Dr. Øystein Sørensen, prófessor í sagnfræði í Oslóarháskóla, flutti fyrirlestur 21. september 2012 á vegum Varðbergs og RNH um alræðishugarfar norska fjöldamorðingjans Anders Breiviks. Greindi hann þar langa stefnuskrá, sem Breivik hafði skilið eftir, áður en hann framdi glæpi sína. Sørensen sagði, að hugmyndir Breiviks væru næstar hugmyndum evrópskra nýfasista á okkar dögum, þótt auðvitað væri ekki unnt að kenna þeim um fjöldamorð hans. Það ríki, sem svaraði þó einna helst til hugmynda Breiviks, væri Íran undir stjórn múslimskra klerka, þótt Breivik sjálfur væri mjög fjandsamlegur siðum og háttum múslima.
Fróðlegar umræður urðu milli Sørensens og dr. Michaels Minkenbergs, sem staddur er á Erasmus-styrk í Háskóla Íslands, en Minkenberg hefur rannsakað hægriöfgahreyfingar í Evrópu. Hann telur, að Breivik hafi framið fjöldamorð sín til að vekja athygli á stefnuskrá sinni. Tók Sørensen undir það. Þá spurði Friðrik Sophusson, fyrrverandi fjármálaráðherra, sem dvalist hefur langdvölum í Noregi með konu sinni, Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur sendiherra, hvernig norska þjóðin brygðist við hroðaverkum Breiviks. Sørensen kvað nýja skýrslu sýna, að Norðmenn hefðu verið alls óundirbúnir undir slík illvirki. Rækileg frásögn er af fyrirlestri Sørensens í Morgunblaðinu 22. september 2012. Fyrirlesturinn er aðgengilegur hér á Youtube.