Næsti viðburður, sem RNH vill vekja athygli á, er fyrirlestur, sem dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, flytur á fundi Konfúsíusarstofnunarinnar í Háskóla Íslands föstudaginn 2. nóvember kl. 12–13 í stofu 207 í aðalbyggingu Háskólans. Fyrirlesturinn ber heitið „Maó: Sagan sem hefur verið sögð“. Í honum ræðir Hannes um ævisöguna Maó: Sagan sem aldrei var sögð eftir Jung Chang og Jon Halliday, en hún kom út á íslensku 2007. Ver hann verkið fyrir ádeilum þeirra Geirs Sigurðssonar, kínverskumælandi heimspekings og fyrrverandi forstöðumanns Konfúsíusarstofnunarinnar, og Sverris Jakobssonar sagnfræðings. Hannes ræðir meðal annars umdeilda orrustu á Luding-brúnni, tölu fórnarlamba í fjöldaaftökum og hungursneyðum, sem Maó varð valdur að, samanburð Maós og Hitlers og fleiri forvitnileg efni.
Hannes Hólmsteinn þýddi Svartbók kommúnismans á íslensku 2009 og gaf 2011 út 624 bls. sögu kommúnistahreyfingarinnar íslensku, þar sem rætt er í nokkrum köflum um samskipti íslenskra og kínverskra kommúnista. Ævisaga Maós eftir þau Jung Chang og Jon Halliday er enn bönnuð í Kína. Þótt Konfúsíusarstofnunin haldi ein fundinn, er fyrirlestur Hannesar Hólmsteins þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, undir yfirskriftinni „Evrópa fórnarlambanna: Glæpir kommúnismans í sögulegu ljósi“.