Hannes H. Gissurarson bar saman kenningar Edmunds Burkes annars vegar og þriggja norræna hugsuða hins vegar í fyrirlestri í Dyflinni 17. september 2024. Hann rifjaði upp, að Tacitus og Montesquieu höfðu báðir lýst tveimur norrænum hugmyndum, að konungar væru settir undir sömu lög og þegnar þeirra og að setja mætti þá af, brytu þeir alvarlega gegn þessum lögum. Þessar hugmyndir kæmu skýrt fram í Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Þrír breskir hugsuðir hefðu bundið þær í kerfi, John Locke, David Hume og Adam Smith, og með þeim hefði orðið til klassísk frjálshyggja. Hún hefði hins vegar greinst í íhaldssama og róttæka frjálshyggju í frönsku stjórnarbyltingunni, og hefði Burke gerst mælskur talsmaður hinnar íhaldssömu.
Tveir áhrifamestu og merkustu frjálshyggjumenn Norðurlanda á átjándu og nítjándu öld, þeir Anders Chydenius og Nikolai F. S. Grundtvigm hefðu báðir verið íhaldssamir frjálshyggjumenn, andvígir frönsku stjórnarbyltingunni, en stuðningsmenn málfrelsis og viðskiptafrelsis. Grundtvig hefði þýtt rit Snorra Sturlusonar á dönsku og lagt áherslu á hinn norræna menningararf. Fróðlegt væri að bera saman Írland og Danmörku á nítjándu öld, því að löndin hefðu búið við svipaðar aðstæður og auðlindir. Ein ástæða til þess, að Danir náðu þá meiri árangri en Írar, var, að þeir réðu eigin málum og þjóðin var samstæð, ekki síst vegna þess átaks í skólamálum, sem Grundtvig beitti sér fyrir. Enn ættu hugmyndir Grundtvigs fullt erindi til nútímamanna, ekki síst þjóðleg frjálshyggja hans. Á meðal annarra ræðumanna á þinginu, sem hugveitan New Direction í Brüssel hélt, var Íslandsvinurinn Daniel Hannan, barón af Kingsclere.