Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, sem situr í rannsóknarráði RNH, flytur fyrirlestur undir heitinu „Hvað segir stjórnmálahagfræðin okkur um íslenska peningalykt?“ í Þjóðarspeglinum svokallaða 26. október 2012, en þar kynna félagsvísindamenn niðurstöður helstu rannsókna sinna. Fyrirlestur Hannesar er liður í rannsóknarverkefni hans um „Umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýtingu“. Hann tekur þar til meðferðar svokallaða peningalykt í íslenskum sjávarþorpum og ber saman kenningar A. C. Pigous og R. H. Coases um slík óumsamin áhrif fyrir aðra af atvinnustarfsemi einkaaðila.
Fyrirlesturinn er í málstofu, sem haldin er í stofu 300 í Háskólatorgi kl. 15–17.45. Dr. Sveinn Agnarsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, er fundarstjóri. Þótt málstofan sé á vegum félagsvísindasviðs, er fyrirlesturinn þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, undir yfirskriftinni „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“.