Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, sem situr í rannsóknarráði RNH, flytur fyrirlestur um íslenska bankahrunið og þá lærdóma, sem Evrópuþjóðir geta dregið af því, á frelsisþingi European Young Conservatives í Churchill-garði í Cambridge 22. september 2013. Í fyrirlestri sínum mun Hannes ræða sérkenni íslenska bankahrunsins og sérstakar ástæður þess umfram hinar almennu ástæður alþjóðlegu fjármálakreppunnar, þar á meðal tvær tegundir af kerfisáhættu, vegna of lítillar dreifingar eigna og skulda í íslenska fjármálageiranum og vegna hins mikla stærðarmunar á rekstrarsvæði bankanna, öllu EES, og baktryggingarsvæði þess, Íslandi einu.
Hannes mun kynna kenningar sínar og rannsóknir á því, hvers vegna seðlabankinn bandaríski veitti íslenska seðlabankanum ekki aðstoð, um leið og hann veitti seðlabönkum allra annarra vestrænna ríkja feikilegan fjárstuðning með gjaldeyrisskiptasamningum, hvers vegna ríkisstjórn breskra jafnaðarmanna lokaði íslensku bönkunum, sama dag og hún jós stórfé í alla aðra banka í Bretlandi, og hvers vegna breska stjórnin beitti hryðjuverkalögum á íslensk fyrirtæki og stofnanir með þeim afleiðingum, að engu varð bjargað. Þessi viðburður er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans”. Á meðal annarra ræðumanna á frelsisþinginu eru Daniel Hannan, evrópuþingmaður og ritari AECR, og Eric Pickles, ráðherra sveitarstjórnarmála á Stóra Bretlandi.