Mats Persson, forstöðumaður hugveitunnar Open Europe í Lundúnum, flytur fyrirlestur í boði RNH, Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Evrópuvaktarinnar mánudaginn 12. nóvember kl. 12–13 í stofu 201 í Odda, félagsvísindahúsi Háskóla Íslands. Nefnist fyrirlesturinn: „How Further Integration Could Hurt Europe’s Competitiveness.“ Hvernig samrunaþróunin innan ESB getur torveldað samkeppnishæfni Evrópu. Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, verður fundarstjóri. Open Europe er hugveita, sem starfar í tengslum við forystumenn í bresku atvinnulífi og hefur skrifstofur í Lundúnum og Brüssel. Einnig hefur þýsk systurstofnun Open Europe opnað skrifstofu í Berlín. Aðstandendur hugveitunnar eru hlynntir samstarfi Evrópuríkja, en telja, að samrunaþróunin innan Evrópusambandsins geti gengið of langt. Nauðsynlegt sé að örva hagvöxt og samkeppnishæfni í Evrópu og hverfa af leið miðstýringar. Stjórnarformaður Open Europe er Leach lávarður af Fairford. Mats Persson fæddist í Bankeryd í Svíþjóð og hefur lokið meistaraprófi frá Hagfræðiskólanum í Lundúnum, LSE. Hann hefur verið forstöðumaður Open Europe frá 2010, en var áður stjórnmálaráðgjafi í Washington-borg í Bandaríkjunum. Hann bloggar reglulega á heimasíðu Telegraph í Lundúnum.
Heimsókn Perssons til Íslands og fyrirlestur hans í Háskóla Íslands er þáttur í fyrirlestraröð árin 2012–2013, sem er samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, undir yfirskriftinni „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“.