Matthew Elliott frá hinum bresku Samtökum skattgreiðenda flytur erindi í Lögbergi, stofu 101, föstudaginn 20. september kl. 12–13 um varnarbaráttu skattgreiðenda gegn fégirnd og ágengni stjórnvalda. Samtök skattgreiðenda á Íslandi standa að fundinum auk RNH. Samtök skattgreiðenda í Bretlandi (Taxpayers’ Alliance) voru stofnuð árið 2004. Þau eru óháð grasrótarsamtök, sem berjast fyrir lægri sköttum og betri nýtingu skattfjár. Þau eru talin áhrifamestu samtök sinnar tegundar í Bretlandi, hafa mjög látið að sér kveða í breskum fjölmiðlum og hafa mikil áhrif í stjórnmálum þar í landi. Elliott var framkvæmdastjóri samtakanna frá upphafi þar til í júlí 2012.
Matthew Elliott fæddist í Leeds á Englandi og ólst þar upp. Eftir að hann lauk prófi í stjórnsýslufræðum frá Hagfræðiskólanum í Lundúnum, LSE, vann hann fyrir ýmsa þingmenn neðri málstofu Bretaþings og á Evrópuþinginu í Brussel. Hann hefur skrifað þrjú rit í samstarfi við aðra um sóun almannafjár, The Bumper Book of Government Waste (síðasta útg. 2013), sem hlaða má niður af Netinu, The Great European Rip-Off; How the Corrupt, Wasteful EU is Taking Control of Our Lives (Random House, 2009) og Fleeced! How we’ve been betrayed by the politicians, bureaucrats and bankers — and how much they’ve cost us (Constable, 2009). Hann var kosinn Fellow of the Royal Society of Arts í júní 2007 og situr í ráðgjafanefnd fyrir The New Culture Forum. Elliott stofnaði samtökin Gætur á Stóra bróður (Big Brother Watch) árið 2009. Samtökin berjast fyrir borgaralegum réttindum og frelsi einstaklinga og hafa vakið mikla athygli í Bretlandi. Elliott var einnig fenginn til að stýra baráttu samtakanna „NO to AV“ fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2011 um breytingar á bresku kosningalöggjöfinni. Var breytingunni hafnað með verulegum mun, 67.9% gegn 32.1%.
Elliott situr í stjórn Wess Digital, sem sérhæfir sig í kynningarmálum og gagnasöfnun, sem tengist stjórnmálum, og er framkvæmdastjóri Business for Britain. Þau samtök vinna fyrir hönd breskra kaupsýslumanna, sem vilja ná betri árangri í samningum við Evrópusambandið. Breska ríkisútvarpið, BBC, kveður Matthew Elliott „einn áhrifamesta fulltrúa hagsmunasamtaka í Westminster“. Árið 2010 var Elliott á lista veftímaritsins Total Politics um þá 25 einstaklinga, sem þá höfðu mest áhrif á bresk stjórnmál án þess að vera beinir þátttakendur í þeim, en meðal annarra á þeim lista voru fjölmiðlakóngurinn Rupert Murdoch, Mervyn King seðlabankastjóri og Karl ríkisarfi. Hér er viðtal við Elliott í þessu veftímariti. Elliott bloggar reglulega fyrir vefsíðu Daily Mail. Þátttaka RNH í þessum fundi er liður í samstarfsverkefni við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.