Margrét Thatcher var ásamt Winston Churchill eini alþjóðlegi stjórnmálaleiðtoginn, sem kom frá Bretlandi á tuttugustu öld, sagði breski rithöfundurinn John O’Sullivan á fundi, sem Samband ungra sjálfstæðismanna hélt, en RNH studdi, 13. október 2013, á afmælisdegi Thatchers. Á sama hátt og Churchill barðist við hlið Roosevelts í seinni heimsstyrjöld sem smærri bandamaður, leiddi Thatcher Kalda stríðið til lykta við hlið Reagans sem smærri bandamaður. Það var ekki síst þeim að þakka, að hinar kúguðu þjóðir Mið- og Austur-Evrópu endurheimtu frelsi sitt eftir hrun kommúnismans.
Í Falklandseyjastríðinu og í baráttunni við herskáa, en umboðslausa verkfallsmenn sýndi Thatcher líka kjark sinn og festu að sögn O’Sullivans. Löngu var orðið tímabært að losa það kverkatak, sem verkfallsþrjótar höfðu haft á bresku atvinnulífi og snúa við öfugþróun síðustu þrjátíu ára. O’Sullivan var vinur og ræðuskrifari Thatchers í forsætisráðherratíð hennar 1975–1990, og hann flutti á fundinum andríka greiningu og málsvörn fyrir hana og stjórnmálasögu hennar. Hann kvað Thatcher hafa verið blíða við þá, sem minna mátti sín í kringum hana, bílstjóra, framreiðslustúlkur og aðra úr starfsliði sínu, en að sama skapi harða og jafnvel stundum of harða við þá, sem ofar stóðu í metorðastiganum, svo sem ráðherra og háembættismenn. Stundum hefði hún farið illa með þá.
O’Sullivan hefur skrifað margt um Thatcher, til dæmis grein um tvær hliðar á henni fyrir Daily Telegraph, og einnig sagt frá henni í sjónvarpi, til dæmis fyrir Wall Street Journal:
Á fundinum voru sýndar stiklur úr stjórnmálaferli Thatchers, sem breski Íhaldsflokkurinn hafði látið gera:
Margar heimildarmyndir eru til um Thatcher á Netinu, ekki síst á Youtube.
Fyrir ræðu O’Sullivans mælti Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, sem var fundarstjóri, nokkur orð. Kvað hún Thatcher hafa verið fyrirmynd sína og margra annarra kvenna, sem teldu mikilvægasta jafnréttið fólgið í fullu og jöfnu frelsi og karla til að velja sér markmið í lífinu. Í fundarlok sagði Hannes H. Gissurarson prófessor nokkrar sögur af skiptum sínum við Thatcher, en einnig um samband hennar og gamals meistara þeirra beggja, Friedrichs von Hayeks, en um hann skrifaði Hannes doktorsritgerð. Thatcher, barónessa Kesteven, var verndari AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, en RNH starfar með þeim að tveimur verkefnum, „Evrópu fórnarlambanna“ og „Evrópu, Íslandi og framtíð kapítalismans“. Fundurinn vakti mikla athygli og umræður. Veftímaritið Andríki kynnti hann 12. október. Morgunblaðið birti 21. október 2013 viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við O’Sullivan um Thatcher, aðallega um manninn að baki stjórnmálaskörungnum. Tímaritið Þjóðmál mun birta erindi O’Sullivans í íslenskri þýðingu.