Douglas Rasmussen, heimspekiprófessor í St. John’s-háskólanum í New York-ríki, flutti fyrirlestur á fundi RNH í Þjóðmenningarhúsinu föstudaginn 26. október 2012 um heimspeki og skáldskap rússnesk-bandarísku skáldkonunnar Ayns Rands. Fyrirlesturinn var í tilefni þess, að Almenna bókafélagið gaf sama dag út skáldsögu Rands, Undirstöðuna (Atlas Shrugged) í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur, en RNH og AB hafa samstarf um að koma verkum Rands út á íslensku. Rasmussen kvað Rand hafa trúað því, að tilgangur ríkisins væri að vernda réttindi einstaklinga og að kapítalisminn væru hvorki siðlaus né ósiðlegur, heldur eins konar rammi utan um þessi réttindi. Markmið lífsins væri, að einstaklingar gætu komist til þroska. Minnti Rand um það á Aristóteles að sögn Rasmussens. Taldi fyrirlesarinn Rand vera einn merkilegasta og sérkennilegasta heimspeking tuttugustu aldar, sem auk þess hefði komið boðskap sínum á framfæri í vinsælum skáldsögum.
Ásgeir Jóhannesson, formaður íslenska Ayn Rand-félagsins, setti fundinn og stjórnaði honum. Að loknum umræðum fluttu íslenskir tónlistarmenn nokkur klassísk verk, en Rand var unnandi klassískrar tónlistar. Þá sleit Gísli Hauksson, stjórnarformaður RNH, fundinum með örfáum orðum og bauð til móttöku. Fundurinn og móttakan voru hvort tveggja fjölsótt, og eintökin, sem á boðstólum voru af Undirstöðunni, runnu út eins og heitar lummur. Á Andríki hefur birst blogg um bókina. Fréttablaðið sagði frá útkomunni 30. október og birti af því tilefni viðtal við Frosta Logason útvarpsmann um hugmyndir Ayns Rands. Viðskiptablaðið sagði frá útgáfuhófinu 3. nóvember. Morgunblaðið birti umsögn um Undirstöðuna 13. nóvember eftir Helga Vífil Júlíusson blaðamann. Fyrirlestur Rasmussens er aðgengilegur hér á Youtube og inngangsorð Ásgeirs Jóhannessonar hér.