með hvaða rökum hvalafriðunarsinnar gætu sent hvali á beit í heimahaga Íslendinga, á Íslandsmið, þar sem hvalirnir ætu sex milljónir lesta af sjávardýrum, á meðan Íslendingar veiddu þar eitthvað á aðra milljón lesta af fiski. Þetta væri svipað því, ef maður ræki gæludýr sín á beit í haga granna síns, en harðbannaði honum að nýta dýrin og bætti honum í engu uslann af þeim. Hið sama væri að segja um makríldeilu Evrópusambandsins og Íslendinga. Makríllinn hefði skyndilega þyrpst á Íslandsmið, og væru nú um 30% stofnsins innan hans. Makríllinn æti allt, sem fyrir yrði, og væri svipaður engisprettufaraldri þeim, sem segir frá í helgri bók. Hann væri hins vegar eftirsóttur fiskur, enda bragðgóður. En þótt makríllinn væri á beit á Íslandsmiðum, hótaði Evrópusambandið Íslendingum refsiaðgerðum, ef þeir nýttu meira en lítið brot af þessum verðmæta stofni. Þetta væri eins og þegar bóndi sendi gráðuga sauði á beit hjá nágrannanum, en bannaði nágrannanum að nýta sauðina eða neitaði honum um bætur fyrir áganginn.
Ráðstefnan var haldin til minningar um Árna Vilhjálmsson, prófessor í fjármálafræði og frumkvöðul í sjávarútvegi. Eitt af þeim fyrirtækjum, sem Árni rak með félögum sínum, Hvalur hf., gaf Háskóla Íslands brjóstmynd af Árna, sem Gerður Gunnarsdóttir myndhöggvari hafði mótað. Kristján Loftsson frá Hval afhenti myndina með örfáum orðum, ekkja Árna, Ingibjörg Björnsdóttir listdansari, afhjúpaði hana, og veitti Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, henni viðtöku fyrir hönd Háskólans, en hann stjórnaði einnig ráðstefnunni. Húsfyllir var á ráðstefnunni, og voru margir gamlir nemendur Árna í salnum, en hann var vinsæll og virtur kennari. Í ráðstefnulok var móttaka á pallinum fyrir framan hátíðasalinn. Bakhjarlar ráðstefnunnar voru Hvalur og Landsbanki Íslands, þar sem Árni sat lengi í bankaráði. Hann sat einnig í stjórnum margra fyrirtækjum, svo sem Flugleiða, Hampiðjunnar, Nýherja og Granda. Ráðstefnan var einnig þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Ráðstefnan vakti mikla athygli og umræður, og sagði Morgunblaðið frá henni í frétt 15. október og birti síðan fréttaskýringu um hana 17. október.