Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, hélt rabbfund með nokkrum íhaldsstúdentum í Osló 14. nóvember, þar sem hann kynnti nýútkomna bók sína, Conservative Liberalism, North and South: Grundtvig, Einaudi and their Relevance Today. Sérstaklega varð Hannesi tíðrætt um Snorra Sturluson og frásagnir hans af baráttunni í Noregi milli stuðningsmanna hinna gömlu góðu laga, sem voru eins konar arfleifð kynslóðanna svipað og tungumálið, og konunganna, sem vildu taka sér lagasetningarvald. Hin norræna stjórnmálaarfleifð væri stórmerkileg. Hannes benti líka á, að greina mætti sérstaka norræna leið í alþjóðastjórnmálum, sem fælist í: 1) Rétti til að stofna eigið ríki og segja skilið við önnur, eins og Norðmenn gerðu 1905, Finnar 1917 og Íslendingar 1918. 2) Úrlausn landamæradeilna með atkvæðagreiðslum í umdeildum héruðum, eins og gert var í Slésvík 1920. 3) Sjálfstjórn þjóðabrota, eins og Álandseyinga og Færeyinga. 4) Úrlausn milliríkjadeilna með dómsmálum, eins og deilu Svía og Finna um Álandseyjar og deilu Norðmanna og Dana um Austur-Grænland. 5) Samstarf með lágmarksafsali fullveldis, eins og í Norðurlandaráði.
Hannes taldi samstarf Norðurlanda í Norðurlandaráði geta orðið betri fyrirmynd Evrópusambandsins en Bandaríki Norður-Ameríku, sem myndast hefði um sama tungumál og sömu stjórnmálaarfleifð og væru þess vegna miklu samleitari en ríki Evrópu. Hann rifjaði upp, að Einaudi væri iðulega talinn einn af feðrum Evrópusambandsins, og setti fram ýmsar tillögur í anda Einaudis um umbætur á Evrópusambandinu, þar á meðal um að skipta Evrópudómstólnum í tvo dómstóla, þar sem annar dæmdi í deilumálum einkaaðila, en hinn aðeins í deilumálum um valdsvið aðildarríkjanna og sambandsins sjálfs, og gæti sá dómstóll heitið „the Subsidiarity Court“, Nálægðarregludómstóllinn. Nálægðarreglan, sem ætti rætur að rekja til heilags Tómasar af Akvínas, kvæði á um, að ákvarðanir ætti að taka sem næst þeim, sem hún snerti. Einnig væri rétt að flytja löggjafarvald Evrópusambandsins frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til Evrópuþingsins og skipta því í tvær deildar, þar sem önnur væri núverandi ráðherraráð Evrópuríkjanna, en kosið væri til hinnar deildarinnar í almennum kosningum. Framkvæmdastjórnin ætti að breytast í venjulegt stjórnarráð.