Mont Pelerin samtökin, alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna, sem Friedrich A. von Hayek stofnaði 1947, héldu svæðisþing á Galapagos-eyjum, langt undan strönd Ekvadors eða Miðbaugsríkis, í Suður-Kyrrahafi dagana 22.–29. júní 2013 um „Þróunarkenningu Darwins, mannvísindi og einstaklingsfrelsi“. Var þingið skipulagt í samstarfi við Háskólann San Francisco de Quito, sem rekur rannsóknarstöð á San Cristóbal, einni eynni. Galapagos-eyjar, sem Charles Darwin heimsótti 1835, eru kunnar fyrir fjölskrúðugt gróður- og dýralíf, og eru margar tegundir þar ófinnanlegar annars staðar, til dæmis sum afbrigði af loðselum (sea lions), risaskjaldbökum og sundeðlum (iguanas). Miðbaugurinn liggur um þessar átján eldfjallaeyjar, en hinn kaldi Humboldt-straumur rennur þangað úr Suður-Íshafinu og mætir hlýrri hafstraumum úr sjónum undan Perú, svo að veðurfar er þar mjög breytilegt. Loftslagið fer einnig eftir hæð: Neðst er þurrt, en þegar ofar dregur, eykst raki og með honum gróður, svo að sjá má mörg gróðurbelti teygja sig upp hvert eftir öðru á eyjunum. Margar tegundir dýra og jurta hafa lifað einangraðar á Galapagos-eyjum öldum og jafnvel árþúsundum saman og orðið að laga sig að síbreytilegum aðstæðum. Það var ekki síst, þegar Darwin sá þetta, einkum þó ólíkar tegundir fugla, svo sem spörfugla eins og finkur (finches) og einnig hermikrákur (mockingbirds), að í huga hans mótaðist smám saman kenning um náttúruval, sem hann setti fyrst fram fullmótaða í bókinni Uppruna tegundanna 1859. Prófessor David Kohn lýsti því í fyrirlestri á þinginu, hvernig þessar hugmyndir urðu til, en Kohn er ritstjóri heildarnetútgáfu verka Darwins og höfundur bókarinnar The Darwinian Heritage, sem kom út 1988.
Einn þátttakandi var frá RNH á þinginu, prófessor Hannes H. Gissurarson, sem hefur verið félagi frá 1984 og var í stjórn samtakanna 1998–2004. Hann stjórnaði fundi 25. júní um „manninn sem stjórnmálaveru“, en þar voru framsögumenn prófessor Larry Arnhart, Háskólanum í Norður-Illinois, og prófessor emerítus Kenneth Minogue, Hagfræðiskólanum í Lundúnum. LSE. Þátttaka Hannesar í þinginu var liður í rannsóknarverkefni hans fyrir RNH um grænan kapítalisma, sem unnið er í samstarfi við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna. Því miður varð prófessor Minogue bráðkvaddur í ráðstefnulok, í flugvél með Hannesi og nokkrum öðrum þátttakendum á þinginu á leið frá San Cristóbal til hafnarborgarinnar Guayaquil í Ekvador.
Margir kunnir vísindamenn fluttu erindi á þinginu. Einn þeirra var Robert Boyd, prófessor í mannfræði í Kaliforníuháskóla í Los Angeles, UCLA. Hann lýsti menningarlegri þróun, þegar menn læra smám saman að bregðast við umhverfi sínu. Þannig hleðst upp kunnátta, sem berst frá einni kynslóð til annarrar í krafti nýsköpunar og eftirlíkingar. Boyd benti hins vegar á, að þróunin gæti verið hvort tveggja, öfugþróun eða framþróun. Máli skipti, hvað væri skapað og eftir hverju líkt. Annar var Robin Dunbar, prófessor í þróunarmannfræði í Oxford-háskóla. Hann telur rannsóknir sýna, að einstaklingur geti aðeins haft eðlileg og regluleg samskipti við um 150 manns, og hefur sú tala verið nefnd „Dunbar-talan“. Þessa takmörkun rekur prófessor Dunbar til eiginleika heilans, sem orðið hafi til í langvinnri þróun. Dunbar bendir meðal annars á, að á Snjáldru, Facebook, takmarkast raunveruleg samskipti manna samkvæmt rannsóknum oftast við 100–200 manns, þótt þeir eigi mörg þúsund skráða vini.
