Margrét Thatcher, barónessa af Kesteven, formaður Íhaldsflokksins 1975–1990 og forsætisráðherra 1979–1990, lést 8. apríl 2013. Hún er einn sigursælasti og virtasti stjórnmálamaður Breta og hinn eini, sem sérstök stjórnmálastefna er kennd við, thatcherismi, sem felur í sér aukið einstaklingsfrelsi og fjölgun tækifæra til að brjótast úr fátækt í bjargálnir. Margir telja, að Thatcher hafi ekki aðeins breytt breskum stjórnmálum, svo að um munaði, heldur hafi hún og Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna 1981–1989, með festu sinni og framsýni leitt Vesturveldin til fulls sigurs í Kalda stríðinu. Samband ungra sjálfstæðismanna heldur fund um Thatcher, arfleifð hennar og fordæmi á afmælisdegi hennar sunnudaginn 13. október 2013 í stofu N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, kl. 17–18. Þar talar breski rithöfundurinn John O’Sullivan um „hina raunverulegu járnfrú“. Sýnt verður kynningarmyndband úr hinni umdeildu kvikmynd um Thatcher, Járnfrúnni, þar sem Meryl Streep lék aðalhlutverkið, og valdir kaflar úr heimildarmyndum um Thatcher. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, stjórnar fundinum. Að honum loknum verður móttaka á staðnum, kl. 18–19.
John O’Sullivan fæddist árið 1942 og hlaut menntun sína í Lundúnaháskóla, University of London. Hann var í framboði fyrir breska Íhaldsflokkinn í þingkosningunum 1970 og var vinur og samstarfsmaður Thatchers í forsætisráðherratíð hennar og eftir það, skrifaði fyrir hana ræður og aðstoðaði hana við ritun sjálfsævisögu hennar í tveimur bindum. Hann var lengi ritstjóri bandaríska tímaritsins National Review, sem hinn kunni rithöfundur William Buckley stofnaði. O’Sullivan er nú forstöðumaður útvarpsstöðvarinnar Radio Free Europe í Prag, en Bandaríkjastjórn hefur rekið þá útvarpsstöð áratugum saman, og gegndi hún mikilvægu hlutverki í Kalda stríðinu við að flytja kúguðum þjóðum Mið- og Austur-Evrópu áreiðanlegar fréttir og fréttaskýringar. O’Sullivan er kaþólskrar trúar, og árið 2006 gaf hann út bókina The President, the Pope, and the Prime Minister um þátt Thatchers, Reagans og Jóhannesar Páls II. páfa í því að fella kommúnismann.
RNH styður þennan viðburð sem lið í samstarfsverkefni RNH og Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, AECR, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“, en Thatcher var verndari AECR. Næsti viðburður í verkefninu er alþjóðleg ráðstefna mánudaginn 14. október í minningu Árna Vilhjálmssonar prófessors. Hún verður í hátíðasal Háskóla Íslands 17–19. Þar mun einn kunnasti fiskihagfræðingur heims, prófessor Ralph Townsend, ræða um rökin fyrir kvótakerfi í sjávarútvegi. Ragnar Árnason prófessor mun gagnrýna kröfuna um veiðigjald og dr. Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, mun gagnrýna fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, CFP, Common Fisheries Policy.