Fjölmenni var í Þjóðarbókhlöðunni mánudaginn 16. september, þegar dr. Andreja Valic Zver, forstöðumaður Stofnunar um sátt sögu og þjóðar í Ljubljana í Slóveníu, flutti fyrirlestur um, hvers vegna mikilvægt væri að minnast fórnarlamba alræðis í Evrópu. Zver rifjaði upp, að Slóvenía hefði á tuttugustu öld þurft að þola undirokun þrenns konar alræðisflokka, fasista, nasista og kommúnista. Enn væru að finnast fjöldagrafir í landinu, aðallega frá fyrstu árum kommúnistastjórnarinnar, enda hefði orðið sannkallað blóðbað við valdatöku kommúnista í stríðslok. Gamlir leynilögreglumenn gengju ekki aðeins um lausir og liðugir, heldur fengju þeir jafnvel heiðursmerki. Margir Slóvenar hefðu líka furðað sig á því, að Evrópusambandið hefði styrkt minnismerki um Tito, sem hefði verið grimmur alræðisherra, þótt hann hefði neitað að taka við fyrirskipunum frá Stalín. Zver rakti niðurstöður kannana, sem sýna, að söguleg vitund æskufólks í Evrópu er mjög takmörkuð, sérstaklega um ódæðisverk kommúnista.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra stjórnaði fundinum. Á meðal þeirra, sem báru fram fyrirspurnir til dr. Zvers, voru dr. Ragnar Árnason prófessor og Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra. Að fyrirlestri Zvers og fyrirspurnum og umræðum loknum hélt dr. Hannes H. Gissurarson prófessor stutta ræðu til að minnast dr. Arnórs Hannibalssonar heimspekiprófessors, sem var einn helsti andstæðingur alræðisstefnunnar á Íslandi. Hannes kvað þrennt hafa einkennt Arnór umfram marga aðra, rík réttlætiskennd, hugrekki og feikileg þekking, enda hefði hann verið kallaður „Arnór fróði“, hefði hann verið uppi á þjóðveldisöld. Hannes rifjaði upp kvöldverð, sem þeir Arnór hefðu setið með pólska heimspekingnum Leszek Kolakowski, þegar hann kom hingað til lands í apríl 1979. Hannes hefði þá spurt Kolakowski, hvort vandi Evrópumanna væri ekki sá, að Guð væri dauður í hugum mannanna, eins og Nietzsche hefði orðað það. Kolakowski hefði þá svarað, að vandinn væri miklu frekar, að djöfullinn væri dauður í hugum mannanna. Menn væru dofnir fyrir möguleikanum á mannvonsku, þeir tryðu ekki lengur eða leiddu hjá sér fréttir og frásagnir um bölið, hið illa í mannskepnunni.
Jafnframt afhenti Hannes Þjóðarbókhlöðunni skjöl þau, sem Arnór Hannibalsson fann í Moskvu í rannsóknum sínum þar eftir hrun kommúnismans, aðallega úr safni Kominterns, Alþjóðasambands kommúnista, en kommúnistaflokkurinn íslenski var deild úr honum frá stofnun 1930. Forystumenn Sósíalistaflokksins höfðu einnig veruleg tengsl við valdhafana í Moskvu, þótt þeir færu oftast leynt með það. Kvað Hannes margt vera merkilegt í þessum skjölum, þótt það dýpkaði ef til vill heldur skilning manna á kommúnismanum á Íslandi frekar en breytti honum. Þegar heilsa Arnórs brast, lét hann Hannes fá skjölin til úrvinnslu í bókina Íslenska kommúnista 1918–1998, sem kom út hjá Almenna bókafélaginu 2011. Eru þessi skjöl nú aðgengileg öllum fræðimönnum.
Fundurinn með dr. Zver 16. september 2013 var til heiðurs Arnóri Hannibalssyni og í tilefni þess, að þennan dag lauk myndasýningu í Þjóðarbókhlöðunni um „Heimskommúnismann og Ísland“. Hún var opnuð 23. ágúst, á minningardegi fórnarlamba alræðis í Evrópu, sem Evrópuþingið valdi, af því að Hitler og Stalín gerðu þann dag árið 1939 griðasáttmála sinn, sem hleypti af stað seinni heimsstyrjöldinni. Að honum stóðu auk RNH Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Varðberg, samtök um vestræna samvinnu. Hann er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Eftir fundinn efndi Hannes til móttöku á heimili sínu, og sóttu hana menntamálaráðherra, landsbókavörður og nokkrir aðrir gestir ásamt dr. Zver. Eiginmaður dr. Zvers, Milan, var menntamálaráðherra Slóveníu 2004–2008 og situr nú á Evrópuþinginu fyrir land sitt. Þriðjudaginn 17. september ræddi Morgunblaðið við dr. Zver. Þar talaði hún meðal annars um sögukennslu, en hún hefur sjálf kennt sögu og verið í forsvari sögukennara í Slóveníu. Viðskiptablaðið birti einnig 19. september frásögn af fyrirlestri dr. Zvers og myndir af fundinum og afhendingu Komintern-skjalanna.