Hagfræðideild Háskóla Íslands og RSE, Rannsóknarmiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, héldu alþjóðlega ráðstefnu um fiskihagfræði 8. nóvember 2024 í tilefni þess, að Ragnar Árnason, prófessor emeritus í fiskihagfræði, varð nýlega 75 ára, en á þessum tímamótum gaf Almenna bókafélagið út afmælisrit með tíu fræðilegum ritgerðum hans, Fish, Wealth, and Welfare: Selected Scientific Papers. Erindi fluttu auk Ragnars fiskihagfræðingarnir Rögnvaldur Hannesson og Trond Bjorndal, Viðskiptaháskólanum í Björgvin, en í pallborðsumræðum tóku síðan þátt Árni M. Mathiesen, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og aðstoðarframkvæmdastjóri Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, prófessor Peder Andersen, Kaupmannahafnarháskóla, og Guðmundur Kristjánsson útgerðarmaður. Stjórnaði umræðunum dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar.
Ragnar rifjaði upp, að á námsárum sínum á áttunda áratug tuttugustu aldar hefði hann starfað á sumrin á Þjóðhagsstofnun, en þar hefði honum verið falið það verkefni að kynna sér fiskihagfræði, eftir að ungur Íslendingur, Rögnvaldur Hannesson, hefði skrifað um hana doktorsritgerð árið 1975. Hefði áhugi hans á þessari grein þá kviknað. Íslendingar voru þá að gera sér grein fyrir, að takmarka þyrfti aðgang að fiskistofnunum. Áratuginn á undan hefðu síldveiðar brugðist vegna ofveiði, en ákveðið var þetta sama ár, 1975, að setja leyfilegan hámarksafla í síld, og fengu allir síldarbátarnir sömu aflahlutdeild. Bráðlega fóru að heyrast raddir um, að hagkvæmt gæti verið að leyfa framsal aflaheimilda milli báta. Ragnar spurði hins vegar: Hvers vegna ekki að leyfa það? Hann fékk Jakob Jakobsson fiskifræðing, sem var mikils metinn ráðgjafi stjórnvalda og útgerðarmanna, í lið með sér, og framsalið var leyft. Þetta var vísir að því kerfi framseljanlegra og varanlegra aflaheimilda, sem til varð í sjávarútvegi og hefur reynst í senn sjálfbært og arðbært. Framsalið tryggir, að þeir útgerðarmenn, sem reka báta sína með mestum hagnaði, halda áfram veiðum, en hinir flytjast í önnur störf, sem henta þeim betur.
Fjölmenni sótti ráðstefnuna, sem tókst hið besta. Voru fyrirlesarar og þátttakendur í pallborði allir sammála um, að Íslendingum hefði tekist að mynda í sjávarútvegi kerfi, sem leysti að miklu leyti þann vanda, sem hlytist af ótakmörkuðum aðgangi að takmarkaðri auðlind, samnýtingarbölið svokallaða (the tragedy of the commons). Að ráðstefnunni lokinni var móttaka í anddyri Háskólans, en um kvöldið sátu hinir erlendu gestir kvöldverð með Ragnari og nokkrum Íslendingum. Frá v.: Birgir Þór Runólfsson, Hannes H. Gissurarson, Árni M. Mathiesen, Trond Bjorndal, Ragnar Árnason, Rögnvaldur Hannesson, Peder Andersen og Guðmundur Kristjánsson.