Núverandi ríkisstjórn hefur komið aftur á stighækkandi tekjuskatti og sérstökum skatti á eignir umfram ákveðið lágmark og því í raun stighækkandi eignaskatti. Hún hefur einnig hækkað skatta á fyrirtæki og fjármagn. Föstudaginn 16. nóvember mun dr. Daniel Mitchell, skattasérfræðingur bandarísku hugveitunnar Cato Institute, ræða um röksemdirnar gegn stighækkandi sköttum og fyrir flötum sköttum. Fyrirlestur hans verður í Háskólatorgi Háskóla Íslands, í stofu HT-102, kl. 12–13. Nýstofnuð Samtök skattgreiðenda og RNH standa að fyrirlestrinum, en Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda, verður fundarstjóri.
Daniel Mitchell lauk MA-prófi í hagfræði frá Georgia-háskóla og doktorsprófi í hagfræði frá George Mason-háskóla í Virginíu. Hann starfaði fyrir fjárlaganefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og fyrir Heritage Foundation, áður en hann gerðist sérfræðingur Cato Institute í skattamálum. Hann hefur skrifað bók um flatan skatt og skrifar reglulega í blöð og tímarit, þar á meðal Wall Street Journal og New York Times. Hann hefur oft komið til Íslands og skrifað meðal annars um íslensk skattamál.
Þessi fyrirlestur er þáttur í fundaröð um Ísland, Evrópu og framtíð kapítalismans, sem RNH skipuleggur í samstarfi við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, en verndari þeirra samtaka er Margrét Thatcher, barónessa af Kesteven.