Myndasýning og fyrirlestrar föstudag 23. ágúst: 16–18

26. ágúst 1991 í Höfða: Frá v.: Davíð, Jón Baldvin, A. Saudargas, Litháen, J. Jurkans, Lettlandi, og L. Meri, Eistlandi.

Evrópuþingið hefur lýst 23. ágúst Evrópudag minningarinnar um fórnarlömb alræðisstefnunnar, jafnt kommúnisma og nasisma. Þennan dag árið 1939 gerðu Hitler og Stalín griðasáttmála, sem hleypti af stað heimsstyrjöldinni síðari, og skiptu jafnframt með sér Mið- og Austur-Evrópu. Af þessu tilefni verður opnuð myndasýning í Þjóðarbókhlöðunni 23. ágúst 2013 um hina alþjóðlegu kommúnistahreyfingu og starfsemi hennar á Íslandi. RNH stendur að sýningunni í samstarfi við Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn. Höfundur hennar er dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor. Sögumiðlun ehf. sér um sýningarhönnun. Hefst athöfnin kl. 16 í fundarsal Þjóðarbókhlöðunnar á milli kaffistofunnar og afgreiðslusals á fyrstu hæð.

Nutt

Við það tækifæri flytur eistneski sagnfræðingurinn og þingmaðurinn dr. Mart Nutt, sem situr í stjórn Mannréttindastofnunar Eistlands, erindi um „Eistland: Smáþjóð undir oki erlendis valds“. Fyrir réttum fjörutíu árum, árið 1973, birtist á íslensku bók eftir sænsk-eistneska rithöfundinn Anders Küng undir sama nafni í þýðingu Davíðs Oddssonar, þá laganema, en þegar hann var forsætisráðherra 1991, höfðu þeir Jón Baldvin Hannibalsson, sem þá var utanríkisráðherra, samvinnu um það að endurnýja viðurkenningu Eystrasaltsríkjanna, sem hernumin voru af erlendum stórveldum 1940–1991. Varð Ísland til þess fyrst ríkja eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna. Mart Nutt fæddist 1962, lauk doktorsprófi 2011 í sagnfræði frá Tækniháskólanum í Tallinn og hefur skrifað bækur um sjálfstæðisbaráttu Eistlendinga á tuttugustu öld. Hann hefur starfað í utanríkisráðuneytinu, en situr nú á þingi fyrir hægri flokk, sem varð til við sameiningu Pro Patria og Res Publica-flokkanna.

Ukielski

Á samkomunni í Þjóðarbókhlöðunni flytur pólski sagnfræðingurinn dr. Pawel Ukielski, forstöðumaður Minningarsafnsins um uppreisnina í Varsjá 1944, einnig erindi um hina sögulegu uppreisn 1944, þar sem þjóðernisjafnaðarmenn, nasistar, gengu berserksgang og drápu alla Pólverja, sem þeir náðu til, á meðan Rauði herinn beið hinum megin Visluár, sem rennur í gegnum Varsjá, og hafðist ekki að. Rússar, Austurríkismenn og Prússar höfðu skipt Póllandi á milli sín á átjándu öld, og eftir griðasáttmála Hitlers og Stalíns skiptu kommúnistar og nasistar aftur Póllandi á milli sín. Landið var undir stjórn kommúnista, sem studdust við her Ráðstjórnarríkjanna, og varð það ekki að fullu frjálst aftur  fyrr en við hrun Ráðstjórnarríkjanna. Pawel Ukielski fæddist 1976 og lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Hagfræðiskólanum í Varsjá 2006. Hann hefur birt bækur og ritgerðir á fræðasviði sínu, starfar fyrir Vísindafélag Pólverja og kennir í Collegium Civitas í Varsjá, jafnframt því sem hann veitir Minningarsafninu í Varsjá forstöðu.

Á eftir erindum þeirra Nutts og Ukielskis verða fyrirspurnir og umræður, en síðan verður boðið til móttöku í húsakynnum Þjóðarbókhlöðunnar, en athöfninni lýkur kl. 18. Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands standa að fyrirlestrum þeirra Nutts og Ukielskis ásamt RNH. Þessi viðburður er einnig þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Comments are closed.