Ástralski rithöfundurinn Anna Funder heldur fyrirlestur á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur um nýútkomna skáldsögu sína All That I Am mánudaginn 24. september kl. 12 í stofu 201 í Odda í Háskóla Íslands. Martin Regal, dósent í ensku við Háskóla Íslands, kynnir höfundinn og verk hennar.
Anna Funder fæddist árið 1966 í Ástralíu, lauk lagaprófi og síðan doktorsprófi í listrænni sköpun. Að námi loknu starfaði hún að mannréttindamálum fyrir Ástralíustjórn. Á árum sínum í Þýskalandi skrifaði hún bókina Stasiland. True Stories from behind the Berlin Wall en fyrir hana fékk hún Samuel Johnson-verðlaunin bresku árið 2004. Þar lýsa íbúar austan Berlínarmúrsins reynslu sinni af lögregluríkinu sem kommúnistar stofnuðu. Ugla gaf út Stasiland í íslenskri þýðingu fyrr á árinu 2012.
Nýjasta skáldsaga hennar, All That I Am, sem gerist meðal annars í Þýskalandi á dögum Hitlers, kom út í febrúar 2012 og hefur hlotið mikið lof og fjölda verðlauna.
Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku. Öllum er heimill aðgangur. Anna Funder kom hingað til lands í boði RNH og flutti erindi á alþjóðlegri ráðstefnu laugardaginn 22. september um „Evrópu fórnarlambanna“. Heimsókn hennar til Íslands er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, undir yfirskriftinni „Evrópa fórnarlambanna“.