Birgir Þór félagi í Mont Pelerin samtökunum

Dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, var kjörinn félagi í Mont Pelerin samtökunum á aðalfundi þeirra, sem haldinn er annað hvort ár og var að þessu sinni háður í Nýju Delhí á Indlandi 21.–26. september 2024. Auk hans sóttu Ragnar Árnason, prófessor emeritus í fiskihagfræði í Háskóla Íslands, og Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, fundinn. Mont Pelerin samtökin eru alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna, sem Friedrich A. von Hayek stofnaði í Sviss í Apríl 1947, en á meðal stofnfélaga voru hagfræðingarnir Maurice Allais, Milton Friedman og George J. Stigler, sem allir áttu auk Hayeks eftir að hljóta Nóbelsverðlaun í hagfræði, hinir kunnu hagfræðingar Frank H. Knight, faðir Chicago-skólans í hagfræði, Ludwig von Mises, einn af feðrum Austurríska skólans í hagfræði, og Luigi Einaudi, forseti Ítalíu 1948–1955, dr. Trygve Hoff, ritstjóri verslunartímaritsins Farmand í Noregi, Eli F. Heckscher, hagfræðiprófessor í Svíþjóð, og Herbert Tingsten, stjórnmálafræðiprófessor í Svíþjóð og síðar ritstjóri stórblaðsins Dagens Nyheter. Hannes sótti sinn fyrsta fund í Stanford haustið 1980, varð félagi haustið 1984, sat í stjórn samtakanna 1998–2004 og skipulagði ásamt prófessor Harold Demsetz fund samtakanna í Reykjavík í ágúst 2005.

Á fundinum tók Hannes tvisvar til máls. Á málstofu um hagstjórn á Indlandi var því lýst, hvernig menntamenn úr valdastéttinni tóku við völdum úr höndum Breta árið 1947 og komu á þunglamalegu kerfi skrifræðis og áætlunarbúskapar, þótt þeir varðveittu öll ytri merki lýðræðis. Hannes spurði, hvort ekki hefði verið heppilega að færa völdin til sjálfstjórnarsvæða, jafnt svæða undir beinni stjórn Breta, sem hefðu orðið lýðveldi, og furstadæma eins og Hyderabad og Mysore, en valdastéttin lagði þau undir sig með hervaldi skömmu eftir stofnun Indlands. Þá hefði ef til vill sprottið upp samkeppni um stjórnarhætti í stað þess, að allir væru neyddir undir sama kerfi, sem smíðað var af vinstri sinnuðum kennurum indversku valdastéttarinnar í Lundúnum, Oxford og Cambridge. Á málstofu um Nóbelsverðlaunin til Hayeks árið 1974, fyrir fimmtíu árum, sagði Hannes frá heimsókn Hayeks til Oxford vorið 1983, þar sem Hannes og félagar hans báðu um leyfi til að stofna Hayek Society til skrafs og ráðagerða. „Já, ef þið lofið mér að verða ekki hayekistar,“ svaraði Hayek. „Ég hef tekið eftir, að marxistarnir eru miklu verri en Marx og keynesverjarnir miklu verri en Keynes.“

Á fundinum fóru norrænu þátttakendurnir í kvöldverð á veitingastað eitt kvöldið og tóku með sér þýskan hagfræðing, Kristian Niemietz, sem átti skömmu seinna að tala á Íslandi. Frá v. David Andersson, Svíþjóð og Taívan, dr. Kristian Niemietz, dr. Lars Peder Nordbakken, Noregi, dr. Nils Karlson, Svíþjóð, próf. Ragnar Árnason, próf. Anna Agnarsdóttir (eiginkona Ragnars), Susanne Enger (eiginkona Karlsons), Svíþjóð, próf. Hannes H. Gissurarson og Håkan Gergils, Svíþjóð.

Comments are closed.