Prófessor Niels Erik Rosenfeldt: Hernaðarþjálfun í Moskvu

Niels Erik Rosenfeldt, sagnfræðingur og prófessor emeritus í Kaupmannahafnarháskóla, flutti fyrirlestur 10. september á vegum RNH, Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands og Varðbergs um leynistarfsemi Kominterns, Alþjóðasambands kommúnista, sem starfaði 1919–1943, en íslenski kommúnistaflokkurinn var aðili að Komintern. Var fyrirlesturinn fjölsóttur, enda hefur talsvert verið rætt um þetta efni hér eftir útkomu bókanna Sovét-Íslands. Óskalandsins eftir prófessor Þór Whitehead 2010 og Íslenskra kommúnista 1918–1998 eftir Hannes H. Gissurarson prófessor 2011. Þar kemur fram, að nokkrir erindrekar Kominterns komu til Íslands á þriðja og fjórða áratug og að rúmlega tuttugu íslenskir nemendur hlutu þjálfun í leyniskólum Kominterns 1929–1938. Rosenfeldt hefur skrifað bækur um efnið á dönsku og ensku. Í fyrirlestrinum sagðist hann hafa rekist á nokkur skeyti um íslenska kommúnista í breskum söfnum, en bresku leyniþjónustunni tókst að ráða dulmál á ýmsum skeytum, sem send voru frá Moskvu á fjórða áratug.

Dr. Þór Whitehead prófessor lét þess getið í umræðum eftir fyrirlesturinn, að hann hefði rekist á nokkur slík skeyti í rannsóknum sínum á breskum skjalasöfnum. Rosenfeldt kvað ólíklegt annað en íslensku nemendurnir á leyniskólum Kominterns í Moskvu hefðu fengið hernaðarþjálfun. Það hefði verið þáttur í námi þeirra, enda hefðu þetta verið byltingarskólar. Morgunblaðið birti 13. september viðtal við Rosenfeldt um niðurstöður rannsókna hans. Fyrirlestur Rosenfeldts er aðgengilegur hér á Youtube.

 

Comments are closed.