Dr. Joáquin Fuster, prófessor í geðlæknisfræði og háttafræði í UCLA, og einn helsti sérfræðingur heims í heilaeðlisfræði, hélt því fram, að heilinn væri flókið fyrirbæri, sem mótast hefði í aðlögun. Framennisbörkurinn hefði öðlast hæfni til að búast við framtíðinni og gera áætlanir í stað þess að bregðast aðeins við eins og heilar dýra gera. Framennisbörkurinn hefði gætt manninn tveimur eiginleikum, sem hefðu gert hann frjálsan, hæfileikann til að reyna að skipuleggja framtíð sína og hæfileikann til að tala. Fuster kvað bók Hayeks, Skipulag skynjunarinnar (The Sensory Order), hafa margt fram að færa um heilann og skynjunina. Bók Fusters, Vísindalegar forsendur frelsis og nýsköpunar (The Neuroscience of Freedom and Creativity), kemur út hjá Cambridge University Press í september 2013.
Geðlæknirinn og taugaeðlisfræðingurinn Peter Whybrow, prófessor í UCLA, ræddi um nýsköpun og athafnamenn í ljósi þróunarkenningarinnar. Besta dæmið um nýsköpun og athafnasemi var að hans sögn, þegar fólk flytti sig um sel. Menn höfðu upphaflega átt sér bólfestu í Afríku, en um 60 þúsund árum f. Kr. hófu sumir þeirra að flytjast burt, sumir í Norðurálfuna (þar sem þeir blönduðust Neandertalsmönnum samkvæmt nýjustu rannsóknum), sumir til Miðausturlanda, Austurlanda fjær og jafnvel til Vesturheims um 10–15 þúsund árum f. Kr. Í hópi innflytjenda væri, sagði Whybrow, jafnan hátt hlutfall af erfðavísum, sem fælu í sér áhættusækni og framtakssemi.
Mannfræðingurinn prófessor John Tooby, Kaliforníuháskóla í Santa Barbara, leitaði skýringa á því, hvers vegna fólk, ekki síst menntamenn, fjandskapaðist við viðskiptafrelsi, keppni að gróða og auðlegð einstaklinga þrátt fyrir ótvíræðan sköpunarmátt kapítalismans. Hann varpaði fram ýmsum skýringum, meðal annars þeirri, að á milljónum ára, á meðan maðurinn var enn á stigi safnara og hirðingja, hefði orðið til eðlishvöt, sem kenndi honum að dreifa áhættu innan nauðþurftaskipulagsins með því að deila gæðunum út. Þessi eðlishvöt ynni gegn hinum sýnilega og augljósa hag af verkaskiptingu og frjálsum viðskiptum.
Richard Wangram, prófessor í þróunarlíffræði í Harvard-háskóla, leiddi rök að því, að undirokun, kúgun og stríðsrekstur væri ekki aðeins finnanlegt í manninum, heldur í mörgum öðrum dýrategundum, meðal annars sjimpönsum, en hann er sérfróður um þá dýrategund. Hins vegar mætti sennilega rekja ýmsar þær myndir, sem stríðsrekstur manna hefði tekið á sig, til menningar frekar en erfða.
Mörg önnur fróðleg erindi voru flutt á þinginu. Til dæmis velti Deepak Lal, prófessor í hagfræði í Kaliforníuháskóla í Los Angeles, UCLA, því fyrir sér, hvort Kína myndi á 21. öld taka við hlutverki Bandaríkjanna sem heimsveldi í yfirburðaaðstöðu. Dr. Charles Murray, sérfræðingur í AEI í Washington-borg, ræddi um erfðafræði og opinbera stefnumörkun, meðal annars muninn á kynjum og kynþáttum. John Kay, prófessor í Viðskiptaháskóla Lundúna og dálkahöfundur í Financial Times, rifjaði upp deilurnar um, hvort gera ætti greinarmun á áhættu og óvissu. Í lokakvöldverði þingsins flutti hinn hálfníræði forseti Mont Pelerin-samtakanna, prófessor Allan Meltzer, ávarp (tekið upp áður).