Mánudaginn 17. september næstkomandi, kl. 8.30, mun kanadíski hagfræðingurinn dr. Michael Walker, fyrrverandi forstöðumaður Fraser stofnunarinnar í Kanada, halda fyrirlestur á morgunfundi RSE á Grand Hótel í Reykjavík um þróun atvinnufrelsis á Íslandi.
Tilefni fundarins er útgáfa samanburðarskýrslu um atvinnufrelsi þjóða árið 2010, hinnar svonefndu frelsisvísitölu, sem Fraser stofnunin lætur reikna út ár hvert, en um er að ræða einn almennasta og áreiðanlegasta mælikvarða á atvinnufrelsi í heiminum. Samkvæmt skýrslunni um árið 2009, sem birtist fyrir ári, hafði atvinnufrelsi á Íslandi þá snarminnkað. Hafði atvinnufrelsi þá aðeins minnkað hraðar í Venesúela.
Að loknu erindi Walkers mun Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri GAMMA og formaður stjórnar Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt, ræða stuttlega um niðurstöður skýrslunnar og leggja mat á, hvað Íslendingar geta gert til að auka frelsi í efnahagsmálum og bæta hag sinn í alþjóðlegum samanburði. Gert er ráð fyrir, að fundi ljúki um kl. 10. Ekki þarf að greiða aðgangseyri að fundinum, sem er öllum opinn. Heitt verður á könnunni. Þótt RNH haldi ekki fundinn í eigin nafni, hvetur það alla áhugamenn til að sækja hann, enda fellur hann vel að og inn í fyrirlestraröð þá, sem er samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, undir yfirskriftinni „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“.