Andreasen um framtíð ESB föstudag 30. ágúst: 17–18

Marta Andreasen, sem var aðalbókari framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ESB, flytur erindi föstudaginn 30. ágúst kl. 17–18 í stofu N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Nefnist það: „The European Union, where is it going?“ Hvert stefnir Evrópusambandið? Fundarstjóri verður Björn Bjarnason, fyrrv. dómsmálaráðherra, en að fundinum standa auk RNH Íslenskt þjóðráð, vefurinn Nei við ESB, Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn aðild að Evrópusambandinu, og Evrópuvaktin.

Þátttaka RNH í þessum fundi er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Andreasen, sem nú situr fyrir breska Íhaldsflokkinn á Evrópuþinginu, hefur gagnrýnt harðlega óreiðu og spillingu í Evrópusambandinu. Hún fæddist í Argentínu 1954, lauk prófi í endurskoðun og hagfræði og starfaði hjá ýmsum stórum endurskoðunarfyrirtækjum og síðan hjá OECD og framkvæmdanefnd ESB. Þegar hún gerði sem innri endurskoðandi eða yfirmaður bókhalds athugasemdir við reikninga framkvæmdanefndarinnar árið 2002, var henni snarlega sagt upp. Hún gaf 2009 út bókina Brussels Laid Bare. Andreasen er gift og tveggja barna móðir.

 

Comments are closed.