Næsti viðburður á vegum RNH er erindi, sem norski blaðamaðurinn Jan Arild Snoen flytur mánudaginn 15. október um hlutdrægni evrópskra fjölmiðla gagnvart Bandaríkjum Norður-Ameríku kl. 12–13 í stofu 201 í Odda, félagsvísindahúsi Háskóla Íslands. Snoen telur, að evrópskir fjölmiðlar dragi upp mjög villandi og einhliða mynd af Bandaríkjamönnum og menningu þeirra. Einnig stendur IABF, Icelandic American Business Forum, að fundinum. Fundarstjóri verður fjármálasérfræðingurinn Jeffrey B. Sussman, formaður IABF.
Jan Arild Snoen fæddist 1964. Hann starfar hjá nettímaritinu Minerva í Osló og hefur gefið út nokkrar bækur, þar á meðal óopinbera ævisögu Carls Hagens, leiðtoga Framfaraflokksins, og verk til varnar hnattvæðingu og frjálsum alþjóðaviðskiptum. Hann er varaformaður Monticello Society í Noregi, sem stuðlar að vináttu Noregs og Bandaríkjanna. Eiginkona hans, Ellen Christiansen, hefur setið á þingi fyrir Hægri flokkinn. Fyrirlestur Snoens er þáttur í fyrirlestraröð, sem er samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, undir yfirskriftinni „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“.